Lóð undir fjölbýli kostar 17 milljónir á Seltjarnarnesi

Lóðakostnaður vegna íbúðabyggingar á Hrólfsskálamel á Seltjarnarnesi verður um 16-17 milljónir króna, að því er fram kemur í nýjasta tölublaði Nesfrétta - fréttablaði okkar Seltirninga. Mun þetta vera hæsta lóðaverð í fjölbýli sem um getur hér á landi.

Fasteignaverð hefur lengi verið hátt á Seltjarnarnesi, sem hefur sína kosti og galla. Nesfréttir telja að íbúðir á Hrólfsskálamel muni kosta 40-60 milljónir króna að meðaltali þegar upp er staðið en það eru Íslenskir aðalverktakar sem byggja. Gert er ráð fyrir 80 íbúðum.

Í Nesfréttum er einnig sagt frá því að nú hafi verið ákveðið að rífa Marbakka, hús á sjávarlóð. Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður og aðaleigandi Brims hf., keypti húsið fyrir nokkru á 90 milljónir króna. Ætlun Guðmundar er að byggja 500-600 fermetra hús í stað hins gamla. Miðað við kostnað við niðurrif trúi ég að lóðakostnaður verði því um eða yfir 100 milljónir króna.

Annað dæmi af Seltjarnarnesi er þegar Jón Halldórsson hæstaréttarlögmaður (sonur Halldórs H. Jónssonar heitins), keypti þekkt einbýlishús við Sæbraut á Seltjarnarnesi (sjávarlóð) fyrir 100 milljónir króna og lét rífa. Nú standa yfir framkvæmdir við byggingu á nýju húsi.


Þetta er engin yfirlýsing ...

Kristinn Pétursson, fiskverkandi og fyrrum þingmaður frá Bakkafirði, gerir skemmtilega athugsemd við umfjöllun mína um Valgerðir Sverrisdóttur og yfirlýsingu hennar um þátttöku Framsóknarflokksins í ríkisstjórn.

Kristinn segir: 

"Þegar Steingrímur Hermannsson var hættur sem forsætisráðherra og tekinn við sem untaríkisráðherra í ríkisstjórns Þorsteins Pálssonar  í den, -fór Þorsteinn í opinberum erndagjörðum til USA í nokkra daga.

Steingrímur fann að þessu og lét hafa eftir sér í DV "að það vantaði verkstjórann" - hann ætti eð vera "heima og leysa vandamálin" en ekki vera á flakki í útlöndum"...

Fréttamaður Sjónvarps tók Steingrím í viðtal af þessu tilefni og spurði hann hvort þetta væri viðeigandi að vera með svona yfirlýsingar þar sem hann hefði líka oft þurft að fara erlendis í opinberum erindum sem forsætisráðherra.  Það stóð ekki á svarinu hjá Steingrími sem svaraði:

"Þetta var engin yfirlýsing, - ég sagði þetta í viðtali"......LoLGrin

Snillíííngur hann Steingrímur......  Nú er Valgerður utanríkisráðherra - en spurning er hvort hún er jafn snjöll í "yfirlýsingum".....?"


Auðmenn ásælast fjölmiðla

Warren Buffett, þekktasti fjárfestir heims, heldur því fram að auðmenn hafi vaxandi áhuga á að fjárfesta í fjölmiðlafyrirtækjum og að arðsemissjónarmiðin ráði þar ekki ein ferðinni. Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag og byggir á frásögn Financial Times af ársfundi Berkshire Hathaway, fjárfestingarfélagi Buffetts.

Viðhorf Buffetts hljóta að vekja töluverða athygli, ekki síst hér á landi þar sem íslenskir fjölmiðlar eru að stærstum hluta í eigu eða undir stjórn þekktra íslenskra auðmanna.

Viðskiptablaðið segir svo frá í dag:

"Warren Buffett, stjórnarformaður Berkshire Hathaway, sagði um helgina að tilboð fjölmiðlajöfursins Rupert Murdoch og fjölmiðlasamsteypu hans, News Corp, í Dow Jones væri til marks um aukinn áhuga auðmanna á því að eignast fjölmiðla og að aðrir þættir en hagnaðarvon stýrðu þeim áhuga. Á dögunum bauð Murdoch fimm milljarða Bandaríkjadala í Dow Jones. Bancroftfjölskyldan, sem fer með ráðandi hlut í Dow Jones, hafnaði tilboðinu þrátt fyrir að það sé um sextíu prósentum hærra en markaðsverð fyrirtækisins. Tilboðið þykir það hátt að ekki er útséð með hvort að Murdoch takist að eignast fyrirtækið á endanum.

Buffett lét þessi ummæli falla um helgina á ársfundi Berkshire Hathaway. Hann sagðist viss um að Murdoch væri reiðubúinn að viðurkenna að það væru fleiri þættir en arðsemisvæntingar sem stýrðu áhuga hans á Wall Street Journal, sem er flaggskip útgáfustarfsemi Dow Jones. Einnig kom fram í máli Buffetts að slíkur áhugi einskorðaðist ekki við Murdoch: Hann telur að auðmenn séu í auknum mæli reiðubúnir til þess að fjárfesta í ákveðnum fjölmiðlum vegan áhrifa þeirra, dagskrárvalds og virðingar. Berkshire Hathaway hefur fjárfest í fjölmiðlum og á hluta bæði í Buffalo News og The Washington Post."


Það þurfa fleiri að neita að skerða hár sitt

Mikið er ég feginn að Hjálmar H. Ragnarsson skuli hafa ákveðið að fara í klippingu og mikið er ég glaður yfir því að helstu fjölmiðlar landsins skuli hafa greint mér og öðrum landsmönnum frá klippingunni. Kastljós og Ísland í dag hljóta að hafa tekið þennan merka viðburð upp og Mogginn mun án efa sýna okkur hina nýju klippingu.

Þeir sem berjast fyrir framgangi ákveðinna mála hafa fundið nýja aðferð í baráttu sinni. Nú neita menn einfaldlega að skerða hár sitt (og auðvitað hefði Hjálmar átt að hætta að raka sig einnig). Þessi nýja aðferð ætti að blása mörgum von í brjóst. Þetta er auðvitað miklu skynsamlegra en að marsera um götur með kröfuspjöld og borða.

Nú legg ég til að eftirtaldir neiti að skerða hár sitt fyrr en þeir fá úrlausn sinna mála:

  • Íslenskir neytendur, þangað til verslun með landbúnaðarvörur verður gefin frjáls.
  • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þangað til kjósendur veita henni brautargengi í ríkisstjórn.
  • Eggert Magnússon, þangað til West Ham hefur tryggt sé Englandsmeistaratitilinn.
  • Eiríkur Hauksson, þangað til Ísland vinnur Evróvisjón.
  • Húsvíkingar, þangað til ákvörðun um álver hefur verið tekin.
  • Davíð Oddsson, þangað til Seðlabankanum tekst að lækka stýrivexti.
  • Kristján Loftsson, þangað til Bandaríkjamenn viðurkenna hvalveiðar.
  • Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þangað til Reykjavík er aftur orðin hrein borg.

mbl.is Hjálmar fór í klippingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfrétt um Internetið - frá 1993

Minnið er ekki alltaf gott og maður er á stundum fljótur að gleyma hve tækninni hefur fleygt fram. Internetið er gott dæmi, en ég rakst á þessa frétt frá 1993 þar sem fréttamennirnir eru hreint undrandi yfir möguleikum Netsins. Aftast er síðan gert góðlátlegt grín að notkun Netsins.

Fréttin ætti ekki síst að vekja athygli og skemmtun hjá þeim sem muna ekki tímana fyrir netvæðingu heimsins.

 


Aðeins tveir kostir í ríkisstjórnarmyndum eftir yfirlýsingu Valgerðar

Yfirlýsing Valgerðar Sverrisdóttur um að Framsóknarflokkurinn taki ekki þátt í ríkisstjórn, verði úrslit kosninga svipuð og kannanir benda til, er annað hvort pólitískt óskynsamleg eða merkingarlaus yfirlýsing sem ekki verður fylgt eftir þegar á reynir.

Nýjasta könnun Gallup bendir til að Framsóknarflokkurinn fái fimm þingmenn á laugardag - missi sjö menn af þingi. Hins vegar bætir Sjálfstæðisflokkurinn stöðu sína verulega og fær 27 þingmenn.

Ef tölur úr kjörkössunum verða í samræmi við Gallup-könnunina, þá heldur ríkisstjórnin naumum eins manns meirihluta. Slíkt taldi þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins vera veika stjórn og því var ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mynduð fyrir 12 árum - Alþýðuflokkurinn og Jón Baldvin sátu eftir með sárt ennið.

Ef framsóknarmenn ætla að standa við yfirlýsingu Valgerðar (og hún er ekki eini þingmaður flokksins sem hefur talað á svipuðum nótum), er ljóst að aðeins tveir kostir eru til myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Annað hvort semur Geir H. Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn við Samfylkinguna eða vinstri græna. Fyrri kosturinn yrði með gríðarlegan sterkan meirihluta eða 43 þingmenn en síðari kosturinn gefur ríkisstjórn með 38 þingmenn, sem verður að teljast ágætur meirihluti.

Tveir aðrir kostir eru auðvitað til staðar, en Valgerður Sverrisdóttir og félagar hennar virðast vera búin að afskrifa þá. Fyrri kosturinn er auðvitað áframhaldandi ríkisstjórn en hinn kosturinn er sameinuð stjórnarandstaða með fulltingi framsóknarmanna. Fjögurra flokka stjórn Samfylkingar, Frjálslynda flokksins, vinstri grænna og Framsóknar. Slík ríkisstjórn yrði versta niðurstaðan fyrir kjósendur.

Ef framsóknarmenn ætla að standa við yfirlýsingu Valgerðar er ljóst að þeir hafa dæmt sig út í horn við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Í stjórnmálum hefur það aldrei þótt til eftirbreytni að setjast út í horn og láta öðrum eftir að skipta með sér völdum. Það hefur hingað til ekki verið í eðli framsóknarmanna að sækjast ekki eftir völdum og áhrifum. Spurningin er því einföld; er yfirlýsing utanríkisráðherra merkingarlaus eða pólitíkur afleikur.


mbl.is Valgerður: Framsóknarflokkur ekki í ríkisstjórn með svona lítið fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mogginn búinn að vinna fasteignastríðið við Fréttablaðið

Morgunblaðið er búið að vinna stríðið um fasteignaauglýsingar. Þar með er ljóst að blaðinu hefur tekist að verja eitt helsta vígi sitt og mikilvæga tekjulind. Fyrir nokkrum misserum hefðu fáir spáð Mogganum sigri í harðri samkeppni við Fréttablaðið á þessum markaði.

Ég hef tvisvar á síðustu vikum vakið athygli á því að svo virðist sem Morgunblaðið sé að ná yfirhöndinni á markaði fasteignaauglýsinga. Mánudagar eru útgáfudagar fasteignablaða Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Fasteignablað Fréttablaðsins er fjórblöðungur (svona líkt og Alþýðublaðið var undir það síðasta og sagt að kæmist í eldspýtnastokk). Morgunblaðið er stútfullt 64 síðna blað.

Heimildir sem teljast traustar halda því fram að þetta sé í síðasta skipti sem Fréttablaðið komi út með sérstakt fasteignablað, enda varla hægt að tala um það sem sérstakt blað. Morgunblaðið mun vera búið að ganga frá samningum við alla eða nær alla fasteignasala landsins og þar á meðal ReMax keðjuna, sem gefið hefur út nokkuð stórt aukablað á hverjum sunnudegi með Fréttablaðinu.


Steingrími fatast flugið

Könnun Gallups bendir til að traust kjósenda á Steingrím J. Sigfússon sé í frjálsu falli. Minnkandi traust endurspeglar minnkandi fylgi vinstri grænna samkvæmt könnunum Gallups en í síðustu könnun var fylgi flokksins 17,6% og minnkaði um 3,6% á milli kannana.

Um 14,6% kjósenda segjast treysta Steingrími J. Sigfússyni best allra stjórnmálamanna eða 3%-stigum færri en segjast ætla að kjósa vinstri græna. Hafa ber þó í huga að kannanirnar eru ekki teknar á sama tíma.

Enn athyglisverðara er að þrátt fyrir nokkra fylgisaukningu á undanförnum vikum fjölgar þeim ekki sem segjast bera mest traust til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Munurinn á fylgi Samfylkingarinnar og þeirra sem bera mest traust á Ingibjörgu Sólrúnu er 6,5%-stig.

Þessu er hins vegar öfugt farið hjá Geir H. Haarde. Traust til hans hefur vaxið á undanförnum vikum og nær 14%-stigum fleiri segjast bera mest traust til Geirs, en ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum.

Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J. hljóta að spyrja sjálfa sig að því hvernig Geir fari að þessu.


mbl.is Kjósendur bera aukið traust til Geirs H. Haarde
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breskir fjölmiðlar gera lítið úr sakfellingu Jóns Ásgeirs

Ekki verður betur séð en að breskir fjölmiðlar geri fremur lítið úr niðurstöðu héraðsdóms þar sem Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, var sakfelldur í einum ákærulið. Flestir fjölmiðlarnir benda á að Jón Ásgeir, sem þykir einn áhrifamesti einstaklingurinn í verslun á Bretlandseyjum, hafi í upphafi verið ákærður í yfir 40 liðum, en annað hvort hafi þeim verið vísað frá dómi eða að hann hafi verið fundinn saklaus.

Fjölmiðlar benda allir á að þegar húsrannsókn var gerð í höfuðstöðvum Baugs árið 2002 hafi félagið verið í alvarlegum viðskiptaviðræðum um Arcadia og Somerfield, en þær hafi farið út um þúfur vegna rannsóknarinnar.

 Financial Times virðist gera einna best skil á Baugsmálinu en þar segir meðal annars:

"Of an original 40 charges, Mr Jóhannesson has been acquitted or found not guilty on all but one. He has claimed the investigation was politically motivated at the instigation of the Icelandic government, a charge that has been denied, and he said in 2005 that there was "no chance in hell" that he would go to jail."

Sunday Herald, sem gefið er út í Skotlandi, fjallar um niðurstöðu Héraðsdóms, í yfirlit vikunnar og gerir fremur lítið úr málinu. Segir Jón Ásgeir nú loksins "clean as a wistle". Blaðið segir orðrétt: 

"So the Icelandic saga draws to a close, and Baugur's Jon Asgeir Johannesson receives a three-month suspended sentence for false accounting from a Reykjavik court. What a scandal, you would think, given that this man has a hand in Debenhams, Miss Selfridge, Karen Millen, Woolworths and Somerfield. But a bit of ropey bookkeeping isn't the half of it - this was the man facing 40 charges including embezzlement; he accused the political establishment of conducting a witch-hunt, the charges derailed his bids for Arcadia and Somerfield. This was hot stuff bubbling up from the geysers. But charge after charge fell away and a £300,000 credit invoice is the only thing that stood up against the be-mulleted retail whizz kid. The name Jon Asgeir Johannesson might be hard to say, but it's finally clean as a whistle."

Skoska dagblaðið Evening News segir Jón Ásgeir hafi verið fundinn sekur í einu tæknilegu atriði.

Breski netfréttamiðilinn expressandstar.com fjallar um sakfellingu Jóns Ásgeirs og gerir ekki mikið úr.

The Sunday Times segir lítillega frá:

"BAUGUR said this weekend it was “very confident” of winning a supreme court appeal in Iceland after its chief executive was handed a three-month suspended sentence for false accounting. The Icelandic investment group, which owns several British retailers, including Karen Millen and Hamleys, said it was standing by Jon Asgeir Johannesson.

Gunnar Sigurdsson, managing director of UK investments, told The Sunday Times the conviction was “very disappointing” but insisted the company was optimistic about reversing the verdict in Reykjavik."


Afhverju kætist Össur?

Satt best að segja er erfitt að átta sig á því afhverju samfylkingar og þá ekki síst Össur Skarphéðinsson, eru kátir með niðurstöðu skoðanakannana þessa dagana. Össur kætist sérstaklega yfir fylginu í Reykjavíkur norður og segir á heimasíðu sinni: "Hver hefði trúað því fyrir nokkrum mánuðum að Samfylkingin stefndi yfir 30% í Reykjavík norður og væri farin að glefsa í hæla Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu?"

Fyrir flokk sem hefur verið í stjórnarandstöðu, allt frá stofnun, getur það varla verið sérstakt gleðiefni að tapa töluverðu fylgi á milli kosninga. Verði niðurstaða kosninga í Reykjavík norður (þar sem Össur leiðir lista Samfylkingar), á þá lund sem Gallupkönnun bendir til ,hefur Össur misst 9,2%-stig frá síðustu kosninngum. Þá var Samfylkingin stærri en Sjálfstæðisflokkurinn og Össur varð fyrsti þingmaður kjördæmisins. Síðustu fjögur ár í stjórnarandstöðu hafa því ekki gert annað en minnka fylgi Samfylkingar undir forystu Össurar.

Til að setja þetta í betra samhengi þá jafngildir þetta að Össur hafi misst 25 af hverjum 100 kjósendum sem lögðu honum lið í síðustu kosningum.

Svipað er uppi í Reykjavík suður, þar sem svilkona Össurar og formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún leiðir listann. Svo ég styðjist aftur við sömu könnun og Össur kætist svo mjög yfir, minnkar fylgið um 10,1%-stig frá liðnum kosningum, en þá leiddi Jóhanna Sigurðardóttir lista flokksins í kjördæminu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband