Mánudagur, 30. apríl 2007
Lárus forstjóri og Þorsteinn M. stjórnarformaður
Glitnir hefur staðfest frásögn mína frá síðasta föstudegi um að Bjarni Ármannsson sé að láta af störfum og nýr forstjóri verði ráðinn til bankans. Jafnframt að Þorsteinn M. Jónsson sé nýr stjórnarformaður bankans, en hluthafafundur var haldinn í dag.
Tilkynning Glitnis var sent út fyrir stuttu. Lárus Welding verður arftaki Bjarna Ármannssonar.
Mánudagur, 30. apríl 2007
Landsbankamaður í Glitni
Lárus Welding, forstöðumaður Landsbankans í London, verður arftaki Bjarna Ármannssonar. Þetta kemur fram á visi.is og eru heimildir vefsíðunnar réttar samkvæmt mínum heimildarmönnum.
Eins og ég greindi frá fyrir helgi hefur verið ákveðið að Bjarni Ármannsson hætti sem forstjóri og mun hann snúa sér að öðrum verkefnum. Samkvæmt heimildum mun það liggja fyrir en ég hef ekki fengið endanlega staðfest í hverju hið nýja verkefni er fólgið, en það mun ekki liggja fjarri fjármálamarkaðinum.
Lárus hefur undanfarin ár verið lykilstarfsmaður Landsbankans og á heiðurinn af árangri bankans í London. Ljóst er að brotthvarf hans er mikill missir fyrir Landsbankann.
Boðaður hefur verið starfsmannafundur í Glitni kl. 16.30 þar sem búist er við að greint verði á þessum breytingum.
Orðrómur um forstjóraskipti í Glitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. apríl 2007
Volta hennar Bjarkar komin á netið
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. apríl 2007
Mogginn, ritskoðun og þáttur Samfylkingar í eftirlaunalögunum
Björn Ingi Hrafnsson vekur athygli á niðurlagi Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins í gær, þar sem greint er frá að samfylkingarfólk hafi reynt að þrýsta á blaðamenn mbl.is að taka út frétt "um þær fátæklegu opnu umræður, sem þó fóru fram á landsfundi Samfylkingar".
Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins spyr því eðlilega hverjir hafi viljað ritskoða. Spurningin er eðlileg þó að þetta sé langt í frá í fyrsta skipti sem fjölmiðlamenn verða fyrir þrýstingi frá stjórnmálamönnum til að hafa áhrif á fréttir.
Fjölmiðlar hafa ekki lagt það í vanda sinn að greina frá þegar þeir eru beittir þrýsingi frá þeim sem hagsmuna eiga að gæta. Auðvitað kann að vera rétt að gera slíkt opinbert í einhverjum tilfellum, en þá er ekki hægt að vera með hálfkveðnar vísur.
Fyrst Morgunblaðið ákvað að greina frá þeim þrýsingi sem blaðamenn mbl.is urðu fyrir, á blaðið að ganga hreint til verks og nafngreina þann eða þá sem vildu "ritskoðun" líkt og Björn Ingi kallar það. Að öðrum kosti liggja allir félagar Samfylkingarinnar, og þá ekki síst þingmenn flokksins, undir grun. Skrifin í Reykjavíkurbréfi minna á þegar greint var frá því að þjóðþekktur einstaklingur og athafnamaður á fertugsaldri hefði verið handtekinn fyrir fíkniefnamisferli. Þá lágu margir undir grun hjá almenningi og þá ekki síst þeir saklausu.
Nú veit ég ekki hvaða frétt reynt var að sannfæra Moggamenn um að taka út af vefnum en ein frétt vakti hins vegar athygli mína á sínum tíma. Eftirlaunalögin hafa reynst Samfylkingunni erfið, eins og kom fram á landsfundi flokksins, þegar komið var í veg fyrir að tillaga Valgerðar Bjarnadóttur væri tekin til efnislegrar umræðu.
Getur verið að ástæða þess að ekki var hægt að ræða eftirlaunalögin á landsfundi jafnaðarmanna, sé sú að frumkvæði að setningu laganna hafi komið frá forystumönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna? Getur verið að Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon, hafi átt hugmyndina um að endurskoða lögin til að bæta eftirlaunakjör stjórnmálamanna og þar með sín eigin kjör? Er það rétt að Ingibjörg Sólrún hafi stutt lagasetninguna, enda tryggt að formenn stjórnmálaflokka, nytu góðra kjara, jafnvel þótt þeir ættu ekki sæti á Alþingi?
Mánudagur, 30. apríl 2007
Enginn árangur vinstri manna síðasta árið
Samkvæmt könnun Gallup í nóvember síðastliðnum var samanlagt fylgi vinstri flokkanna - Samfylkingar og Vinstri grænna - um 44%. Fyrir réttu ári var samanlagt fylgi flokkanna 46% samkvæmt Gallup.
Glöggur lesandi benti mér á þessa staðreynd eftir umfjöllun mína um gott fylgi vinstri flokkanna. Ef niðurstaða kosninganna verða svipaðar og nýjasta könnun Gallup bendir til verður fylgi vinstri aflanna 42,4% og skiptist hnífjafnt. Stjórnmálabarátta flokkanna virðist því ekki hafa skilað öðru en 3,6%-stiga fylgistapi síðasta árið.
Árangurinn er þó misjafn. Samfylkingin, undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar, var í maí á liðnu ári, með 29% fylgi samkvæmt Gallup, en mælist nú með 21,2%. Samfylkingin fékk samtals 31% atkvæða í síðustu kosningum.
Samfylkingin hefur því misst nær 8% fylgi á einu ári. Vinstri grænir, með Steingrím J. Sigfússon í fararbroddi, hafa hins vegar bætt við sig liðlega 4% á sama tíma. Vinstri grænir fengu 8,8% atkvæða í kosningum fyrir fjórum árum.Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.5.2007 kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. apríl 2007
Jón Sigurðsson sterkur í Kastljósi
Á tímum þegar yfirborðsmennska einkennir stjórnmálin á Vesturlöndum, þar sem útlit og leikrænir hæfileikar ráða mestu, er næstum hressandi að sjá mann í sjónvarpi sem kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Jón Sigurðsson hefur greinilega ekki sömu trú á ímyndarsérfræðingum og margir kollegar hans.
Í Kastljósi kom Jón fram sem traustur stjórnmálamaður, sem neitar að taka þátt í yfirboðum pólitískra keppinauta. Jón er greinilega vanur að tala hreint út en játa ef hann þekkir ekki viðfangsefnið nægjanlega vel. Vandinn er að honum hættir á stundum til að verða of tæknilegur.
Á undanförnum mánuðum hefur mikið verið rætt um það hvort kjörþokki (orð sem ímyndarsérfræðingar nota) Jóns Sigurðssonar væri nægjanlegur - hvort hann geti náð til kjósenda með sitt alskegg og talanda. Niðurstaðan fæst á kjördag, en eitthvað segir mér að margir kjósendur séu búnir að fá sig sadda af innihaldslitlu hjali sumra keppinauta Jóns. Kannski er það ástæðan fyrir því að svo virðist sem nokkuð sé að rofa til hjá Framsókn.
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Gott fylgi vinstri flokkanna
Ef niðurstöður kosninga verða með þeim hætti sem nýjasta könnun Gallup, fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið, bendir til geta vinstri flokkarnir tveir verið ágætlega sáttir við niðurstöðuna. Samtals er fylgi Samfylkingar og vinstri grænna 42,1%, sem er 2,6% fylgisaukning frá síðustu kosningum. Samanlagt fylgi vinstri flokkanna hefur ekki verið meira frá kosningunum 1978 þegar þeir fengu alls 44,9%.
Frá árinu 1971 hafa vinstri flokkarnir fengið að meðatali 38,6% atkvæða, ef niðurstaða nú í maí verður í takt við könnun Gallup. Meðalfylgi Sjálfstæðisflokksins er hins vegar nokkru minna eða 36,5%. Vert er þó að hafa í huga að árið 1987 fékk Sjálfstæðisflokkurinn aðeins 27,2% atkvæða, en það ár bauð Borgaraflokkurinn fram undir forystu Alberts Guðmundssonar og fékk 10,9%.
Aðeins tvisvar sinnum á þessum tímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið meira fylgi, en samanlagt fylgi vinstri flokkanna, 1974 og 1999. Árið 1991 var fylgi hægri og vinstri í raun jafnt þar sem munaði aðeins 0,4%.
| Vinstri flokkarnir | Sjálf-stæðis-flokkurinn |
1971 | 36,5 | 36,2 |
1974 | 32,0 | 42,7 |
1978 | 44,9 | 32,7 |
1979 | 37,1 | 35,4 |
1983 | 41,8 | 38,7 |
1987 | 38,8 | 27,2 |
1991 | 38,2 | 38,6 |
1995 | 37,8 | 37,1 |
1999 | 35,9 | 40,7 |
2003 | 39,8 | 33,7 |
2007 | 42,4 | 39,1 |
Þeir vinstri flokkar sem hafa boðið fram einu sinni eða oftar frá árinu 1971 eru: Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna, Bandalag jafnaðarmanna, Þjóðvaki og Kvennalistinn, Samfylkingin og Vinstri hreyfingin grænt framboð.
Niðurstaða könnunar Gallup er hins vegar athyglisverð, því svo virðist sem vinstri-grænir hafi náð að snúa aftur vörn í sókn, en sá byr sem virtist vera í seglum Samfylkingarinnar er horfinn. Könnunin bendir einnig til þess að ríkisstjórnin haldi velli með 32 þingmenn, sem fyrir 12 árum þótti of lítill meirihluti til að Davíð Oddson héldi áfram samstarfinu við Jón Baldvin Hannibalsson. Svo virðist sem Jón Baldvin hafi aldrei fyrirgefið þá ákvörðun.
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Alec Baldwin biður dóttur sína afsökunar
Leikarinn Alec Baldwin hefur þurft að beita öllu sínu til að byggja aftur upp ímynd sína eftir að upptaka á símtali til dóttur hans komst á netið. Svívirðingarnar leikarans voru með þeim hætti að fáir foreldrar létu sér til hugar koma að tala með þeim hætti, a.m.k. ekki þegar börnin heyra.
Alec var í viðtali á sjónvarpsþættinum The View og það er með hreinum ólíkindum hvernig hann sleppur frá málinu. Ég hygg að myndskeiðið sé gott dæmi um hvernig þáttastjórnendur geta lagst lágt og hvernig hægt er að gera vont sjónvarpsefni. Jafnvel Barbara Walters er full samúðar með leikarnum.
Símtalið er hér.
Föstudagur, 27. apríl 2007
Bjarni hættir hjá Glitni - Þorsteinn í Kók verður stjórnarformaður
Samkvæmt heimildum sem ég tel áreiðanlegar mun Bjarni Ármannsson hætta sem forstjóri Glitnis banka á næstunni - hugsanlega strax eftir hluthafafund næsta mánudag. Þessi ákvörðun kemur mjög á óvart, enda ljóst að hún mun leiða til þess að öll helstu matsfyrirtæki heims munu endurskoða lánshæfi og framtíðarhorfur Glitnis í kjölfarið.
Ákvörðun um brotthvarf Bjarna kemur í kjölfar uppskiptingar í hluthafahópi Glitnis fyrir nokkru þegar Milestone og Einar Sveinsson seldu hlutabréf sín í bankanum.
Fram til þessa hefur það þótt ólíklegt að Bjarni færi frá bankanum, ekki síst vegna þess að brotthvarf hans gæti haft neikvæð áhrif á lánshæfismat bankans á erlendum mörkuðum. Þá áhættu virðast menn hins vegar tilbúnir til að taka.
Hluthafafundur verður haldinn hjá Glitni á mánudag og fyrir tveimur dögum hélt ég því fram að líklega yrði Skarðhéðinn Berg Steinarsson, nýr formaður stjórnar. Þetta mun vera rangt hjá mér, þar sem ljóst er að Þorsteinn M. Jónsson, oftast kenndur við Kók (Vífilfell) mun taka við formennsku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 27. apríl 2007
Framsóknarmenn sjálfum sér verstir
Ég er einn þeirra sem hef átt erfitt að skilja gengi Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum. Eftir 12 ára stjórnarsetu, er ljóst að flokkurinn er ekki að uppskera eins og til var sáð. Því miður virðist nýr formaður ekki ná eyrum og athygli almennings, sem er slæmt enda sýnist mér þar fara maður sem hefur náð að samþætta þekkingu, reynslu og traust.
Ekki kæmi á óvart að Jón Sigurðsson nyti trausts mikils meirihluta þjóðarinnar ef spurt væri um slíkt í einni af þessum fjölmörgu skoðanakönnunum sem yfir okkur demlast í aðdraganda kosninga. Vandinn er hins vegar sá að kjósendur hafa ekki alltaf mikinn áhuga á að fara út að borða með þeim sem er traustur.
Framsóknarmenn hafa lengi kvartað yfir því að reynt sé að búa til andrúms sem er þeim andstætt. Kenna þeir fjölmiðlum, sjálfskipuðum stjórnmálaskýrendum og bloggurum um, auk pólitískra andstæðinga.
Mér sýnist hins vegar að Framsóknarmenn þurfi ekki mikla hjálp. Þeir eru sjálfum sér verstir.
Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)