Afnám tekjuskatts af almennum launatekjum

Fyrir tæpum 30 árum hafði Sjálfstæðisflokkurinn það á stefnuskrá sinni að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum. Tekjuskatturinn stendur óhaggaður þó skattprósentan hafi verið lækkuð verulega á undanförnum árum. Margir telja það óraunhæft að stefna að afnámi tekjuskatts einstaklinga enda mun skatturinn skila ríkissjóði um 93,5 milljörðum króna á komandi ári samkvæmt fjárlögum. Afnám tekjuskatts einstaklinga af almennum launatekjum er þó langt frá því að vera jafnfjarlæg og í fyrstu virðist.

Frá árinu 2000 hafa útgjöld ríkissjóðs hækkað um 205 milljarða króna (tvöfaldast). Fjárlög 2008 gera ráð fyrir að ríkisútgjöld nemi alls 434 milljörðum króna en samkvæmt ríkisreikningi námu þau 229 milljörðum árið 2000. Miðað við þróun vísitölu neysluverðs námu útgjöldin um 314 milljörðum króna á meðalverðlagi yfirstandandi árs. Þetta þýðir að á föstu verðlagi hafa útgjöld hækkað um 120 milljarða.

Hver fjögurra manna fjölskylda er því að bera um 1,5 milljón króna aukin útgjöld á föstu verði árið 2008 miðað við aldamótaárið. Þetta þýðir liðlega 128 þúsund krónur að meðaltali í hverjum mánuði. (Skattgreiðendur ættu kannski að hugleiða hvort þjónusta ríkisins hafi batnað sem þessu nemur).

Fjárlög fyrir næsta ár gera ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga nemi alls 93,5 milljörðum, eins og áður segir. Með öðrum orðum: Ef stigið hefði verið á bremsuna í þróun ríkisútgjalda hefði verið hægt að afmena tekjuskatt einstaklinga og raunar gott betur því nær 27 milljarðar króna hefðu staðið eftir að raunvirði.

Eins og haldið hefur verið fram hér hefur mikill vöxtur tekna ríkissjóðs, vegna efnahagslegrar uppsveiflu, orðið til þess að lausung einkennir stjórn ríkisfjármála og raunar opinberra fjármála í heild sinni. Ég fæ því ekki betur séð en að það hefði verið efnahagslega skynsamlegt að afnema tekjuskattinn, minnka þar með tekjuauka ríkissjóðs sem aftur hefði kallað á aukið afhald og ráðdeild í ríkisrekstri.

Það er einnig augljóst að hægt hefði verið að taka upp einfaldan flatan 10% skatt á launatekjur t.d. yfir 500 þúsund krónur. Þar með væri enginn greinarmunur gerður á uppruna tekna einstaklinga en ríkissjóður hefði haldið eftir verulegum tekjum, sem aftur hefðu hins vegar verið notaðar í hítina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Mæltu manna heilastur.

Ég hef til að mynda alltaf furðað mig á því að ef rökin sem gilda fyrir lækkun á tekjuskatti fyrirtækja halda, (s.s. lækkun skatta eykur veltu þessara sömu fyrirtækja og á endanum stendur ríkissjóður eftir með skattalækkunina bætta og vel það vegna markfeldisáhrifa veltuskatta os.frv og allir í samfélaginu hagnast á því ) ætti hið sama ekki og að gilda um einstaklinga. Sömuleiðis, ef að rökin halda á annað borð þá er rökrétt að álíta að enn meiri lækkun gerði enn meira gott og að besta fengist þ.a.l. með því að afnema tekjuskattinn alveg.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 30.12.2007 kl. 15:11

2 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Það er satt að segja sérkennilega "absúrd" að enn skulu fullorðnir einstaklingar og ábyrgir samfélagsþegnar halda sig við og rifja upp unggæðisleg áróðurs-slagorð eins og skattleysi tekna.    Frjálshyggjan hefur hvergi sýnt fram á möguleika á því að reka samfélag án skattheimtu sem tengist tekjum einstaklinganna beint.   Það hefur heldur ekki reynst auðvelt að rökstyðja að þau samfélög séu heilbrigðari og afkastameiri efnahagslega  - sem skera niður skattheimtuna en flytja kostnað af menntun og heilbrigðisþjónustu yfir á einstaklingana sjálfa (eða á vinnumarkaðinn).        Skattalaus samfélög eru óhugsandi áróðursklisjur - - og að mínu mati ekki viðunandi að slíku sé haldið fram af þeim sem vilja leggja ábyrgt að mörkum

Það er hins vegar alltaf mikilvægt að krefja stjórnendur og framkvæmdavaldið í lýðræðisríkjum um hagsýna meðferð fjármuna - - ekki síður en um góða og skilvirka þjónustu heilbrigðiskerfis og menntastofnana.      Merkilegt er samt að fá stafestingar á því að hagnaðardrifin einkavæðing í heilbrigðis og menntakerfum Vesturlanda virðist alltaf eiga það sem sameiginleg einkenni að auka heildarkostnað - um leið og aðgengi takmarkast.     Þess vegna eru flestar ríkisstjórnir að takmarka um þessar mundir möguleika á hagnaðardrifnum rekstri á þessum mikilvægu sviðum almannaþjónustunnar.  (Sjálfseignarstofnanir (not for profit) og samvinnufélög virðast hins vegar sækja í sig veðrið og aukast verulega að umfangi í menntakerfum og heilbrigðisþjónustu -  bæði innan Evrópubandalagsins og í USA og Canada.  Þarna liggur etv. tækifæri fyrir okkur til að auka og bæta árangur og þjónustu í menntun og heilbrigði - fremur en með ábyrgðarlausum skattalækkunum - amk. ef skattalækkanir framkalla hækkun á sjúklingagjöldum og skólagjöldum.)  

Benedikt Sigurðarson, 30.12.2007 kl. 15:15

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Það er gott hjá þér Óli Björn,að minna á þessi loforð Sjálfstæðisfl.á sínum tíma að afnema tekjuskatt  í áföngum af almennum launatekjum.Þetta voru loforð blekkinga,sem aldrei átti að standa við,en  voru miskunarlaust lamin í kjósendur,sem kosgleyptu.Hins vegar hafa Sjálfstæðismenn verið duglegir að lækka skatta hjá fyrirtækjum.

Ég tek undir orð Kristins,að stefnu - og úrræðaeysi íhaldsins og framsóknar í sjávarútvegsmálum allt frá því kvótinn kom til sögunnar l984 ,er eins og höfuðlaus sköpun fíflhyggjunnar.Ég vil þakka Kristni fyrir áratuga gangrýni hans á flokksbræður sína í sjávarútvegsmálum og vel skilgreinda stefnu til úrbótar.Þjóðin lætur alltaf blekkjast í þessum málum,aðeins 10-15% vita hvað um er að tefla öðrum er skítsama.Þetta er eins og illkynjað mein,sem ekki er hægt að lækna.

Kristján Pétursson, 30.12.2007 kl. 21:31

4 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Jæja góðir landsmenn, góð umræða og gagnleg.


Ég vil segja þetta  við Benedikt: Ef að lækkun tekjuskatts á fyrirtæki hefur skilað auknum tekjum í ríkissjóð (sem að fjármálaráðherra, forsætisráðherra og flest allir sem tök hafa á að meta það fullyrða), þá spyr ég bara - er ekki enn meiri lækkun ávísun á enn meiri tekjuauka. Sömuleiðis, ef að lækkun tekjuskatts á fyrirtæki hefur þessi áhrif, hefur þá ekki lækkun á tekjuskatti einstaklinga sömu áhrif?


Að lokum vil ég taka það fram að ég er ekki talsmaður einkavæðingar. Ég vil veg ríkisfyrirtækja sem starfa í almannaþágu sem mestan. Það er því í þeim anda sem ég spyr fyrrnefndra spurninga. Ef að þú lítur á þá, má ég leifa mér að segja staðreynd, að tekjur ríkissjóðs hafi aukist í kjölfar skattalækkana, er það góður grunnur til að afnema beinan þátttökukostnað einstaklinga í, t.d. komugjöldum til heilbrigðisstofnanna, skólagjöld og Hvalfjarðargöng, sem að ég lít á sem hið besta mál.

Mér finnst það heillandi hugmynd að hafa einungis veltuskatta. Það er mjög réttlát skattheimta þar sem þeir borga mest sem mest hafa efnin, þar sem þeir neyta væntanlega mest. 

Þór Ludwig Stiefel TORA, 31.12.2007 kl. 00:33

5 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góð umræða og gagnleg segi ég eins og fleiri hérna.

Við mættum allavega byrja á að lækka tekjuskattinn til samræmis við þann tekjuskatt sem fyrirtækin greiða þ e 18%.  

Marta B Helgadóttir, 31.12.2007 kl. 02:11

6 Smámynd: Skilningur

Ég skil.

Skilningur, 31.12.2007 kl. 02:20

7 Smámynd: Halldór Grétar Einarsson

"Mér finnst það heillandi hugmynd að hafa einungis veltuskatta. Það er mjög réttlát skattheimta þar sem þeir borga mest sem mest hafa efnin, þar sem þeir neyta væntanlega mest."  (Þór Þórunnarson)

 Sammála

  • Veltuskattar og lágir tekjuskattar (eða afnám) draga líka stórlega úr skattsvikum því  tekjuskattsvik eru líklega algengustu skattsvikin.
  • Veltuskattar og lágir tekjuskattar hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar en letja eyðslu (maður borgar skattinn þegar maður eyðir  ).
  • Veltuskattar og lágir tekjuskattar einfalda bótakerfin og gera þau skilvirkari því víxlverkun bóta og skatta (jaðarskattar) afleggst.

Ég skil því ekki að nokkur maður geti verið á móti svona fyrirkomulagi.

Halldór Grétar Einarsson, 31.12.2007 kl. 11:16

8 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Margt er rétt um, að lág afgjöld, hamla undanskotum.  Einnig er það og rétt, að það stuðlar að heilbrigðum rekstri, að geta ekki ævinlega syndgað upp á náðina, líkt og virðist gert í sumum ,,geirum" ríkisrekstursins.

Einnig ber að hafa í huga, að allskonar úttektir og ,,með faglegum hætti" aðferðir eru mjög svo kaupdýrar og stappar nærri því, að allskonar aðkeypt ,,sérfræðiaðstooð" jafnist á við heftina af öðrum rekstrarkosnaði. 

Mér hugnast hvað best, nú sem fyrr, að við skoðum úrsögn ú EES og Schengen, hefjum TVÍHLIÐA VIÐRÆÐUR að hætti Svissara og eigum við þá orðastað um, að fá að taka upp gjaldmiðil þeirra, með þeim skyldum, sem því mega fylgja, svo sem afnámi Verðtryggingar og annars sérhagsmuna-tengdum reglum, sem eru venjulegu fólki nánast drápsklyfjar.

Með þökk fyrir pikkið á árinu og von um hófstillt pikk á því næsta.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 31.12.2007 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband