Steingrímur J. líttu þér nær

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, hefur lengi verið í hópi þeirra stjórnmálamanna sem ég hef borið hvað mesta virðingu fyrir. Ekki vegna þess að ég sé sammála honum (því fer fjarri) heldur vegna þess að mér hefur fundist hann verða heiðarlegur í stjórnmálabaráttu sinni, samkvæmur sjálfum sér og talað hreint út. Ekki síst vegna þessa geri ég kannski meiri kröfur til Steingríms J. en margra annarra stjórnmálamanna.

Það er skiljanlegt að formaður vinstri grænna sé ekki kátur með þróun mála í borgarstjórn Reykjavíkur. Annað væri óeðlilegt þegar búið er að svipta flokkinn völdum - raunar miklu meiri völdum en margir gera sér grein fyrir - í höfuðborg landsins. Reiði Steingríms J. er einnig skiljanleg þegar haft er í huga að hann líkt og Svandís Svavarsdóttir, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá Morgunblaðinu, gerir sér grein fyrir þeirri einföldu staðreynd að fyrir liðlega 100 dögum gátu vinstri grænir myndað sögulegan meirihluta í borgarstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hvað slíkt samstarf hefði leitt af sér mun aldrei koma í ljós, en að líkindum gert samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn líklegra en ella.

"Mér var nokkuð brugðið og maður hugsar út í hverslags stjórnmál er eiginlega komið," hefur Morgunblaðið eftir Steingrími J. í dag. Morgunblaðið hefur það eftir formanni vinstri grænna að útspil sjálfstæðismanna sé ótrúlegt og að hans mati sé farið yfir ákveðna línu bæði í pólitísku og siðferðislegu tilliti sem ekki sé venjan að fara yfir í íslenskum stjórnmálum. Síðan segir Steingrímur J. Sigfússon orðrétt:

"T.d. það að kaupa ekki stuðning einstaklinga með æðstu embættum, menn yrðu a.m.k. að vera einhver hópur eða hafa einhvern flokk á bak við sig sem bæri þá ábyrgð á viðkomandi og væri pólitískt bakland."

Steingrímur J. Sigfússon fagnaði þegar meirihluti sjálfstæðismanna og Framsóknarflokksins féll í október síðastliðnum. Þá talaði hann ekki um menn væru keyptir, þó framsókn hafi fengið formennsku í sjö nefndum með einn borgarfulltrúa. Í huga hans voru það ekki pólitísk hrossakaup.

Í febrúar 1980 var mynduð ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen og Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins. Með Gunnari voru tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þá var Steingrímur J. Sigfússon virkur í flokksstarfi Alþýðubandalagsins og í hreyfingu vinstri manna í Háskóla Íslands. Ástæða þess að framsóknarmenn og allaballar tóku höndum saman við Gunnar voru fyrst og fremst sú einfalda staðreynd að þeir töldu að þar með væri hægt að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn til frambúðar. Þeim varð ekki að ósk sinni.

En hver var munurinn á því að mynda stjórn með Gunnari Thoroddsen, gegn "baklandinu" og að Sjálfstæðisflokkurinn tæki höndum saman við gamlan samherja?

Afhverju talar Steingrímur J. Sigfússon í reiðikasti með þessum hætti?

Getur verið að hann skynji að samherjar hans í borgarstjórn hafi spilað illa af góðri hendi sem gat tryggt þeim völd í höfuðborginni og hugsanlega síðar í landstjórninni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleymdu því ekki að þá bjó Steingrímur í kjallaranum hjá Gunnari og þeir voru vinir.  Og þá meina ég vinir, ekki bara kunningjar.

tobbi (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband