Föstudagur, 18. maí 2007
Vandi Geirs H. Haarde
Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Geir H. Haarde myndi nýja ríkisstjórn með Samfylkingunni. Þegar horft er á sögu stjórnmála hér á landi, er það pólitískt afrek að tryggja flokki ríkisstjórnarþátttöku í 20 ár og vera alltaf í forystusætinu, fyrir utan nokkra mánuði.
Sjálfstæðismenn hafa í flestu verið hreiknir af sögunni og fáar ríkisstjórnir sjá þeir í meiri ljóma en samsteypu Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks - Viðreisn. Það var því við hæfi að stjórn sömu flokka undir forsæti Davíðs Oddssonar fengi einnig nafn; Viðeyjarstjórn.
Nú virðist vera búið að gefa væntanlegri ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Samfylkingar nafn. Baugsstjórnin skal hún nefnd og er þá vísað til þess að Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs hvatti til myndun slíkrar stjórnar í blaðagrein í DV fyrir kosningar.
Mér sýnist að þeir framsóknarmenn, sem nú sleikja sárin eftir kosningar, séu einna duglegastir við nafngiftina. Þannig hafði mbl.is eftir Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins: "Ég stend við það, að Baugsstjórnin er að verða að veruleika."
Á heimasíðu Framsóknarflokksins tekur Jón raunar enn sterkar til orða og segir:
"Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar er óskabarn eigenda eins stærsta auðfélags landsins, svo sem berlega kom fram í sérblaði DV sem gefið var út í kosningavikunni Framsóknarflokknum til ófrægingar. Ef þessi nýja ríkisstjórn kemst á koppinn verður hún trúlega kennd við foreldri sitt og nefnd Baugsstjórnin."
Jón tekur síðan fram í niðurlagi pistilsins "að Framsóknarmenn hafa vel getað hugsað sér að benda á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til að leiða viðræður við aðra núverandi stjórnarandstæðinga og Framsóknarmenn, ef slíkur stjórnarmyndunarkostur kemur yfirleitt til greina af hálfu Samfylkingarinnar".
Vandi Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins er því greinilega tvíþættur. Annars vegar er samningsstaða hans ekki jafn sterk og hefði mátt ætla fyrirfram gagnvart Samfylkingunni og hins vegar er erfitt að leggja upp með nýja ríkisstjórn sem þegar hefur fengið nafn sem greinilega á að gera neikvætt.
Fimmtudagur, 17. maí 2007
Ertu frjálshyggjumaður eða sósíalisti? - Taktu prófið!
Í nokkur ár hefur verið hægt að þreyta magnað próf á vefnum til að kanna pólitíska sannfærðingu viðkomandi. Prófið er skemmtilegt og vel út hugsað, en nokkrar spurningarnar kunna að vera nokkuð fjarlægar okkur Íslendingum.
Nú þegar nýir þingmenn eru að setjast á Alþingi og ný ríkisstjórn að taka við völdum innan skamms er ekki úr vegi að fá ráðherra og þingmenn til að þreyta prófið. En síðan ættu allir að skoða sína stöðu. Veistu hvar þú stendur miðað við Thatcher, eða Gandhi? Ertu kannki nær Stalín en þig grunar eða hugsanlega sammála Friedman. Finndu út.
Pólítíski áttavitinn er hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Fimmtudagur, 17. maí 2007
Verkefni nýrrar ríkisstjórnar
Líklega getur fátt komið í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndi nýja ríkisstjórn á næstu dögum.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er í samræmi við það sem ég taldi líklegt daginn eftir kosningar:
"Ég fæ ekki annað séð en að í raun séu aðeins tveir möguleikar við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Annað hvort myndar Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn með Samfylkingu eða að Framsókn taki höndum saman við vinstri græna og Samfylkingu. Tölfræðilega er auðvitað hægt að hugsa sér að vinstri grænir og sjálfstæðismenn gangi til sængur, en slík ríkisstjórn yrði varla möguleg án þess að báðir flokkar gæfu eftir og vinstri grænir í stóðiðjumálum sérstaklega."
Ekki eru allir sjálfstæðismenn á því að hefja samstarf við Samfylkinguna, eins og ég benti á í pistli síðastliðinn mánudag. Enginn þingmaður sjálfstæðismanna mun hins vegar setja sig upp á móti formanni flokksins, þvert á móti muna allir styðja hann við myndun nýrrar ríkisstjórnar, raunar hvaða ríkisstjórnar sem er.
Eins og flestir, bíð ég spenntur eftir því að sjá málefnasamning nýrrar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde. Verkefnin sem bíða eru mikilvæg og ef ríkisstjórnin ætlar sér að ná þeim fram, verður hún að hefjast handa á fyrstu 18 mánuðum kjörtímabilsins.
Ég bíð og vona að eftirtalin verkefni verði í málefnaskránni:
1. Landbúnaðarmál. Hafist verði handa við að innleiða samkeppni í landbúnaði og innflutningur gefinn frjáls í ákveðnum skrefum á næstu fjórum árum.
2. Samgöngu- og fjarskiptamál: Gert verði stórátak í samgöngumálum til að tryggja öruggar samgöngur milli landshluta. Allir aðalþjóðvegir landsins verði breikkaðir og allar brýr verði tvíbreiðar. Ný samgönguáætlun kynnt til átta ára þar sem verkinu er hrint í framkvæmt. Fjarskipti verði tryggð á landinu öllu og öll íbúðarhús í sveitum og þéttbýli verði nettengd á næstu fimm árum. Líklega mun fátt efla samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar en góðar samgöngur og góð fjarskipti.
3. Uppskurður í heilbrigðiskerfinu: Einkarekstur verði hafinn til vegs og virðingar í heilbrigðiskerfinu með sama glæsilega hætti og gert hefur verið á undanförnum árum í íslenska háskólasamfélaginu.
4. Greiðum skuldina: Gæti verið yfirskrift í átaki til að bæta kjör aldraðra. Stór hluti þeirra sem nú hafa látið af störfum, er án lífeyrisréttinda, (ólíkt þeim kynslóðum sem koma á eftir), þetta tímabundna ástand verður að brúa og tryggja öllum viðunandi ævilífeyri. Með kerfisbreytingu í heilbrigðismálum og í samstarfi við sveitarfélög og einkaaðila er hægt á örskömmum tíma og tryggja öllum öldruðum það húsnæði og þjónustu, sem þeim er nauðsynleg.
5. Álver við Húsavík: Niðurstaða fáist strax hvort álver verði reist við Húsavík.
6. Skattar á fyrirtæki verði lækkaðir í 15% vegna ársins 2008.
7. Tekjuskattur einstaklinga verði lækkaður um 1% á hverju ári út kjörtímabilið.
8. Virðisaukaskattur á matvæli felldur niður fyrir lok árs 2009.
Og að lokum verða Ingibjörg Sólrún og Geir H. Haarde að gefa út eftirfarandi loforð:
Systurnar, Óstjórn og Óráðsía, fá ekki sæti í ríkisstjórninni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 16. maí 2007
5%-reglan er skynsamleg
Talsmenn Íslandshreyfingarinnar hafa farið mikinn frá því að niðurstöður alþingskosninganna lágu fyrir og gagnrýnt harðlega kosningalögin og þá sérstaklega ákvæðið um 5% lágmarks fylgi til að tryggja framboði þingmann.
Gildandi kosningalög eru í grunninn frá árinu 2000, með breytingum frá 2003 og 2006. Reglurnar hafa því öllum verið skýrar, þó flókinn útreikningur jöfnunarsæta sé ofar skilningi okkar flestra.
Það er því merkilegt hvernig Ómar Ragnarsson og félagar hans í Íslandshreyfingunni tala nú eftir kosningar, en ekki varð ég var við umræður um "ólýðræðisleg kosningalög" fyrir kosningar. Var það kannski vegna þess að talsmenn Íslandshreyfingarinnar voru sannfærðir um að þeim tækist að ná vel yfir 5% í kosningum? Hefði svo orðið, myndi Ómar Ragnarsson að líkindum tala með öðrum hætti en nú.
Á bloggi sínu segir Ómar meðal annars:
"Ólýðræðisleg kosningalög rændu þjóðinni því að hún gæti fellt stóriðjustjórnina. Íslandshreyfingin fékk fylgi sem hefði nægt til að koma tveimur mönnum á þing og þar með væri Geir Haarde nú að undirbúa afsögn."
Og nokkru síðar bætir Ómar við:
"Upp úr stendur því að með þeim ákvæðum sem sett voru á vegum stóru flokkanna inn í kosningalögin um 5% prósent lágmarksfylgi á landsvísu var þjóðin rænd því að meirihluti hennar réði, - komið var í veg fyrir að lýðræðið fengi framgang."
Þetta eru stór orð hjá formanni stjórnmálaflokks sem segist ætla að byggja upp sitt starf og halda áfram pólitískri baráttu.
Staðreyndin er auðvitað sú að 5%-reglan er skynsamleg fyrir flesta hluta sakir (þó auðvitað megi deilda um hvort prósentan eigi að vera lægri eða hærri). Ekki veit ég hvort Ómar Ragnarsson vill enga þröskulda eða lækka þann sem fyrir er. Til að vera sjálfum sér samkvæmur hlýtur hann að berjast fyrir fyrrnefndu leiðinni.
Með því að setja þröskuld af þessu tagi er einmitt verið að draga úr möguleikum þess að fram komi ýmis smáframboð og að flokkakerfið splundrist upp í marga smáflokka. Niðurstaðan verður sú að mynda þarf ríkisstjórnir með þátttöku margra flokka, með tilheyrandi eftirgjöf í öllum málaflokkum. Enginn nær sínu fram og úr verður eitthvert moð sem enginn kjósandi vill styðja.
Hitt er síðan rétt að kosningakerfið er langt frá því að vera gallalaust og verst er hve ógegnsætt og tilviljanakennt það er, eins og glögglega kom í ljós nú á laugardaginn. Þá vankanta þarf auðvitað að sníða af um leið og enn ein tilraunin verður gerð til að tryggja jafnvægi milli kjördæma.
Þriðjudagur, 15. maí 2007
Bandaríkjaher lokar á MySpace og YouTube
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna byrjaði í gær að hefta aðgang bandarískra hermanna að nokkrum vinsælustu internetsíðum heims, s.s. MySpace og YouTube. Rökin er fyrst og fremst þau að verið sé að koma í veg fyrir að viðkvæmar upplýsingar leki út og einnig er verið að vernda sjálfstætt internet sem bandaríski heraflinn hefur fyrir gríðarlegu álagi.
The Washington Post fjallaði um máli nú í morgun.
Mánudagur, 14. maí 2007
Össur hittir sjálfan sig fyrir
Össuri fannst Bjarni greinilega vera farinn að undirbúa sig um of fyrir þingmennskuna í aðdraganda kosninganna, en Össur taldi ólíklegt að hún biði Bjarna: "Bjarni Harðarson er í huga sínum orðinn þingmaður. Hann var mættur í svörtum þingmannsfrakka, meðan ég stóð auðvitað í rauðum vindstakki merktum Samfylkingunni einsog íþróttamaður á kappleik."
Á stundum er betra að segja minna en meira, eins og Össur hefur kynnst í gegnum tíðina, en daginn fyrir kjördag var hann fullur sjálfstraust og greinilega búinn að vinna sigur fyrirfram:
"Í báðum könnunum kvöldsins er ríkisstjórnin fallin. Það kæmi mér ekki á óvart að sama gerist á morgun, þegar talið er upp úr kössunum. Ég yrði heldur ekki hissa þó munurinn yrði meiri en kemur fram."
Mánudagur, 14. maí 2007
Björn Ingi næsti formaður Framsóknarflokksins
Aldrei verð ég sakaður um að vera hallur undir Framsókn, en úrslit kosninganna, þar sem Framsóknarflokkurinn beið afhroð, eru mér ekki að skapi og þá skiptir ríkisstjórnarþátttaka þeirra ekki máli.
Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, fékk erfitt hlutverk. Að byggja upp flokk, sem logaði í innanflokksdeilum. Félagar Jóns gerðu verkefnið í raun óvinnandi. Á síðari árum hafa ekki komið fram á leiksvið sjórnmálanna margir sem eru traustari stjórnmálamenn en Jón Sigurðsson og fáir hafa meiri þekkingu og skilning á efnahagslífinu og hann. Það er miður að Jón skyldi ekki ná kjöri á Alþingi.
Jón Sigurðsson er ef til vill ekki draumur ímyndarfræðinganna eða spunameistaranna. Hann tók að sér að brúa bilið á milli kynslóða í Framsóknarflokknum og sigla flokknum í gegnum erfiðar kosningar. Mótbyrinn var hins vegar meiri, en flestir áttu von á. Hann svaraði kalli félaga sinna í flokknum, yfirgaf gott embætti seðlabankastjóra og henti sér út í laugina. Það eru ekki margir sem eru tilbúnir til að setja einkahagsmuni til hliðar þegar gamlir flokksfélgar kalla á hjálp.
Allir hafa gert sér grein fyrir, og þó ekki síst Jón Sigurðsson sjálfur, að formennska hans í Framsóknarflokknum er tímabundin. Hann tók að sér brúarsmíðina og að henni lokinni mun hann víkja.
Þrátt fyrir útreiðina á laugardag er hins vegar ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur á að skipa nokkrum ungum og efnilegum mönnum. Birgir Jón Jónsson hefur þegar getið sér gott orð á Alþingi og tekist vel upp sem formaður fjárlaganefndar. Höskuldur Þór Þórhallsson, sem kemur inn sem nýr þingmaður Framsóknar, kann að vera óskrifað blað, en í viðtölum á kosninganótt gaf hann af sér góðan þokka.
En sterkasti maður Framsóknarflokksins til framtíðar er Björn Ingi Hrafnsson, leiðtogi flokksins í Reykjavík og borgarfulltrúi. Björn Ingi hefur komið fram af yfirvegun, er málefnalegur en um leið fastur yfir og fylginn sér.
Verkefni Framsóknarflokksins á næstu árum er að byggja upp fylgi á höfuðborgarsvæðinu. Enginn er betur til þess fallinn en Björn Ingi. Þeir ráðherrar flokksins sem héldu velli, Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir og Siv Friðleifsdóttir, eru öll fulltrúar eldri tíma innan flokksins og þau tvö fyrrnefndu eru að líkindum sitja sitt síðasta kjörtímabil.
Björn Ingi virðist hafa hæfileika til þess að ná til fólks á höfuðborgarsvæðinu en einnig á landsbyggðinni. Það er eftir slíku sem framsóknarmenn hljóta að leita að.
Mánudagur, 14. maí 2007
Ingibjörg Sólrún sagði formannskjör hennar aðeins skipta máli ef það leiddi til sigurs
Nú liggur dómurinn fyrir. Eftir tveggja ára formannstíð Ingibjargar Sólrúnar er staða Samfylkingarinnar veikari en áður. Stjórnarandstaða hefur ekki skilað flokknum neinu og formennska Ingibjargar Sólrúnar hefur leitt til þess að flokkurinn missti 4,2% fylgi frá kosningunum 2003, þegar Össur Skarphéðinsson sat við stýrið.
Athygli fjölmiðla og pólitískra fréttaskýrenda hefur fyrst og fremst verið á fylgishrun Framsóknarflokksins og þá fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu. Kannski er það eðlilegt en útkoma Samfylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu ætti að vera formanninum sérstakt áhyggjuefni.
Fylgi Samfylkingarinnar minnkaði í öllum kjördæmum en mest í Reykjavík norður þar sem fallið var hvorki meira né minna en 7,1%-stig. Slíkt hrun hefði vakið athygli fjölmiðla og stjórnmálafræðinga.
Greinilegt er af úrslitum kosninganna að Samfylkingin hefur átt mjög í vök að verjast á höfuðborgarsvæðinu, sem hlýtur að vekja upp spurningar um stöðu formannsins, ekki síst vegna bakgrunns hans sem borgarstjóra.
Fylgi Samfylkingar 2003 og 2007 | |||
2007 | 2003 | breyting | |
Reykjavík norður | 29,2 | 36,3 | -7,1 |
Reykjavík suður | 29,0 | 33,3 | -4,3 |
Suðvestur - kraginn | 28,4 | 32,8 | -4,4 |
Norðvestur | 21,2 | 23,2 | -2,0 |
Norðaustur | 20,8 | 23,4 | -2,6 |
Suðurkjördæmi | 26,8 | 29,7 | -2,9 |
Samtals | 26,8 | 31,0 | -4,2 |
Þegar Ingibjörg Sólrún tók við formennsku í Samfylkingunni sagði hún meðal annars: "Það er alveg ljóst, af þessum fundi, að kominn er fram á sjónarsviðið stór og öflugur flokkur, sem hefur sýnt samkeppnishæfni sína á hinum pólitíska markaði með eftirminnilegum hætti."
Munu einhverjir innan Samfylkingarinnar muna eftir þessum orðum formannsins?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 14. maí 2007
Vilja ekki Ingibjörgu Sólrúnu
Innan Sjálfstæðisflokksins eru margir mjög andvígir því að flokkurinn taki upp samstarf við Samfylkinguna í ríkisstjórn. Þeir sjálfstæðismenn sem vilja ekki ganga til samninga við Samfylkinguna, telja að með því að "hleypa" Samfylkingunni inn í ríkisstjórn sé verið að henda pólitískum bjarghring til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.
Neikvætt viðhorf til Ingibjargar Sólrúnar meðal sjálfstæðismanna er rótgróið, jafnt innan þingflokks og meðal almennra flokksmanna. Bent er á að pólitísk framtíð Ingibjargar Sólrúnar sé háð því að hún tryggi Samfylkingunni þátttöku í ríkisstjórn og um leið sjálfri sér valdamikið ráðherraembætti. Til þessa mega margir sjálfstæðismenn ekki hugsa og vilja fremur samstarf við vinstri græna, ef ekki eru taldar forsendur til að halda áfram samstarfinu við Framsóknarflokkinn.
Ég hef í dag rætt við marga sjálfstæðismenn og það er ljóst að það verður þungur róður fyrir Geir H. Haarde að sannfæra sitt fólk að rétt sé að semja við Ingibjörgu Sólrúnu, ef sú staða kemur upp.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 13. maí 2007
Ingibjörg Sólrún: Aðeins tveir kostir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er sammála mér um að raunverulega séu aðeins tveir raunhæfir kostir við myndun ríkisstjórnar. Í umræðum á Stöð 2 nú fyrir stuttu tók hún undir að annað hvort kæmi til greina að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tæki við völdum eða svokölluð R-listastjórn, Samfylkingar, Framsóknar og vinstri grænna yrði mynduð.