Össur Skarphéðinsson: VG sá samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í hillingum

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra er byrjaður að draga víglínuna milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Sem iðnaðarráðherra veit hann að líklega munu þingmenn vinstri grænna (VG) sækja mest að honum á kjörtímabilinu. Einmitt þess vegna sendir ráðherrann kaldar kveðjur í herbúðir vinstri grænna í blaðagrein í Fréttablaðinu í dag.

Össur Skarphéðinsson telur að framundan sé sársaukafullt uppgjör hjá VG enda beri þeir stærstu ábyrgðina á því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var mynduð í stað vinstri stjórnar. Telur ráðherrann að forystumenn vinstri grænna hafi lesið hina pólitískur stöðu kolvitlaust enda notað "gleraugu" Styrmis Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins. Í framhaldinu heldur Össur því fram að Reykjavíkurlistinn hafi dáið drottni sínum vegna þess að vinstri grænir hafi séð samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í hillingum fremur en meirihluta vinstri manna í borgarstjórn.

Össur segir meðal annars:

"Formaður VG kistulagði hins vegar alla möguleika á myndun vinstri stjórnar. Hann gerði það ljóst með skýrum hætti að VG gæti ekki hugsað sér að fara í ríkisstjórn með Framsókn. Árásir hans á Framsókn í uppgjörsþáttum ljósvakans bak kosningum gerðu það sérhverjum landsmanni ljóst. Bersýnilegt var, að forysta VG hafði lesið stöðuna með gleraugum ritstjóra Morgunblaðsins og taldi sig eiga möguleika á að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Öðru vísi er ekki hægt að skilja þá grófu fingurbrjóta sem VG átti á taflborði stjórnmálanna hina örlagaríku daga í kjölfar þingkosninganna. Það var þessi afstaða forystu VG sem hrinti af stað atburðarásinni sem leiddi til myndunar Þingvallastjórnarinnar."

Í niðurlagi greinar sinnar segir iðnaðarráðherra svo:

"Í uppgjörinu, sem hlýtur að fara fram um þessa atburðarás, hljóta menn líka að horfa til afdrifa Reykjavíkurlistans. Upp úr honum slitnaði vegna afskipta forystu VG - sem þá einsog nú virtist fremur sjá samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í hillingum en reyna myndun öflugs meirihluta til vinstri. Þetta er dálagleg ferilskrá hins grjótharða vinstris - eða hvað?"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband