Fimm fyrrum formenn SUS þingmenn

Fimm fyrrverandi formenn Sambands ungra sjálfstæðismanna, SUS, munu sitja á þingi eftir kosningarnar í gær. Þrír þeirra fyrir Sjálfstæðisflokkinn en tveir fyrir aðra flokka.

Ellert B. Schram datt inn á þing undir morgun og mest kom það honum sjálfum á óvart. Ellert er fyrrverandi formaður SUS, líkt og Jón Magnússon sem nú sest inn á þing í fyrsta skipti eftir nokkrar tilraunir. Ellert hefur áður setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en er nú fulltrúi Samfylkingar. Jón Magnússon er þingmaður Frjálslynda flokksins.

Þrír fyrrum formenn SUS eiga sæti á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Sigurður Kári Kristjánsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og síðan Geir H. Haarde forsætisráðherra.

Tveir núlifandi formenn SUS hafa átt sæti á Alþingi og gengt ráðherraembættum; Birgir Ísleifur Gunnarsson og Friðrik Sophusson.


Auðvitað sigruðu ekki allir

Ef litið er á niðurstöðu kosninganna er augljóst að sumir þeirra sem lýsa yfir sigri geta staðið við slíkar yfirlýsingar. Stjórnarandstöðunni tókst ekki að fella ríkisstjórnina, en ríkisstjórninni tókst heldur ekki að tryggja sér "starfshæfan" meirihluta.

Samfylkingin missti 4,2% í kosningunum og þingmönnum flokksins fækkar um tvo. Fyrir flokk í stjórnarandstöðu er slíkt óviðunandi. Einmitt þess vegna mun Ingibjörg Sólrún leggja gríðarlega mikið á sig til að tryggja flokknum sæti í ríkisstjórn. Úrslit kosninganna eru áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu.

Það var mikilvægt fyrir Samfylkinguna að halda fylgi sínu yfir 30%. Það tókst ekki - niðurstaðan var 26,8%.

Þegar litið er til yfirlýsinga samfylkinga, - þegar lagt var af stað fyrir átta árum - um að flokkurinn ætti að verða svipaður að stærð og Sjálfstæðisflokkurinn, er niðurstaðan áfall. Flokkurinn er í sömu sporum og fyrir átta árum - ekkert hefur áunnist.

Sjálfstæðismenn bera höfuðið hátt og benda á fylgisaukingu og að það sé mikill árangur eftir 16 ára þátttöku í ríkisstjórn. Ef litið er að meðaltalsfylgi flokksins frá 1971 þá er ljóst að flokkurinn er að fá svipað fylgi og að meðaltali. Meðaltalið er segir hins vegar ekki alla söguna, því árið 1987 kom fram klofningsframboð Borgaraflokksins undir forystu Albert Guðmundsson. Þá fékk flokkurinn aðeins 27,2% atkvæða. Sé litið framhjá úrslitunum 1987 er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn fékk í gær minna fylgi en að meðaltali frá 1971.

Vinstri grænir eru auðvitað sigurveigarar kosninganna ef litið er til fylgisaukningar, þó vissulega hljóti sá flokkur sem fær mest einnig geta gert kröfu til titilsins - svona með svipuðum hætti og í fólbolta, það lið sem skorar flest mörg vinnur leikinn, jafnvel þó mörkin séu ekki jafnmörg og að meðaltali.


Ný ríkisstjórn - Ný viðreisn

Ríkisstjórnin hélt velli í kosningunum, en vegna útkomu Framsóknarflokksins er útilokað að Geir H. Haarde telji pólitískar forsendur fyrir því að halda samstarfinu áfram. EKki frekar en Davíð Oddsson taldi rétt fyrir tólf árum að lengja líf Viðeyjarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks.

Enginn forsætisráðherra er tilbúinn til að vera fangi eins þingmanns eins og Geir Haarde yrði ef samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks yrði framlengt. Geir mun aldrei koma sér í þá stöðu að eiga eitthvað undir vinstri sinnuðum þingmönnum Framsóknar. Bjarni Harðarson, nýr þingmaður framsóknarmanna í Suðurkjördæmi, er t.d. ekki þingmaður sem formaður Sjálfstæðisflokksins ætlar að eiga eitthvað undir.

Þegar litið er á úrslit kosninganna þá er ljóst að meginmarkmið stjórnarandstöðunnar, að fella ríkisstjórnina, mistókst ekki algjörlega, þó niðurstaðan sé að ríkisstjórnin haldi meirihluta þingmanna. Ríkisstjórnin er of sködduð til að raunhæft sé að hún haldi áfram.

Ég fæ ekki annað séð en að í raun séu aðeins tveir möguleikar við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Annað hvort myndar Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn með Samfylkingu eða að Framsókn taki höndum saman við vinstri græna og Samfylkingu. Tölfræðilega er auðvitað hægt að hugsa sér að vinstri grænir og sjálfstæðismenn gangi til sængur, en slík ríkisstjórn yrði varla möguleg án þess að báðir flokkar gæfu eftir og vinstri grænir í stóðiðjumálum sérstaklega.

Innan Samfylkingarinnar er mikill vilji til þess að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og margir íhaldsmenn hafa alltaf verið veikir fyrir myndun nýrrar viðreisnar. Össur Skarphéðinsson á sér engan stærri draum en að vinna með sjálfstæðismönnum. Ingibjörg Sólrún á erfitt með að leiða vinstri græna til valda innan ríkisstjórnar.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gæti orðið nokkuð góð ríkisstjórn og líkur á því að tekist verði á við nokkur erfiðustu vandamál efnahagslífsins eru þokkalegar. Kannski er von til þess að flokkarnir skapi grunn fyrir samkeppni í landbúnaði og jafnvel í heilbrigðiskerfinu.


Steingrímur og Ingibjörg vilja ekki gagnrýna auðmenn og forðast umræðu um lífeyrismál stjórnmálamanna

Kappræður formanna stjórnmálaflokkanna í Sjónvarpinu voru merkilegar fyrir tvennt.

Annars vegar vildu hvorki Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eða Steingrímur J. Sigfússon, gagnrýna að auðmenn blönduðu sér beint í kosningabaráttuna, með því að kaupa auglýsigar í útbreiddustu dagblöðum landsins. Og hins vegar er greinilegt að umræða um eftirlaunaréttindi alþingismanna er  erfið fyrir formenn vinstri flokkanna.

Nú skiptir í sjálfu sér engu hvaða álit menn hafa á auglýsingu Jóhannesar Jónssonar kaupmanns sem birtist í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Blaðinu í dag. Fyrir kjósendur hlýtur það að vera sérstaklega eftirtektarvert (ekki síst fyrir þá sem leita eftir stjórnmálamönnum sem eru sjálfum sér samkvæmir), að hvorki Ingibjörg Sólrún né Steingrímur J. gagnrýndu það að auðmaður væri að kaupa auglýsingar til að hafa áhrif á kjósendur.

Hefði auglýsing Jóhannesar verið með öðrum hætti s.s. bein áskorun til kjósenda að tryggja að ríkisstjórnin héldi velli, er öruggt að viðbrögð formanna vinstri flokkanna hefðu orðið önnur. Þá hefði verið rætt um það hversu ógeðfellt það væri að auðmenn væru að blanda sér inn í lýðræðislegt ferli og þá hefði verið þess krafist að sett yrðu lög til að koma í veg fyrir að auðmenn gætu með beinum hætti blandað sér í stjórnmálabaráttuna. Þau hefðu bæði haft mörg orð og mikil um hættuna sem lýðræðinu stafaði af auðvaldinu, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði gert kleift að blómstra.

Ástæða þess að lífeyrismál alþingismanna og ráðherra eru jafnerfið og raun ber vitni fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og Steingrím er einföld; Steingrímur og Össur Skarphéðinsson áttu frumkvæðið að setningu laganna. Það voru þeir sem óskuðu eftir því að lífeyrisréttindi alþingismanna yrðu endurskoðuð með það að markmiði að bæta þau verulega. Mér er það óskiljanlegt afhverju ráðherrar Framsóknar eða Sjálfstæðisflokks hafa ekki bent kjósendum á þessa staðreynd.


Björgólfur er að líkindum tilbúinn til að greiða hærra verð

Yfirtökutilboð Björgólfs Thors Björgólfssonar, í gegnum fjárfestingarfélag sitt Novator (sem er staðsett í Bretlandi), á öllu hlutafé í Actavis hefur vakið blendin viðbrögð á markaðinum. Flest bendir til þess að tilboðið sé lægra en hluthafar eiga að sætta sig við.

Það sem af er ári hafa hlutabréf Actavis hækkað um 35,7% samkvæmt yfirliti á M5.is og var lokagengi bréfanna í gær 87,50 krónur á hvern hlut. Tilboð Novators jafngildir 85,23 krónum. Eignarhlutur Björgólfs Thors og tengdra félaga er 38,5%. Markaðsvirði félagsins er nú nær 295 milljarðar króna sem þýðir að verðmæti hluta Björgólfs er um 113 milljarðar króna. Björgólfur Thor er stjórnarformaður félagsins.

Björgólfur Thor hefur bent á að tilboð hans sé 21% hærra en meðaltalsgengi síðustu sex mánaða og það var 9% hærra en lokagengi bréfanna áður en tilboðið var lagt fram. Þetta kann að vera rétt en ólíklegt er að Björgólfur Thor hafi talið að hann næði að kaupa öll hlutabréf, sem ekki eru þegar í hans eigu, á verði sem var aðeins 9% yfir markaðsverði. Hann vissi eða mátti vita að um leið og tilboð kæmi fram myndi verð bréfanna hækka. Því bendir flest til að Björgólfur Thor sé tilbúinn til að greiða hærra verð en felst í hinu upprunalega tilboði. Annað gengur hreinlega ekki upp.

Á liðnu ári hækkuðu bréf Actavis um liðlega 27% en frá ársbyrjun 2005 til loka liðins árs hækkuðu hlutabréfin um nær 82% í verði. Frá ársbyrjun 2005 til loka dagsins í gær 2,3-faldaðist verðmæti bréfanna og hluthafar hafa notið ágætra arðgreiðslna.

Þegar fortíðin er höfð í huga og eins sú staðreynd að stjórnarformaður félagsins hefur mikla trú að framtíð félagsins, er fátt sem mælir með því að hluthafar sætti sig við það verð sem Björgólfur Thor hefur gert í gegnum Novator.

Vill ekki annað tilboð

Hagsmunum Björgólfs Thors er ekki best borgið með því að hærra tilboð frá öðrum aðila berist í allt hlutafé Actavis. Hann hefur þegar lýst því yfir að hann muni ekki selja sinn hlut og með því gefið til kynna að þýðingarlaust sé fyrir aðra aðila að etja við hann kappi um fullkomin yfirráð yfir Actavis.  

Yfirlýsing þessi er í nokkru undarleg fyrir aðra hluthafa í félagi þegar haft er í huga að ef kæmi fram tilboð upp á 95 krónur á hlut (líkt og greiningardeild Glitnis telur að sé yfirtökuverð í lægri kantinum), þá myndi Björgólfur Thor græða nær 10 milljarða króna á hækkuninni og leysa nær 123 milljarða króna, sem að stórum hluta er hreinn hagnaður. Aðrir hluthafar fengju yfir 15 milljörðum króna meira í sinn hlut en tilboð Björgólfs Thors gerir ráð fyrir.  Ef yfirtökuverðið væri 100 krónur, líkt og Merril Lynch telur að sé rétt, yrði hagnaðurinn enn meiri.

Að því gefnu að greiningardeild Glitnis og Merril Lynch hafi rétt fyrir sér er augljóst að hagsmunum Björgólfs Thors er betur borgið með því að ekki komi fram annað tilboð. Ekki síst ef hugmyndin er síðan að selja félagið í heild sinni aftur eða sameina öðru félagi.


Græddu þeir þá 15 milljónir á skattsvikum?

Ég verð að játa að ég skil ekki þessa frétt mbl.is. Samtals eru mennirnir dæmdir til að greiða 6,4 milljónir króna í sekt, fyrir að hafa ekki staðið skil á samtals 40 milljónum króna í skatt. Áður höfðu hinir sekur greitt 19 milljónir.

Þetta þýðir að hinir sekur græddu nær 15 milljónir króna á því að standa ekki skil á opinberum gjöldum. Annað hvort er mbl.is ekki að segja alveg rétt frá og nákvæmlega eða það borgar sig samkvæmt dómnum að stunda undanskot.


mbl.is Dæmdir til að greiða sekt vegna skattalagabrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert er raunverulegt fylgi Framsóknarflokksins?

Gallup telur að fylgi Framsóknarflokksins sé 14,2%. Félagsvísindastofnun metur fylgi flokksins 8,6%. Spurningin er hvor könnunin gefur réttari mynd af stöðu Framsóknarflokksins, en munurinn er 6%-stig.

Svarið er að líklega gefa báðar kannanirnar þokkalega góða mynd af fylgi Framsóknarflokksins. Þegar tekið er tilliti til tveggja þátta, sem skipta máli þegar skoðanakannanir eru metnar, er líklegt að  munurinn sé ekki jafnmikill og virðist við fyrstu sýn. Ef litið er til skekkjumarka í báðum könnunum er ekki ólíklegt að munurinn sé ekki nema 1-2%stig, þó hann geti einnig verið mun meiri. En það sem kann að skipta mestu er hvenær kannanirnar voru gerðar.

Könnun Félagsvísindastofnunar var gerð á fimmtudag og föstudag í síðustu viku, og síðasta mánudag og þriðjudag. Könnun Gallup var gerð á mánudag og þriðjudag. Mikill munur á mældu fylgi framsóknarmanna liggur því að líkindum að stórum hluta í því að ekki er verið að mæla á sama tíma, nema að hluta. En eitt virðist þó vera óhætt að fullyrða; Framsóknarflokkurinn er að bæta við sig fylgi.


Skattar lækkaðir á Seltjarnarnesi

Bæjarstjórn Seltjarnarness, undir stjórn Jónmundar Guðmarssonar, hefur ákveðið að lækka enn frekar skatta á íbúa bæjarins.

Samkvæmt tillögu sjálfstæðismanna verður fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði árið 2008 lækkaður úr 0,24% í 0,20%.  Vatnsskattur verður lækkaður úr 0,13% í 0,10% og fráveitugjald verður 0,097% af fasteignamati.  

Útsvar verður einnig lækkað á komandi ári og verður 12,10% í stað 12,35%.  

Fjárhagsstaða Seltjarnarness er sterk enda hefur aðhaldssemi verið talin þar dyggð. Mættu fleiri sveitarfélög taka sér það til fyrirmyndar.


VG vill í stjórn með Sjálfstæðisflokknum

"Ef Vinstrihreyfingin - grænt framboð fær ekki 20% fylgi mun hún ekki eiga auðvelt með að semja við Sjálfstæðisflokkinn og hann mun ekki telja sig þurfa að semja um neitt. Þá mun hann halla sér að Samfylkingunni," segir Ármann Jakobsson í pistli á murinn.is í dag. Ármann er áhrifamaður innan vinstri grænna og bróðir Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns flokksins og frambjóða í Reykjavík norður.

Þessi yfirlýsing Jakobs er merkileg og greinilegt að innan vinstri grænna er mikill áhugi á að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Vinstri grænir virðast hafa áttað sig á að mestar líkur, miðað við skoðanakannanir, eru á því að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndi næstu ríkisstjórn og til þess mega þeir ekki hugsa.

Kaffibandalagið er og var aldrei annað en kaffiklúbbur í aðdraganda kosninga, þar sem enginn hefur hug á að sitja lengur við borðið en nauðsyn krefur, enda líkar borðfélögunum ekki sérstaklega við hvern annan.

Ármann segir orðrétt í pistli sínum:

"Eina von vinstrisinnaðra kjósenda er að hið mikla fylgi Sjálfstæðisflokksins komi ekki upp úr kössunum því að eitt er alveg öruggt: Ef Sjálfstæðisflokkurinn nær 40% fylgi verður hann alfa og omega í næstu ríkisstjórn. Annað er líka alveg öruggt: Ef Vinstrihreyfingin - grænt framboð fær ekki 20% fylgi mun hún ekki eiga auðvelt með að semja við Sjálfstæðisflokkinn og hann mun ekki telja sig þurfa að semja um neitt. Þá mun hann halla sér að Samfylkingunni. Sem mun fá að launum nokkur sýndar „skref" fyrir velferðarkerfið og í staðinn fær Sjálfstæðisflokkurinn fleiri tilraunir með einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu (Össur og Ágúst hafa þegar talað fyrir því)

Álversvæðingin heldur auðvitað áfram, ef ekki strax, þá eftir tvö ár eða svo. Mun eitthvað verða eftir af friðarhjali Samfylkingarinnar úr Íraksstríðinu? Auðvitað ekki, hún styður vígvæðingarstefnu NATO og NATO-her á Íslandi. Verður eitthvað gert í skattamálum? Ja, hættan er ansi mikil á að Geir muni hafa vinninginn, enda vill Samfylkingin ekki fá viðskiptalífið á móti sér. Fær Samfylkingin í staðinn að vinna að ESB-aðild? Nei, auðvitað ekki því hún hefur ekkert að bjóða Sjálfstæðisflokknum annað en að vera eftirgefanlegri en VG. Og Sjálfstæðisflokkur með 40% fylgi þarf ekkert að semja um slík mál.

Kjósendur verða að hafa eitt í huga: Það er ekki aðeins nokkur hætta á nýrri Viðeyjarstjórn. Hún er því miður beinlínis langlíklegasti kosturinn miðað við kannanir seinustu daga. Það eina sem kjósendur sem ekki vilja svona stjórn geta gert er að kjósa öðruvísi en þeir segjast ætla að gera þessa dagana. Sjálfstæðisflokkurinn má ekki fá 40% fylgi og hann þarf sterkara aðhald frá vinstri. Þegar hægrið og miðjan renna saman, þá verður nefnilega niðurstaðan sú að blái liturinn heldur sér býsna vel."


DV afskrifar Guðjón Arnar og Ómar

DV kom inn um lúguna hjá mér í morgun og líklega flestum á höfuðborgarsvæðinu. Í blaðinu er snaggaraleg úttekt á kosningunum á laugardaginn. Ég fæ hins vegar ekki betur séð en að ritstjórn DV hafi tekið þá ákvörðun að afskrifa Guðjón Arnar Kristjánsson og Ómar Ragnarsson, formenn minnstu flokkana, samkvæmt skoðanakönnunum.

Forsíða DV er samsett úr fjórum myndum af jafnmörgum flokksformönnum: Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Sigurðsson og Steingrímur J. Sigfússon. Guðjón Arnar og Ómar fá ekki að vera með. Fyrirsögnin er kræsileg: UPPGJÖRIÐ.

Kannski hefur forsíða DV forspárgildi fyrir laugardaginn eða hún lýsir viðhorfum ritstjórnar blaðsins til frjálslyndra og Íslandshreyfingarinnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband