Vinstri flokkarnir tapa fylgi - Samfylkingin étur af VG

Könnun Gallups, sem Morgunblaðið birti síðastliðinn föstudag, bendir til þess að þegar vika er til kosninga muni barátta um hylli kjósenda standa á milli Samfylkingar og vinstri grænna. Séu tvær síðustu kannanir Gallup bornar saman, hefur lítillega dregið úr samanlögðu fylgi vinstri flokkanna. Fylgistap vinstri grænna hefur að mestu verið étið upp af Samfylkingunni. 

Kosningabarátta vinstri flokkanna hefur í raun ekki skilað öðru en því að fylgið hreyfist á milli þeirra. Vinstri grænir missa 3,6% fylgi á milli kannana en Samfylkingin bætir við sig 2,3%. Samtals missa vinstri flokkarnir því 1,1%.

Af þessu má draga þá ályktun að möguleikar Samfylkingarinnar að ná kjörfylgi sínu við síðustu kosningar (31%), liggi fyrst og fremst í því að ná eyrum þeirra sem hyggjast leggja vinstri grænum lið. Ekki kæmi á óvart að baráttan síðustu vikuna fyrir kosningar myndi endurspeglast í nokkrum átökum milli vinstri manna og þau átök gætu síðan haft áhrif á vilja þessara flokka til að standa saman að myndun ríkisstjórnar, ef sá möguleiki kæmi upp úr kjörkössunum. 


Nautið vinnur stundum

Spænski nautabaninn, Mariano de la Vina, fékk að kynnast því í vikunni að þrátt fyrir allt á nautið á stundum möguleika í þessum ójafna og ógeðfellda leik. Myndin er tekin á nautaati í Lissabon í gær, föstudag. 

nautaat


Hagkaup blandar sér í kosningaslaginn

Hagkaup hefur blandað sér í kosningaslaginn með nokkuð afgerandi hætti. Með heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu í dag þar sem sagt er að verslunin vilji "virkt neytendalýðræði".

Hagkaup spyr: "Vita frambjóðendur til alþingskosninga hvað neytendur vilja?" Vitnað er í könnun Gallup en eingöngu tekið mið af svörum viðskiptavina Hagkaupa. Alls voru tæp 60% viðskiptavina Hagkaupa hlynnt því að leyfa sölu á léttvísi og/eða áfengum bjór í verslunarkeðjunni.

"Leyfum neytendum að ráða," er síðan salgorð keðjunnar.

Nú get ég tekið undir með forráðamönnum Hagkaupa og raunar tel ég eðlilegt að afnema með öllu einkaleyfi ríkisins á sölu áfengra drykkja. En eru það ekki önnur mál sem brenna meira á neytendum en sala á léttvíni og bjór í matvöruverslunum? Frjáls viðskipti með landbúnaðarvörur skiptit almenning mun meira máli, en hvort hægt sé að kaupa áfengi um leið og lambalærið er sett í innkaupakörfuna.

Það hefði verið miklu nær fyrir forráðamenn Hagkaupa, fyrst þeir ákváðu á annað borð að blanda sér í kosningabaráttuna viku fyrir kosningar, að vekja athygli á mikilvægi frjálsra viðskipta með landbúnaðarvörur. Slíkt hefði raunar verið í anda sögu fyrirtækisins og baráttu Pálma Jónsson fyrir frjálsræði.

hagkaup


Ótrúleg staða í Reykjavík suður

Nýjasta könnun Gallup fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið, leiðir í ljós ótrúlegan mun á fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum. Munar þar hvorki meira né minna en 11,4%-stigum.

Samkvæmt könnuninni er staða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður, þar sem Geir Haarde skipar efsta sætið og Björn Bjarnason annað sætið, ótrúlega sterk. Flokkurinn fengi 48,5% atkvæða, sem verður að teljast með hreinum ólíkindum.

Staðan í Reykjavík norður er ekki með sama hætti en ef marka má könnunina fengi Sjálfstæðisflokkurinn 37,1%. Það sem hlýtur að vera merkilegt er að fylgi flokksins er ekki minna í neinu kjördæmi nema í Norðurausturkjördæmi. Það hefði þótt saga til næsta bæjar að fylgi Sjálfstæðisflokksins væri meira í Norðvesturkjördæmi en í Reykjavík.


Ævisaga forseta: Ólafur Ragnar og Björgólfur

Morgunblaðið staðfesti í gær, fréttir netverja, að Guðjón Friðriksson sagnfræðingur sé að vinna að ævisögu Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetastóli. Ævisagnaritarinn segist meðal annars vera að fjalla um þátt Ólafs Ragnars í útrás íslenskra fyrirtækja.

Ég ætla að láta liggja á milli hluta, hve sérkennilegt það er að skrifa sögu manns sem ekki hefur lokið sínu verki, en eins og sagt er í frétt Morgunblaðsins er ekki um "eiginlega ævisögu að ræða heldur verður kastljósinu beint að tíð Ólafs í forsetaembætti".

Guðjón Friðriksson segist vera að skrifa bók sem segi meira og minna frá forsetatíð Ólafs Ragnars: "Þar verður lögð sérstök áhersla á þessi erlendu samskipti hans og um leið er ég í raun að fjalla um útrásina og viðskiptalífið og þátt hans í því," segir Guðjón í viðtali við Morgunblaðið. Með þessu er gefið til kynna að útrásin og forsetinn verði ekki skilin að.

Vonandi verður sagan ekki skrifuð út frá einum sjónarhóli og fátt annað dregið með. Fyrir sagnaritarann verður auðvitað nauðsynlegt að líta til forsögu Ólafs Ragnars og kortleggja viðhorf hans til viðskiptalífsins. Þar verður auðvitað sagt frá því þegar Ólafur Ragnar, sem fjármálaráðherra, lét ráðast inn í Hagvirki en ekki verður síður dregið fram með hvaða hætti forsetinn kom fram í Hafsskipsmálinu. Og auðvitað mun Guðjón Friðriksson leitast við að svara þeirri spurningu hvernig það geti verið að Björgólfur Guðmundsson, aðaleigandi Landsbankans, hafi tekið Ólaf Ragnar í sátt. Björgólfur, ásamt syni sínum Björgólfi Thor, hefur verið í fararbroddi í útrásinni, sem svo mjög á að beina kastljósinu að og gera hlut Ólafs Ragnars mikinn.

Björn Jón Bragason sagnfræðingur skrifar merkilega grein í Þjóðmál - besta tímarit sem gefið er út hér á landi - undir heitinu Pólitískar afleiðingar Hafskipsmálsins. Þar rifjar hann upp ummæli og framgöngu stjórnmálamanna í þessu umdeilda máli, en meðal aðalleikara voru Ólafur Ragnar Grímsson og Björgólfur Guðmundsson. Björgólfur var forstjóri Hafskips en Ólafur var á þeim tíma varaþingmaður, sem tók sæti á Alþingi og réðist með harkalegum hætti á Björgólf persónulega og íslenskt viðskitpalíf einnig.

Björn Jón segir meðal annars í grein sinni:

"Þá sló Ólafur Ragnar því föstu að stjórnendurnir hefðu dregið að sér stórfé sem þeir hefðu notað til að greiða fyrir „einkalúxus erlendis og hérlendis".15 Einnig fann hann að því að Hafskip hefði staðið í skilum við Reykvíska endurtryggingu hf., þar sem þeir Ragnar Kjartansson stjórnarformaður Hafskips og Björgólfur Guðmundsson forstjóri sama félags væru meðal helstu eigenda tryggingafyrirtækisins. Óx honum mjög í augum að þetta fyrirtæki hefði fest kaup á húsi á horni Sóleyjargötu og Skothúsvegar, en fyrirtækið Staðarstaður hf. var skráð eigandi þess. Varaþingmaðurinn hélt áfram:

"Hverjir eiga Staðarstað hf.? Jú, Björgólfur Guðmundsson og Ragnar Kjartansson. Það er ekki nóg að mjólka úr Hafskipi yfir í annað fyrirtæki heldur er mjólkað úr því fyrirtæki og yfir í þriðja fyrirtækið til að tryggja að hringrásin geti haldið áfram og peningar almennings, sem fengnir voru í Útvegsbankanunum séu nægilega vel faldir ... þeir hafa sérstaklega séð til þess, eigendur byggingarinnar, Björgólfur Guðmundsson og Ragnar Kjartansson, af óskammfeilni sinni að það sé flóðlýst á hverju kvöldi svo dýrðin fari ekki fram hjá neinum og allir geti skoðað, sérstaklega kjósendur Framsóknarflokks og flokksmenn Sjálfstæðisflokks allt í kringum landið, hvert peningarnir úr Útvegsbankanum fóru og hvers konar höll það er sem þeir eiga náttúrlega á hreinu í dag, Ragnar Kjartansson og Björgólfur Guðmundsson, þegar upp er staðið.""

Allir ættu að lesa þessa fróðlegu samantekt Björns Jóns í Þjóðmálum. En gríðarlega verður það fróðlegt fyrir menn eins og mig, sem hafa haft það að lifibrauði í nær aldarfjórðung að fjalla um íslenskt viðskiptalíf, að lesa hvernig Guðjón Friiðriksson skýrir út sinnaskipti Ólafs Ragnars gagnvart atvinnulífi og einnig verður eftirtektarvert að fá upplýst hvernig þau sár sem Ólafur Ragnar risti í fjölskyldu Björgólfs Guðmundssonar hafa náð að gróna.


Ekki reyna þetta...

Gamall vinur minn hefur haft það sem reglu að senda mér ýmislegt í pósti mér til skemmtunar. Þetta myndband er sérstakt og ekki ætla ég að ráðleggja neinum að leika það eftir sem hér er reynt.


Ríkið þarf að greiða 54,3 milljónir

Málsvarnarlaun verjenda í Baugsmálinu nema alls 35,1 milljón króna og þarf af þarf ríkissjóður, samkvæmt úrskurði héraðsdóms að greiða 31,2 milljónir króna.

Augljóst er að ekki er allur lögfræðikostnaður sakborninganna tekin með í úrskurði hérðasdóms:

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, er með 15,3 millljónir og þarf af á ríkissjóður að greiða tæpar 13,8 milljónir eða 90%.

Jakob Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, er með 11,9 milljónir og þarf af á ríkissjóður að greiða 9,5 milljónir eða 80%.

Brynjar Níelsson, verjandi Jón Gerlands, er með 7,9 milljónir og er allur kostnaðurinn greiddur af ríkissjóði.

Auk þessa er ríkissjóði gert að greiða 90% af ýmsum kostnaði sem Jón Ásgeir á að hafa orðið fyrir eða alls 23,2 milljón af 25,7 milljónum.

Í heild er ríkissjóði því gert að greiða 54,3 milljónir í málsvarnarlaun og kostnað vegna Baugsmálsins.

Á móti eru Tryggvi og Jóns Ásgeir dæmdir til að greiða fimm milljónir í sakarkostnað. Samkvæmt því sem kemur fram á mbl.is er sakarkostnaður saksóknara 55,8 milljónir. 


mbl.is Jón Ásgeir og Tryggvi sakfelldir vegna kreditreiknings frá Nordica
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björk fær toppdóm í Newsweek

Nýja platan (diskurinn) hennar Bjarkar virðist ætla að slá í gegn og margir gagnrýnendur eru á því að Volta sé hennar besta plata fram til þessa. Nýr tónn er sagður sleginn - tónn sem ekki aðeins ádáendur Bjarkar munu kunna að meta.

Vikublaðið NewsWeek fjallar um Volta og fer mjög lofsamlegum orðum um Björk og nýju plötuna. Ég hef áður bent á að hægt er að heyra öll lögin á nýju plötunni á vefnum, það eina sem þarf að gera er að skrá sig, sem tekur u.þ.b. 15 sek.

Ég hef ekki verið í hópi dyggustu aðdáenda Bjarkar, en Volta er að breyta því.


Hvor er trúverðugri: Bjarni eða Sigurjón?

Mál ungrar stúlku og verðandi tengdadóttur Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra, hefur þróast með sérkennilegum hætti. Mörg orð og sum þung hafa verið látin falla, en enginn hefur gengið lengra en Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins. Hann vænir félaga sína á þingi um lygar.

Þegar þingmaður heldur því fram að samstarfsmenn á þingi, jafnvel þótt pólitískir andstæðingar séu, ljúgi - segi ekki satt - er eins gott fyrir viðkomandi að hafa sannanir fyrir máli sínu. Fram til þessa hefur Sigurjón engin gögn lagt fram eða sannanir fyrir ásökunum sínum. Þvert á móti segir hann aðeins að "þetta geti ekki verið satt".

Á heimasíðu sinni skrifaði Sigurjón, undir yfirskriftinni; Bjarni Benediktsson segir ósatt, segir þingmaðurinn eftirfarandi:

"Nú ber svo við að Bjarni Benediktsson fullyrðir að hann hafi ekkert vitað af tengslum umhverfisráðherra við stúlkuna sem um ræðir. Ég trúi þessu ekki enda getur þetta ekki verið satt miðað við hvernig þessi svokallaða undirnefnd allsherjarnefndar hefur sagst starfa í öðrum málum."

Er það með þessum hætti sem við viljum að þingmenn starfi - dylgjur og hálfsannleikur skulu vera þeirra helstu verkfæri? Vonandi ekki.

Spurningin sem stendur eftir er í raun að þessi: Hvor er trúverðugri; Bjarni Benediktsson eða Sigurjón Þórðarson? Varla getur svarið vafist fyrir.


mbl.is Bjarni segist ekki hafa neitað Sigurjóni um gögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir fyrirlesari á ráðstefnu Financial Times

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, verður einn fyrirlesara á ráðstefnu hins virta dagblaðs Financial Times.

Ráðstefnan verður haldin í Feneyjum 3.-5. júní næstkomandi og er fókusinn á munaðarvörur og -þjónustu - lúxus. Yfirskriftin er Old Luxury in New Markets; New Luxury in the Old World.

Það þykir mikil viðurkenning fyrir einstaklinga að Financial Times skuli leita til þeirra um að taka þátt í ráðstefnum sem blaðið heldur.  Frekari upplýsingar um ráðstefnuna er hægt á finna hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband