Laugardagur, 29. desember 2007
Boðið upp á töfralausnir
Umræða um íslensku krónunnar og framtíð hennar hefur fengið byr undir vængi á síðustu dögum ársins, eftir ummæli Björgólfs Thors Björgólfssonar í viðtali við tímarit Viðskiptablaðsins og síðar í skemmtilegu viðtali í Kastljósi. Björgólfur Thor er sannfærður um að nauðsynlegt sé fyrir íslenskt efnahagslíf að innleiða erlendan gjaldmiðil í stað krónunnar, - evruna eða hugsanlega svissneskan franka.
Jafnvel Framsóknarflokkur Guðna Ágústssonar ætlar að skoða stöðu krónunnar, eins og kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þar segir Guðni: "Það verður verkefni flokksins að ræða þetta pólitískt, og fara yfir alla möguleika." Leiðtogi framsóknarmanna vill samhliða skoða samstarf við aðrar þjóðir, hvað svo sem það nú þýðir.
Íslenskir athafnamenn virðist í auknu mæli hafa vantrú á íslensku krónunni og þá ekki síst þeir sem standa fremstir í útrás íslenskra fyrirtækja. Þessi vantrú er á margan hátt skiljanleg en markeruð af viðskiptalegum hagsmunum.
Það er mikil einföldun að ræða um framtíð krónunnar og gefa í skyn að með því að kasta henni fyrir annan gjaldmiðil leysist flest vandamál sem við glímum við hér á landi. Peningastefna Seðlabanka Evrópu markast ekki af efnahagslegum veruleika hér á Íslandi, frekar en peningastefna annarra seðlabanka. Lausung í opinberum fjármálum hér á landi, (sem ég hef oftar en einu sinni gert að umtalsefni), heldur áfram þó krónunni verði fórnað. Ég skil ekki hvernig einhverjum dettur í hug að taka upp lágvaxtamynt í stað krónunnar samhliða því ístöðuleysi sem einkennir fjármál opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga. Slíkt er eins og að reyna að svökkva eld með olíu.
Áður en hægt er að ræða af einhverri alvöru um kosti þess og galla að taka um annan gjaldmiðil en krónuna verða menn að vinna heimavinnuna. Frá árinu 2000 hafa útgjöld ríkisins hækkað um 90% og á komandi ári stefnir ríkisstjórnin að því að auka útgjöld um nær 45 þúsund milljónir króna.
Íslenskir athafnamenn sem hafa áhyggjur af krónunni ættu því að beina athyglinni að undirliggjandi vanda og taka þátt í að leita lausna. Framsóknarmenn gerðu einnig best í því að hugleiða hvort útþensla ríkisútgjalda í valdatíð þeirra hafi verið til góðs.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það að leggja niður krónuna er þó a.m.k. eitt skref í því að fækka vandamálunum. Eins og fram kom hjá Björgólfi þá er Ísland eina smáríkið í heiminum, af einhverjum 40, sem heldur úti sérstakri mynt. Það er sem sagt sérlausn og eina undantekningin. A hverju ætti svo að vera áfram? Hér eru ekki lengur til staðar þær "sérstöku aðstæður" eins og það var kallað sem réttlætir sérstaka mynt. Í raun voru þessar hugmyndir um sérstakar aðstæður í raun notaðar til að koma til móts við þarfir viðskiptalífsins fyrst og fremst. Einkennilegt hvað sjaldan er rætt um hvað kemur almenningi vel - er það kannski aukaatriði? Það er enginn að halda því fram að það að leggja niður krónu leysi öll vandamál en gerir þau kannski gegnsæjari og allan samanburð raunhæfari en nú er. Stjórnvöld þurfa auðvitað að vera á bremsunni með útgjaldaaukningu en það á ekki að koma í veg fyrir að við leggjum krónunni sem fyrst. Það er þreytandi að hlusta á að það séu ekki réttu aðstæðurnar núna o.s.frv. - það eru aldrei "réttar" aðstæður. Það þarf bara í drífa í þessu máli, þ.e. leggja niður krónuna og taka upp evru. Það að taka upp aðra mynt en evru er forkastanleg skammtímahugsun þar sem Ísland mun hvort eð er ganga í ESB á einhverjum tímapunkti.
Babbitt (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 16:46
Sammála athugasemd Babbitts, sérstaklega um það að „einmitt núna“ sé þörf á því að hanga á flotkrónunni. Það er sama hvaða ofurkreppa myndast, ekki er slakað á stýrivöxtunum af viti. Flest lán sem eru tekin hér eru erlend hvort eð er. Spekúlantar mjólka krónuna þurra í vaxtamunarviðskiptum sem krefjast æ hærri stýrivaxta til þess að eiga við aukna áhættu, flökt og skuldatryggingarálag. Uppsöfnuð heildarskuld þeirra viðskipta er beinagrind í krónuskápnum. Við leysum ekki allan vandann með upptöku Evru, heldur byrjum þó að taka á honum. Amk verður þá lýðnum ljósara hver raunstaða þjóðarinnar er.
Ívar Pálsson, 29.12.2007 kl. 19:55
Nú taka bæði Kýpur og Malta upp evruna um áramóin, tvö eyríki sem bæði sjá marga kosti sem gera betur en vega upp ókostina. Þeim hefur tekist að vinna bug á þeim vandamálum sem þarf að sigrast á áður en þetta er gert, það er að ná settum verðbólgumarkmiðum, skuldastöðu gagnvart útlöndum og jafnvægi í fjármálum.
Það er hætt við að Íslendingar geti ekki náð þeim viðmiðum og þess vegna óttast ég að enn einu sinni verði gripið til skyndilausna, þegar menn verða komnir út í horn, með því t.d. að beintengja krónuna við evruna einhliða og þannig komast hjá því að uppfylla kröfur ESB. Þá tækist stjórnmálamönnum hið ótrúlega, að taka upp evruna með helstu göllum hennar en missa af kostunum.
Ár & síð, 29.12.2007 kl. 23:30
Fyrir það fyrsta er ósennilegt að það sé raunhæft að taka upp evru hér á landi einhliða á þess fyrst að ganga í Evrópusambandið. Það er þó að öllum líkindum tækinilega hægt, en í því fælist gríðarleg áhætta og ofan á það bætist síðan andstaða sambandsins við slíkt. Það væri varla gáfulegt að taka upp gjaldmiðil einhvers í óþökk hans. Aðild að Myntbandalagi Evrópusambandsins, án aðildar að sambandinu sjálfu, er ekki möguleg heldur vegna andstöðu þess.
Þess utan eru miklar líkur á að evran muni seint henta íslenzka hagkerfinu og aðstæðum hér á landi. Eins og Óli Björn bendir réttilega á verða ákvar'anir Seðlabanka Evrópusambandsins ekki teknar með sérstöku tilliti til stöðu mála hér á landi ef einhverju og alls ekki ef okkar hagsmunir stangast á við t.d. hagsmuni Þýzkalands. Stýrivextir bankans verða t.a.m. ekki hækkaðir til að slá á þenslu hér á landi ef það kemur niður á hagvexti í Þýzkalandi. Og raunar þyrfti ekki Þýzkaland til, enda yrði Ísland minnsta aðildarríki Evrópusambandsins, miðað við fólksfjölda, ef litið er til þeirra ríkja sem nú eru aðilar að sambandinu. Meira segja Malta hefur um hundrað þúsund fleiri íbúa en fyrirfinnast hér á landi.
Með evrunni hyrfu þau stjórntæki úr sögunni sem Seðlabanki Íslands hefur haft og hvort sem menn telja þau hafa virkað til þess að ekki þá er a.m.k. ljóst að þau myndu ekki virka neitt eftir að þau yrðu strikuð út. Eftir það hvíldi öll innlend hagstjórn fyrst og fremst á útgjöldum hins opinbera sem munu seint teljast traustvekjandi hagstjórnartæki, sérstaklega ekki þegar fer að styttast í kosningar. Upptaka evrunnar myndi auk þess þýða minni sveigjanleika í efnahagslífinu hér á landi og afleiðing þess gæti hæglega orðið atvinnuleysi og kaupmáttarrýrnun eins og bent hefur verið á.
Ýmsir hafa viljað meina að aðild að evrusvæðinu myndi þýða aukið aðhald við útgjöld opinberra aðila hér á landi. Samkvæmt kenningunni átti þetta að gerast, en hefur gengið upp og ofan. Ein helzta ástæðan er sú að svokallaður stöðugleikasáttmáli evrusvæðsins, sem kveður á um að að fjárlagahalli aðildarríkjanna megi ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu, er nánast lamaður eftir að Þjóðverjar og Frakkar hafa ítrekað brotið gegn honum án þess að vera refsað fyrir eins og gert er ráð fyrir, nokkuð sem þau hafa komizt upp með í krafti stærðar sinnar. Annað er að evruríkin hefur mörgum hverjum þótt þægilegt að geta kennt evrusvæðinu um eigin hagstjórnarmistök heimafyrir og virðast oftar en ekki komast upp með það gagnvart kjósendum sínum. Allt þetta hefur síðan áhrif á svæðið í heild.
Svona mætti halda lengi áfram. Í stuttu máli sagt myndi evran seint henta hagsmunum Íslendinga enda myndu ákvarðanir varðandi hafa seint taka mið af aðstæðum hér á landi. Við yrðum þá í þeirri aðstöðu að þurfa að vona að aðstæður hér á landi væru sem líkastar aðstæðum í stóru evruríkjunum sem Seðlabanki Evrópusambandsins leggur megináherzlu á að taka tillit til, þá sérstaklega Þýzkalands en Þjóðverjar fóru í raun fram á það þegar þeir samþykktu að fórna þýzka markinu að tekið væri sérstakt tillit til þeirra aðstæðna. Og einu hagstjórnartækin sem eftir yrðu hér á landi væru útgjöld hins opinbera.
Hjörtur J. Guðmundsson, 30.12.2007 kl. 12:53
Vil annars bara þakka þér Óli Björn fyrir þennan áhugaverða pistil sem og aðra pistla á blogginu!
Hjörtur J. Guðmundsson, 30.12.2007 kl. 15:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.