KR 1 - hinir 11

Í fjórum fyrstu leikjum sumarsins hefur KR aðeins náð einu stigi en tapað 11. Þetta er hin kalda tölfræði sem blasir við okkur sem styðjum Vesturbæjarstórveldið - Reykjavíkurstoltið eins og KR-ingar vilja á stundum kalla sitt lið.

Tölfræði segir ekki alltaf rétt frá, en að þessu sinni lýgur hún litlu og ýkir ekkert þegar kemur að frammistöðu KR í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Leikurinn í gærkvöldi á móti Víkingi var þar engin undantekning. Andleysi einkennir allt spil liðsins og sá karakter sem gert hefur KR að vinsælasta knattspyrnufélagi landsins er víðsfjarri. Að óbreyttu stefnir í óefni.

Fyrri hálfleikur á móti Víkingi var þokkalega spilaður af hálfu KR og brúnin á stuðningsmönnum var nokkuð létt, enda flestir sannfærðir um sigur. Janfvel ljósmyndarar dagblaðanna áttu von á því að boltinn myndi fyrr eða síðar rata í mark Víkinga og voru við öllu búnir við mark þeirra. Þeir veðjuðu vitlaust. Síðari hluti leiksins var dapur og fór leikur KR í skapið á fleirum en þeim er þetta skrifar.

Stuðningsmenn KR hafa oft þurft að horfa upp á fremur dapurt gengi, þó gleðistundirnar séu miklu fleiri. En eitt hafa stuðningsmennirnir verið þekktir fyrir: Þeir standa með sínum mönnum, sama hvað á gengur. Það var því dapurt að fylgjast með þekktum KR-ingum (sem sumir hverjir gangast upp í því að vera KR-ingar og láta birta myndir af sér í blöðum í fullum skrúða) yfirgefa áhorfendapallana áður en leik var lokið en nokkuð ljóst að víkingarnir úr Fossvogi færu með sigur af hólmi. Slíkir stuðningsmenn gefa "strákunum" ekki aukið sjálftraust eða kalla fram það besta.

Hvað svo sem stuðningsmönnum líður er ljóst að Vesturbæjarstórveldið verður að gera miklar breytingar á leik sínum. Í stjórnmálum hefur á stundum verið haft á orði að "ef kallinn í brúnni fiski ekki" þá eigi að skipta um skipsstjóra. Kannski að KR-ingar eigi að sækja í skóla stjórnmálanna að þessu sinni.


Starfar ekki í pólitík með hendur reyrðar fyrir aftan bak

Fyrir samráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur í nýrri ríkisstjórn er ekki úr vegi að lesa viðtal sem Agnes Bragadóttir átti við hana og birt var 26. júní 1994 í kjölfar þess að hún sagði af sér ráðherradómi. Jóhanna var ósátt við stefnu ríkisstjórnarinnar og þreytt deilunum við Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi formann Alþýðuflokksins.

Jóhanna var meðal annars spurð hvort henni léti illa að starfa með öðrum:

"Nei. Ágreiningur minn í ríkisstjórn, er að hluta til út af vinnubrögðum. Það gerist til dæmis einatt þannig, að það er komið að því að afgreiða þýðingarmikil mál á ríkisstjórnarfundi, að fyrst þá er málið kynnt fyrir öðrum ráðherrum en viðkomandi fagráðherra. Ég tel að menn eigi að byrja á því að ræða saman um hvernig taka eigi á málum og móta til þeirra afstöðu, hvaða áherslur eigi að leggja og hvað eigi að hafa forgang. Ég hef átt mjög góða samvinnu við ýmsa, þegar haft hefur verið samráð um mál frá upphafi. Það gengur ekki að stilla ráðherra, sem ábyrgð á að bera með ríkisstjórn, aftur og aftur upp við vegg, þegar mál eru komin á lokastig og segja, svona verður það, öðru vísi ekki. Slík vinnubrögð, sem aftur og aftur eru endurtekin, hljóta að leiða til ágreinings. Ég er viss um að menn munu staðfesta að ég er ekkert ósveigjanleg, þegar leitað er að málamiðlun. Ég hef oft staðið í því, eins og auðvitað verður að gerast í samsteypustjórnum."

Síðar í viðtalinu vitnar Agnes Bragadóttir í ummæli Jóns Baldvins þar sem hann í misskilinni spaugssemi kallaði félagsmálaráðherrann "heilaga Jóhönnu".

"Ég er ekkert heilög Jóhanna. Ég bara reyni að vinna af trúmennsku í því starfi, sem mér hefur verið treyst fyrir. Svo einfalt er það. Það er enginn ómissandi í pólitík, en ég get ekki starfað í pólitík, með hendur mínar reyrðar fyrir aftan bak, en það var það sem blasti við mér, sæti ég áfram sem ráðherra."


Palladómar: Ráðherrar Samfylkingarinnar

Ráðherralisti Samfylkingarinnar kom einhverjum á óvart ekki síst þegar horft er til þess að meirihluti ráðherranna eru þingmenn sem studdu Össur Skarphéðinsson í slagnum gegn Ingibjörgu Sólrúnu um formennsku í flokknum.

Aðeins tveir ráðherrar Samfylkingarinnar hafa áður gengt ráðherraembættum; Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Í mörgu eru því ráðherrarnir óskrifað blað, a.m.k. í samburði við kollegana úr Sjálfstæðisflokknum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Mun ekki taka Ísland af lista henna viljugu þjóða, líkt og Samfylkingin barðist fyrir. Hún mun heldur ekki leiða Ísland inn í Evrópusambandið eða undirbúa jarðveginn fyrir slíkar viðræður. Ráðherraembættið tryggir hins vegar pólitíska stöðu Ingibjargar Sólrúnar innan flokks sem utan.

Össur Skarphéðinsson: Var umhverfisráðherra og verður nú iðnaðarráðherra. Það mun koma til hans kasta þegar sótt verður á um byggingu álvera, hvort heldur í Helguvík eða á Bakka við Húsavík. Erfitt að átta sig á hvernig hann ætlar að sinna verkum iðnaðarráðherra.

Kristján Möller: Verður öflugur samgönguráðherra og mun beita sér fyrir stórátaki í samgöngumálum. Vonandi gleymir hann ekki fjarskiptamálum, né samgöngum á suðvesturhorni.

Björgvin G. Sigurðsson: Óskrifað blað sem viðskiptaráðherra. Hefur lítið sem ekkert fjallað um þennan málaflokk, en uppgangur íslenskra fjármálafyrirtækja á síðustu árum hefur stóraukið vægi þessa ráðuneytis, sem áður var sameiginlegt með iðnaðarráðuneytinu. Skipan hans kom mörgum á óvart ekki síst í viðskiptaráðuneytið. Aðilar í fjármálaheiminum bíða með dóma.

Þórunn Sveinbarnardóttir: Einn besti þingmaður Samfylkingarinnar og verður forvitnilegt að fylgjast með henni í embætti umhverfisráðherra. Spurning hverning henni tekst að sigla milli skers og báru í náttúruvernd og stóriðju og þá verður einnig gaman að fylgjast með hvernig henni og Össuri tekst að stilla saman strengi sína. Það er hins vegar ljóst af orðum Þórunnar að hún vill ganga lengra í verndun og friðlýsingu einstakra svæða en stefnt hefur verið að.

Jóhanna Sigurðardóttir: Reynsluboltinn í liði Samfylkingarinnar og sest nú aftur í félagsmálaráðuneytið. Jóhanna var félagsmálaráðherra frá 1987 til júní 1994, þegar hún sagði af sér ráðherraembætti. Hún átti í hörðum deilum við Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi formann Alþýðuflokksins og skömmu síðar stofnaði hún Þjóðvaka, sem síðar rann inn í Samfylkinguna.


Hvað verður um Alfreð Þorsteinsson?

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, mun örugglega veita því sérstaka athygli að hann er með Alfreð Þorsteinsson, fyrrum borgarfulltrúa og stjórnarformann Orkuveitunnar, í vinnu. Alfreð var skipaður formaður framkvæmdanefndar vegna byggingar nýs Landsspítala - háskólasjúkrahúss, árið 2005.

Fáir ef nokkrir voru harðari í gagnrýni sinni á störf Alfreðs sem borgarfulltrúa og þó ekki síst sem stjórnarformanns Orkuveitunnar og hinn nýi heilbrigðisráðherra. Varla mun Guðlaugur Þór hafa áhuga á því að framlengja störf Alfreðs lengur en nauðsynlegt er.

Því skal haldið fram að ekki muni líða margar vikunar þangað til ný framkvæmdanefnd hefur verið skipuð, en varaformaður hennar er Inga Jóna Þórðardóttir.

Ætlunin er að 18 milljarðar króna af Símapeningunum - svokölluðu - verði varið í byggingu háskólasjúkrahússins og er byggingin eitt stærsta verkefnið sem Guðlaugur Þór þarf að sinna. Hann mun ekki hafa mikinn áhuga á að því verði stjórnað af Alfreð Þorsteinssyni.


Palladómar: Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins

Hveitibrauðsdagar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde eru hafnir og að líkindum standa fram á haust, þrátt fyrir að þing muni koma saman nú í nokkra daga. Skipan ráðherra Sjálfstæðisflokksins var fyrirsjáanleg og ekkert kom þar á óvart. En þrátt fyrir það er ekki úr vegi að birta einskonar palladóma yfir ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

Geir H. Haarde: Líður greinilega vel sem forsætisráðherra og hefur náð miklum vinsældum meðal þjóðarinnar. Þykir traustur og alþýðlegur í allri framkomu. Hann mun sinna sínum störfum með sama hætti og áður.

Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, sagði einhverju sinni að helsta og mikilvægasta verkefni hvers forsætisráðherra væri að standa þétt við bakið á fjármálaráðherranum, sem væri í stöðugri glímu við aðra ráðherra ríkisstjórna um aukið fjármagn. Það mun reyna á Geir H. Haarde í þessum efnum á komandi mánuðum og misserum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir: Guðmóðir ríkisstjórnarinnar mun halda sínu striki. Engar breytingar en örugglega mun meiri fjármunum verða veitt til lista og menningar.

Björn Bjarnason: Engar breytingar verða í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Hann mun halda áfram með sín verkefni af stefnufestu. Björn er líklega mesti efasemdamaðurinn um ágæti meirihlutasamstarfsins við Samfylkinguna.

Árni M. Mathíesen: Það mun reyna enn meira á fjármálaráðherra á komandi kjörtímabili en áður. Ný ríkisstjórn hefur löngun til þess að koma öllum "góðum málum" fram og loforðalistinn er nokkuð langur. Árni þarf að stíga fast á bremsuna og tryggja að stjórn ríkisfjármála gangi ekki gegn stöðugleika þannig að Seðlabankinn neyðist til að halda fram ofur-vaxtastefnu sinni, sem mun fyrr eða síðar draga allan þrótt úr atvinnulífinu.

Einar K. Guðfinnsson: Bætir við sig landbúnaðarráðuneytinu og þar verða engar kollsteypur. Íhaldssemi mun einkenna störf hans sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Aðilar í sjávarútvegi anda léttar en þó ekki síður flestir í landbúnaði. Því miður verður ekki tekist á við vandann í landbúnaðinum, enda greinilega ekki vilji til þess í nýrri ríkisstjórn.

Guðlaugur Þór Þórðarson: Eini nýi ráðherra sjálfstæðismanna. Verkefnið er erfitt og verður gaman að fylgjast með hvernig hann tekst á við flókin verk. Mun örugglega leggja aukna áherslu á forvarnir og sækir þá ekki síst ráð til eiginkonu sinnar, en mun reyna að opna á frekari einkarekstur innan heilbrigðiskerfisins.


Guðni og Steingrímur J. eins og óþekkir krakkar aftur í

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svarar því afdráttarlaust í viðtali við Viðskiptablaðið í dag, að ekki hefði komið til greina að mynda vinstri stjórn undir hennar forsæti. Engin heilindi séu á milli Framsóknarflokksins og vinstri grænna.

Í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið spyr Arna Schram Ingibjörgu Sólrúnu hvort ekki hafi verið freistandi að mynda vinstri stjórn undir hennar forsæti með þátttöku vinstri grænn og Framsóknarflokksins. Ingibjörg Sólrún svarar skýrt:

"Nei, ekki miðað við það sem á undan var gengið. Þá er ég að tala um það hvernig þessir aðilar talast við. Engin heilindi eru þarna á milli. Enginn skilningur er á milli þessara tveggja flokka og mjög lítill vilji til að setja sig í spor hvors annars. Einn maður orðaði það svo á fundi Samfylkingarinnar á þriðjudag að hann hefði ekki getað hugsað sé að setja mig í það hlutskipti að vera eins og mamman við stýrið á bílnum með krakkana að slást aftur í."


Árni Matt þjóðlenda

Ég birti nokkrar vísur úr vísnakeppni Safnahússins á Sauðárkróki sem var haldinn fyrir skömmu. Keppendur ortu um Ómar Ragnarsson, en einnig var ort um þjóðlendumálin, en ríkið hefur í mörgu farið þar offari gagnvart bændum og landeigendum.

Ríkið vel nú rænir sér,

rökin tel ég hæpin

ef þeir stela undan mér

án þess að fela glæpinn.

Þannig orti Hilmir Jóhannesson á Sauðárkróki og lýsir vísan ágætlega framferði ríkisvaldsins. Fjármálaráðuneytið hefur farið með þjóðlendumálin fyrir hönd ríkisins og því við búist að Árni M. Mathíesen fjármálaráðherra fengi kveðjur. Gunnar Oddsson í Flatatungu segir:

Siðgæðið nú sígur hratt

Sýnir lága tölu

Ekki virðir Árni Matt

Eigin jarða sölu.

Þess ber að geta að Feykir, héraðsfréttablað Norðurlands vestra birtir kveðskapinn í nýjasta tölublaðinu.


Hvernig þingmaður yrði Ómar Ragnarsson?

Þessu undir stól ég sting,

stóru orðin spara.

Ómar hann kemst ekki á þing

og engu þarf að svara.

Þannig orti Gunnar Sandholt í vísnakenni Safnahússins á Sauðárkróki sem haldinn var í 13. sinn fyrir skömmu.  Þátttakendur voru meðal annars beðnir um að svara spurningunni: Hvernig þingmaður yrði Ómar Ragnarsson. Rétt er að taka fram að hagyrðingarnir ortu löngu fyrir kjördag, þannig að Gunnar Sandholt reyndist sannspár.

Hjalti Pálsson, einn dómnefndarmanna, skrifar um keppnina í Feyki, héraðsfréttablað í Norðurlandi vestra.

En fleiri góðar vísur um Ómar voru settar saman. Þannig segir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd:

Að senda Ómar inn á þing

orðstír mannsins skaðar

hrekkjalóma hugsun slyng

hæfir annars staðar.

Pálmi Jónsson á Sauðárkróki bað Ómar um að róa sig:

Í landsins gæðum fegurð finn

og framtíð glæstra vona

elsku besti Ómar minn

ekki láta svona.

Hilmir Jóhannesson er tvíræður í sínum orðum:

Hrjúfum rómi hér ég syng,

þið hafið dóm á blaði.

Fari Ómar inn á þing

er það tómur skaði.

Loks er vert að líka á hvaða kostum Óttar Skjóldal í Enni telur að þingsmannsefni verða að búa yfir:

Hann mun bera hinum af,

hann ég bestan nefni.

Hann mun ljúga hina í kaf,

hann er þingmannsefni.


Hvað á barnið að heita? - PR-stríðið er hafið

Þrátt fyrir að ekki sé búið að mynda nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er PR-stríðið þegar hafið. Ímynd ríkisstjórna getur skipt miklu með sama hætti og ímynd stjórnmálamanna getur ráðið úrslitum um hvort mönnum gengur vel eða illa - hvort þeir ná kosningu eða eru settir út í kuldann.

Framsóknarmenn, sem hafa sleikt sárin eftir kosningar, eru sárreiðir og saka sjálfstæðismenn um óheilindi eftir kosningar. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, segir væntanlega ríkisstjórn réttnefnda Baugsstjórnin og vitnar til þess að stjórnarformaður Baugs hafi í blaðagrein talið slíka ríkisstjórn besta kostinn að loknum kosningum. Félgar Jóns og fleiri hafa tekið undir allt í þeim tilgangi að koma neikvæðri ímynd á ríkisstjórnina þegar í upphafi - raunar áður en hún er mynduð formlega.

Hvorki eigendur Baugs né stuðningsmenn nýrrar ríkisstjórnar hafa áhuga á að kenna stjórnina við fyrirtækið. En andstæðingar stjórnarinnar vita sem er að með nafngiftinni hitta þeir á veikan blett ekki síst þegar Borgarnesræður eru hafðar í huga, auglýsingar Jóhannesar Jónsson fyrir kosningar og hvatningar stjórnarformanns Baugs um myndun samsteypustjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, að ekki sé talað um ásakanir Baugsmanna um ofsóknir undir vernd nokkurra sjálfstæðismanna.

Nú er hins vegar verið að snúa vörn í sókn. Fyrsta frétt Sjónvarpsins í gærkvöldi var um stjórnarmyndunarviðræðurnar en forystumenn flokkanna funduðu stíft á Þingvöllum. Sjónvarpið hefur því gefið stjórninni nafnið: Þingvallastjórn.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, er sammála þessari nafngift og segir á bloggi sínu:

"Ég finn það hvar sem ég kem að það er mikill meðbyr með nýrri stjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Viðeyjarstjórnin fékk nafn sitt eftir viðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í Viðey. Mér þætti Þingvallastjórnin ekki vitlaust nafn á þessari ríkisstjórn ef samningar nást."

Kristinn Pétursson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins fagnar myndun ríkisstjórnarinnar og segir:

"Þingvallastjórnin - er gott nafn og veit vonandi á betri tíma í sjávarbyggðum. Ég ætla að halda áfram í vonina." 


Hann "vældi einsog ónefnd dýrategund sem fengið hefur gaffal í afturendann"

Össur Skarphéðinsson sér nú fram á að 12 ára draumur rætist. Hann sest innan fárra daga á ráðherrastól að nýju. Honum hefur að líkindum sjaldan liðið betur en þegar hann vermdi stól umhverfisráðherra 1993-1995. Sumum finnst að toppurinn á tilverunni að gegna ráðherraembætti.

Nú líkt og fyrir 12 árum verður Össur í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og miðað við hvernig Össur hefur rætt opinberlega um ráðherratíð sína, dreg ég í efa að hugur hans hafi stefnt annað en að tryggja ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Allt tal um vinstri stjórn fyrir kosningar var að mestu innantómt og hugur fylgdi ekki máli. Því tekur Össur því fegins hendi þegar hann getur kennt Steingrími J. Sigfússyni og vinstri grænum um að vinstri stjórn lítur ekki dagsins ljós.

Á heimasíðu sinni segir Össur meðal annars og skýtur fast:

"Taflið af hálfu VG var ótrúlega klunnalegt. Formaður sargaði í sundur allar brýr til Framsóknar, og tefldi þannig út af borðinu möguleika á vinstri stjórn með Framsókn út af borðinu. Fyrir mína parta er því dagljóst að líklega átti enginn einn stjórnmálamaður eins ríkan þátt í því að nú er hafin myndun samstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en félagi Steingrímur."

Össur Skarphéðinsson hefur lengi kunnað að beita pennanum, enda alinn upp á Þjóðviljanum heitnum, þar sem hann skrifaði einhverja bestu dálka þess tíma um pólitík og þjóðmál. Mér finnst á stundum að Össur sé miklu betri dálkahöfundur en stjórnmálamaður, enda er hann "villidýr" eins og hann segir sjálfur. Hefði Össur fæðst í Bandaríkjunum væri hann að líkindum með þekktustu dálkahöfunum þar vestra, efnamaður með nokkra unga menn í vinnu, líkt og þekktustu dálkahöfunar Bandaríkjanna. Skrif hans væru að birtast í hundruðum dagblaða.

Pennafærni Össurar fær á stundum að njóta sín á heimasíðunni og í gær skaut hann ekki aðeins á Steingrím J. heldur einnig á Guðna Ágústsson, en þá tvo sagði hann vera spælda stjórnmálamenn og vitnar þar í Kastljósþátt síðasta fimmtudag þar sem Steingrímur J. og Guðni sátu fyrir svörum.

Össuri fannst dapurlegt að horfa á þessa tvo stjórnmálamenn, sem nú virðast dæmdir til stjórnarandstöðu. Um Guðna Ágústsson skrifaði Össur:

"Hinn síðari [Guðni] vældi einsog ónefnd dýrategund sem fengið hefur gaffal í afturendann. Hann vændi Sjálfstæðisflokkinn um svik og pretti. Hefði nokkur ábyrgur stjórnmálamaður með fullu viti farið í tveggja flokka stjórn með Framsókn? Flokkurinn gat ekki einu sinni gert upp við sig hvort hann vildi vera, eða fara, úr ríkisstjórn. Sjö manna þingflokkur var svo sundurklofinn að hann gat ekki einu sinni komið sér saman um hvað hann vildi gera. Það hefði einfaldlega verið óábyrgt af Geir að leiða svo veika stjórn yfir þjóðina."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband