Mánudagur, 14. janúar 2008
Skattkerfi fyrir hina betur settu
Flest bendir til að kjarasamningar verði erfiðir. Verkalýðshreyfingin hefur með réttu beint athyglinni að skattkerfinu, en tillögur hennar eru byggðar á misskilningi og ganga í raun gegn hagsmunum meirihluta íslenskra launamanna. Það breytir ekki hinu að það er skynsamlegt af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að krefjast úrbóta á skattkerfinu.
Viðskiptablaðið gaf út veglegt tímarit - Áramót - milli jóla og nýárs. Þar skrifaði ég stutta grein um skattkerfið, þar sem því var haldið fram að kerfið þjóni fyrst og fremst þeim sem betur eru settir. Undir lok liðins árs rifjaði ég einnig upp hér á blogginu gamalt loforð Sjálfstæðisflokksins, að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum.
Í tilefni af kjarasamningum leyfi ég mér að birta hér greinina úr Viðskiptablaðinu:
Skattkerfið er sú umgjörð sem stjórnmálamenn sníða viðskipta- og efnahagslífi þjóðarinnar. Þeir geta sniðið hana þannig að þjóðfélagið eflist, verði þróttmeira og einstaklingar og fyrirtæki dafni en stjórnmálamennirnir geta einnig gert umgjörðina svo þrönga að smá saman er efnahagslífið kæft og frumkvæði einstaklinganna drepið. Skattkerfið er því eitt mikilvægasta stjórntæki sem stjórnmálamenn hafa tekið sér og því miður kennir sagan okkur að þeir hafa oft farið illa með tækið enda er það vandmeðfarið.
Hagfræðingar eru gjarnir á að deila við hvern annan og virðast sammála um fátt annað en gildi sinnar fræðigreinar. En flestir þeirra (a.m.k. þeir sem teljast sæmilega frjálslyndir) eru sammála um að eitt lögmál sé í gildi:
Því meira sem eitthvað er skattlagt því minna færðu af því. Að sama skapi: Því meira sem velgengni er skattlögð því minni verður velgengnin.
Því ætti einstaklingur að vinna meira ef mesti hluti afrakstursins fer til ríkisins? Því ætti einstaklingur að taka áhættu í fjárfestingum ef stór hluti hugsanlegs hagnaðar rennur í opinberan sjóð? Því að láta sig dreyma stóra drauma þegar litlir draumar kosta minna?
Einföld sannindi
John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, gerði sér grein fyrir þeirri hættu sem fylgir skattheimtuvaldi stjórnmálamanna. Á fundi Félags hagfræðinga í New York í desember 1962 sagði hann meðal annars:
"Efnahagskerfi sem er þrúgað af háum sköttum mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilega hagvöxt eða nægilega mörg störf."
Þessi einföldu sannindi ættu flestum Íslendingum að vera ljós. Krónískur halli á ríkissjóði og uppdráttarsýki efnahagslífsins einkenndi íslenskt þjóðarbú allt fram á síðasta áratug liðinnar aldar. Með einkavæðingu, auknu frjálsræði á fjármálamarkaði með frjálsum fjármagnsflutningum og síðast en ekki síst með markvissum skrefum í lækkun skatta, var efnahagslífinu gefin vítamínssprauta.
Íslendingar hafa lært að með því að skattleggja minna er hægt að fá meira. Með því að hætta að refsa fyrir velgengni með íþyngjandi sköttum hefur velmegun og hagsæld aukist.
Skattkerfið ræður því miklu um efnahagslega afkomu þjóðarinnar um leið og það markar umsvif ríkiskerfisins á hverjum tíma.
Á undanförnum árum hafa verið stigin nokkur mikilvæg skref í breytingum á skattkerfinu, þó enn eigi eftir að sníða verstu agnúana af tekjuskattskerfi einstaklinga.
Tekjuskattur fyrirtækja hefur verið lækkaður og tekjur ríkissjóðs hafa margfaldast, en í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þarf að halda áfram á sömu braut. Fjármagnstekjuskattur er einfaldur í framkvæmd og hefur stutt við gríðarlega grósku í íslensku fjármálalífi og atvinnulífi almennt. Meira að segja vinstri-grænir eru farnir að átta sig á því að ekki er skynsamlegt að ganga hart fram í skattlagningu fjármagnstekna.
Eykur launamuninn
En eftir stendur tekjuskattur einstaklinga þó nokkuð hafi miðað með lægri skattprósentu. Vandinn við gildandi tekjuskattskerfi er fyrst og fremst tvíþættur: Annars vegar draga háir jaðarskattar úr umsvifum og hvetja til svartrar atvinnustarfsemi og hins vegar hamla þeir því að hægt sé hækka laun þeirra sem lægst hafa launin. Skattkerfið er fyrir þá betur settu en refsar þeim sem lægri laun hafa.
Eðlilega sér einstaklingur lítinn tilgang í því að afla sér aukinna tekna ef hann heldur litlum hluta þeirra eftir vegna skerðinga í formi tekjutenginga. Háir jaðarskattar eru meira íþyngjandi fyrir þá sem hafa lægstu launin, eru með litla menntun og/eða eru á vinnumarkaði þar sem lítil eða engin samkeppni ríkir um vinnuaflið.
Háir jaðarskattar þrýsta á að laun þeirra hærri launuðu séu hækkuð á meðan aðrir sitja eftir. Ástæða þessa er ekki flókin. Launþegar hafa fyrst og fremst áhuga á ráðstöfunartekjum þ.e. hversu mikið er eftir í "launaumslaginu" þegar skattar hafa verið greiddir. Þeir launþegar sem eru hreyfanlegir - eiga möguleika á vinnu á tveimur eða fleiri stöðum - eru yfirleitt betur borgaðir en hinir. Þetta þýðir að atvinnurekandinn verður að bæta viðkomandi upp skertar rauntekjur vegna hárra jaðarskatta. Launþeginn mun annað hvort leita sér að vinni þar sem honum er bættur skaðinn eða hreinlega þiggja lægra launað starf þar álagið er minna, ábyrgðin minni og vinnutíminn styttri. Háir jaðarskattar eru því fremur til þess fallnir að auka launamun í þjóðfélaginu en draga úr honum. Hið sama á við um stighækkandi skattprósentu.
Mikilvægasta verkefni fjármálaráðherra
Mikilvægasta verkefni fjármálaráðherra á yfirstandandi kjörtímabili er að stokka upp tekjuskattskerfi einstaklinga með það að markmiði að einfalda það, draga úr eða fella niður tekjutengingar og taka upp eina einfalda skattprósentu.
Fyrir liðlega 12 árum lagði Viðskiptablaðið til að tekinn yrði upp ein skattprósenta fyrir einstaklinga. Tillagan var einföld: Eitt 5% skattþrep á allar tekjur óháð uppruna. Samhliða var m.a. lagt til að niðurgreiðslur í landbúnaði yrði lagðar niður sem og vaxtabætur. Hér verða rök Viðskiptablaðsins ekki rakin frekar, en mörgum þótti blaðið ganga full langt í hugmyndum sínum.
En fjármálaráðherra getur gengið í smiðju fleiri en Viðskiptablaðsins til að undirbúa uppskurðinn og koma á fót einföldum flötum tekjuskatti. Árið 1998 lögðu gamlir félagar hans, Pétur Blöndal og Vilhjálmur Egilsson, fram frumvarp um breytingar á lögum um tekjuskatt. Hugmynd þeirra var einföld. Tekjuskattur og útsvar átti að lækka í undir 20% á sjö árum. Samhliða átti að fella niður persónuafslátt, sjómannaafslátt, vaxtabætur og hátekjuskattinn svokallaða. Barnabætur átti að fella undir sérlög og teknar upp sérstakar húsnæðisbætur í stað húsaleigu- og vaxtabóta. Markmiðið var að gera skattkerfið einfaldara, en um leið skilja að skatta og félagslega aðstoð. Tillögur tvímenningana féllu í grýttan jarðveg en efnislega voru þær í takt við hugmyndir Viðskiptablaðsins.
Fjármálaráðherra gerði vel í því að taka hús á Pétri og Vilhjálmi, rifja upp hugmyndir þeirra og hrinda þeim í framkvæmd. Fátt yrði meiri kjarabót fyrir íslenska launamenn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Dharma
Það að lækka skatta á þenslutímum er að mínu mati olía á eldinn.
Einstaklingar fagna ekki skattalækkunum með því að hlaupa útí banka til að minnka skuldabyrði sína. Þegar hann sér að hann hefur meira fé milli handana að þá er það sama og geta tekið enn eitt lánið (það verður til rúm fyrir annað skuldabréf að borga af).
Í flestum tilvikum er fjárhagsvandi sama sem hegðunarvandi, þar sem fólk hefur komið sér upp lífsmunstri (allt, núna). Lykilorðin í sambandi við þennan hegðunarvanda eru td: skammsýni (eignast allt NÚNA), við lærum það sem fyrir okkur er haft (foreldrar, vinir kenna okkur að eignast allt núna, með lántökum), uppræðsla hefur ekki verið í hávegum höfð í þessu blessaða menntakerfi okkar, krökkum í skóla er ekki kynnt hætishót um meðferð pening og valmöguleikana.
Ég geng á meðal fjöldans "hin gráu andlit" og ég held ég geti sagt það, að í svona 90% tilfella þegar á að framkvæma eitthvað, kaupa nýjan bíl, sjónvarp, sófasett, þvottavél, sumarfrí á Mallorca að þá er talað um lántöku, yfirdrátt og léttgreiðslur......
Ef fólk þar af leiðandi sér að hægt er að bæta ofan á skuldapakkan þá gerir það það.
Hins vegar finnst mér í nánustu framtíð vera rými fyrir skattalækkanir þeas næstu 1-2 árin eða svo..
Við viljum öll stöðuleika þannig hefur almenningur það best, og ef almenningur hefur það gott þá græða allir ekki satt.
gfs (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 23:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.