Þriðjudagur, 22. janúar 2008
Flest bendir til verðhruns á Wall Street í dag
Flest bendir til að hlutabréf muni falla verulega í verði þegar hlutabréfamarkaðir verða opnaðir í Bandaríkjunum, en í gær var frídagur í minningu Martins Luthers King. Vísitala framvirka samninga gefur tilefni til að ætla að dagurinn gæti orðið sá versti frá hryðjuverkaárásunum 11. september 2001.
Miklar áhyggjur af efnahagssamdrætti í Bandaríkjunum hafa orðið til þess að fjárfestar halda að sér höndum og hafa skipulega fært fjármuni úr hlutabréfum í aðrar eignir sem taldar eru tryggari.
Gærdagurinn var svipaður og hryllingsmynd fyrir fjármálamarkaðinn í Evrópu og Asíu. MSCI heimsvísitalan féll um 3% og hefur ekki lækkað meira á einum degi frá 2002. Vísitölur hlutabréfa á helstu fjármálamörkuðum eru a.m.k. 20% lægri en hæsta gildi á liðnu ári.
Fall á verðmæti hlutabréfa á helstu mörkuðum heims getur haft keðjuverkandi áhrif á efnahagsþróun og ráðherrar Evrópusambandsins hafa lýst verulegum áhyggjum af því að verðfall hlutabréfa muni birtast í efnahagslegum samdrætti innan sambandsins.
Það sem af er deginum hefur verið mikill órói á mörkuðum í Evrópu, en margir stofnanafjárfestar voru þó í kauphug, vegna orðróms um samþætta aðgerð Englandsbanka og Seðlabanka Evrópu um verulega lækkun vaxta. En einnig bíða menn þess að markaðir opni í Bandaríkjunum (kl. 14.30 að íslenskum tíma). Síðasta vika var sú versta frá júlí 2002 í Bandaríkjunum og eins og áður segir benda framvirkir samningar ekki til mikillar bjartsýni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.