Bauð forseta Rúmeníu starf

VB.is, fréttavefur Viðskiptablaðið, segir frá því í dag að Birgir Jónsson. framkvæmdastjóri hjá Kvos, hafi boðið forseta Rúmeníu starf. Þetta gerði Birgir í beinni útsendingu í rúmenska sjónvarpinu. Kvos er móðurfélag Prentsmiðjunnar Odda, og hefur á undanförnum árum verið að hasla sér völl í prentsmiðjurekstri í Austur-Evrópu.

Frétta vb.is hljóðar annars svo:

"Mikil fjölmiðlaumfjöllun hefur verið í Rúmeníu undanfarið í kjölfar þess að Birgir Jónsson, framkvæmdastjóri erlendrar starfsemi Kvosar, bauð Traian Basescu, fráfarandi forseta Rúmeníu starf í beinni útsendingu í rúmenska sjónvarpinu. Kvos á sem kunnugt er rúmensku prentsmiðjuna Infopress.

Atvikið sem hér er vísað til kom upp þegar fréttamaður snéri sér til Birgis við opnunarathöfn í verksmiðjunni og spurði hann út í hið pólitíska ástand sem hefur verið heldur órólegt undanfarið, meðal annars vegna togstreitu á milli forsetans og forsætisráðherra Rúmeníu.

Birgir sagði við rúmenska fréttamanninn að miðað við núverandi ástand í stjórnmálum Rúmeníu væri ljóst að forsetinn þyrfti á starfi að halda. Því væri hann tilbúinn að bjóða honum starf hjá Infopress. "Stjórnmálamenn eru alltaf góðir sölumenn," var haft eftir Birgi í viðtalinu sem hefur verið gerð rækileg skil í rúmenskum fjölmiðlum. Birgir sagði að hann sæi helst starf fyrir forsetann í söludeildinni.

Þegar Birgir var spurður um áhrif hugsanlegra kosninga í landinu á starfsemi erlendra fyrirtækja og þá sérstaklega Infopress svaraði hann að bragði: "Því fleiri kosningar því meira þarf að prenta." Í samtalinu tjáði hann sig einnig um pólitískt ástand í landinu sem vakti eins og áður sagði töluverða athygli."


"Við viljum völd"

Hrafn Jökulsson, er án efa einn skemmtilegasti þjóðfélagsrýnir okkar samtíma, þó ekki sé ég honum alltaf sammála. Hann hefur á undanförnum vikum skrifað reglulega pistla í Viðskiptablaðið og fer stundum mikinn. Í dag skýtur Hrafn föstum skotum á vinstri flokkana og þá ekki síst á gamla samherja í Samfylkingunni.

Hrafn heldur því fram að stjórnmál á Íslandi séu að breytast í moðsuðu. Nú þrasi frambjóðendur mestanpart um útfærslur og forgangsröð. Deilurnar fari ekki eftir flokkslínum heldur eftir kjördæmum: 

"Allir frambjóðendur í Suðurkjördæmi vilja tvöföldun Suðurlandsvegar. Allir frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi vilja Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri. Og svo framvegis.

Er þetta þá sami grautur í sömu skál? Er kannski ekki kosið um nokkurn skapaðan hlut?"

En Hrafn svarar sjálfum sér að bragði:

"Jú, það er kosið um næstu ríkisstjórn. Kaffibandalag stjórnarandstöðunnar vofir enn yfir þjóðinni. Það hafa forystumenn Samfylkingar, VG og Frjálslyndra áréttað á síðustu dögum og vikum. Og vill einhver - í alvöru - slíka ríkisstjórn? Eftir landsfund Samfylkingarinnar var þjóðin jafn nær um stefnu flokksins, sem virðist rúmast í þremur orðum: Við viljum völd.

Og viljum við sjá Magnús Þór Hafsteinsson sem félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Ingibjargar Sólrúnar, þar sem Steingrímur J. fengi að leika lausum hala í fjármálaráðuneytinu?

Um þetta er kosið 12. maí."


3,3 milljarðar farnir á árinu

Miklar sögur hafa verið að undanförnu um 365 fjölmiðla og hefur því meðal annars verið haldið fram að félaginu verði skipt upp í ljósvaka og prentmiðlun, um leið og félagið verður tekið af markaði í kauphöll. Guðmundur Magnússon upplýsir að þessar sögusagnir séu ekki réttar og mun hann hafa traustar heimildir fyrir því.

Gengi hlutabréfa 365 hefur fallið um liðlega 28% á árinu samkvæmt yfirliti hjá M5 og um hvorki meira né minna en 42% á síðustu 12 mánuðum, að því er fram kemur í yfirliti á mbl.is. Markaðsverðmæti bréfa 365 er nú tæpir 11,8 milljarðar og hefur verðmætið því lækkað um 3,3 milljarða það sem af er ári.

Gríðarlegt tap (rúmir 6,9 milljarðar) á liðnu ári hefur kallað á allsherjar endurskoðun á skipulagi félagsins, með það að markmiði að lækka skuldir, hætta óarðbærum rekstri og einbeita sér að kjarnastarfsemi.

Greiningardeild Landsbankans telur að ekki sé að búast við að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til muni skila sér fyrr en á komandi ári. Í yfirliti sem gefið var út 10. apríl síðastliðinn sagði orðrétt:

"Við gerum hins vegar ráð fyrir að EBITDA framlegð ríflega tvöfaldist milli ára og nemi 10% af tekjum. Skýrist það af hagræðingaraðgerðum og endurskipulagningu. Sem dæmi má nefna að útgáfurétturinn að DV hefur verið seldur og rekstri NFS hætt. Við reiknum þó ekki með að viðsnúningur náist í rekstrinum fyrr en 2008. Lækkun fjármagnskostnaðar er forgangsverkefni stjórnenda, en í því samhengi er sala á eignarhlutum í Wyndeham (19% hlutur) og Hands Holding (30% hlutur) lykilatriði.

Greiningardeild hefur ekki birt verðmat á 365 en verðmatskennitölur eru háar og félagið stefndur frammi fyrir krefjandi rekstrarumhverfi með kostnaðarhækkunum og minni hagvexti. EV/EBITDA 2007 er 14. Við mælum með undirvogun á bréfum félagsins í vel dreifðu eignasafni sem tekur mið af íslenska markaðnum."

Í tilkynningu frá 365, þegar uppgjör liðins árs var kynnt, var sagt að rekstrarhorfur væru taldar nokkuð góðar á yfirstandandi ári. En síðan var undirstirkað að stjórnendur félagsins standi frammi fyrir ákveðnum áskorunum í rekstri:

"Til að mynda hefur kostnaður við dreifingu Fréttablaðsins farið vaxandi á undanförnum misserum og líklegt að sá kostnaður eigi eftir að þyngjast eitthvað áfram, unnið er að hagræðingu á því sviði.  Í upphafi árs hafa orðið nokkrar sveiflur á auglýsingamarkaði, þannig hefur dregið úr sölu á auglýsingamarkaði prentmiðla en aukist hjá ljósvakamiðlum."


Ótrúlegt ósamræmi

Mikið ósamræmi er í niðurstöðum skoðanakannana um fylgi flokkanna í Reykjavíkurkjördæmi suður. Stöð 2 birti í gærkvöldi niðurstöðu könnunar Félagsvísindastofnunar, en ekki kom fram hvenær könnunina var gerð. Könnun Gallup fyrir Sjónvarpið og Morgunblaðið, sem kynnt var fyrir nokkrum dögum, mat fylgi Sjálfstæðisflokksins 42,5% en samkvæmt Félagsvísindastofnun er fylgi flokksins 32,6%. Mismunurinn er 9,9%-stig, hvorki meira né minna.

Svipað er að segja um Vinstri-græna. Fylgið flokksins er 4,4%-stigum meira samkvæmt Félagsvísindastofnun en samkvæmt Gallup. Mismunur á könnunum er sýndur hér í töflu að neðan. 

Stöð2

RUV-MBL

Mis-munur

B

6,7

4,5

2,2

D

32,6

42,5

-9,9

F

6,2

3,9

2,3

I

4,2

5,4

-1,2

S

26,6

24,9

1,7

V

23,2

18,8

4,4

Úrtak í báðum könnunum var 800 manns og svarhlutfall svipað, en þó aðeins skárra hjá Félagsvísindastofnun eða 63%, hafi ég tekið rétt eftir. Könnun Gallup var gerð dagana 15.-19. apríl, en ég hef ekki upplýsingar um hvaða daga Félagsvísindastofnun gerði sína könnun.


Furðuleg aðferð við veiði

Ég hef séð margt í veiðimennsku og hef heyrt enn fleira og sumt af því vart trúverðugt, eins og gengur. Nú er veiðitíminn að hefjast (raunar hafinn í nokkrum sjóbirtingsám) og því kannski ekki úr vegi að líta á tvö myndbönd.

Fyrra myndbandið er furðulegasta myndskeið um veiði sem ég hef rekist á. Hér eru engar stangir notaðar, engin net eða önnur skynsamleg veiðafæri, aðeins ljóskastarar. Furðulegt.

 Síðara myndbandið er samsett þar sem augljóst er að ekki hafa allir alist upp við veiðar.


Er Margrét Frímannsdóttir á leið í fangelsismálin?

Því hefur verið haldið fram að Margrét Frímannsdóttir kunni að hasla sér völl innan stjórnkerfis fangelsismála. Það vakti athygli að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra skyldi hafa skipað hana formann í nefnd til að gera úttekt á málefnum Litla Hrauns.

Margrét lætur af þingsmannsstöfum nú í vor og ýmsir velta vöngum yfir því, hvort hún hafi hug á að láta að sér kveða á vettvangi fangelsismála.

Nefndin undir forystu Margrétar mun þegar hafa skilað áfangaskýrslu og leggur þar til að byggt verði sérstakt móttökuhús við Litla Hraun.


Katrín Pétursdóttir (í Lýsi) í stjórn Glitnis

Á hluthafafundi í Glitni banka næstkomandi mánudag verður mikil uppstokkun í stjórn í kjölfar uppstokkunar í hluthafahópi. Tvennt vekur þar sérstaka athygli. Annars vegar að Katrín Pétursdóttir, oftast kennd við Lýsi, tekur þar sæti og hins vegar að hvorki Hannes Smárason né Jón Ásgeir Jóhannesson, gefa kost á sér í stjórn.

Að líkindum var það skynsamleg ákvörðun hjá Jóni Ásgeir og Hannesi að sækjast ekki eftir stjórnarsetu, en Hannes gengur úr stjórninni.

Einar Sveinsson, sem verið hefur formaður stjórnar, síðustu árin, hefur selt sinn hlut og gengur úr stjórn. Því mun nýr maður taka við stjórnarformennsku. Yfirgnæfandi líkur verða að teljast að Skarphéðinn Berg Steinarsson verði fyrir valinu. Hann er raunar stjórnarformaður FL Group, sem aftur er stærsti hluthafinn í Glitni. Skarphéðinn er svo aftur framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Baugi Group.

Ljóst er að margir munu fagna að Katrín hafi ákveðið að taka sæti í stjórn.

Framboðsfrestur til stjórnar er runninn út og því verður sjálfkjörið og mun stjórn bankans því verða þannig skipuð:

Aðalmenn:

Björn Ingi Sveinsson, 261151-2359, Kelduhvammi 12b, 220 Hafnarfirði

Haukur Guðjónsson, 201066-8249, Melgerði 12, 108 Reykjavík

Jón Sigurðsson, 180378-4219, Unnarbraut 17, 170 Seltjarnarnes

Katrín Pétursdóttir, 230562-2109, Bakkavör 40, 170 Seltjarnarnes

Pétur Guðmundarson, 050550-2499, Urriðakvísl 26, 110 Reykjavík

Skarphéðinn Berg Steinarsson, 050763-7819, Melhaga 1, 107 Reykjavík

Þorsteinn M. Jónsson, 180263-3309, Laufásvegi 73, 101 Reykjavík

Varamenn:

Eiríkur S. Jóhannsson, 080268-4839, Dalhúsum 86, 112 Reykjavík

Gunnar Karl Guðmundsson, 141259-2029, Háabergi 25, 221 Hafnarfirði

Jón Björnsson, 160166-5769, Austurbyggð 14, 600 Akureyri

Kristinn Bjarnason, 240364-2209, Álfabergi 8, 221 Hafnarfirði

Kristinn Þór Geirsson, 270766-4989, Mánalind 4, 201 Kópavogi

Paul Richmond Davidson, 170865-2279, Bretlandi

Smári S. Sigurðsson, 030847-3349, Sporðagrunni 1, 104 Reykjavík


Íslandsmet á morgun

Flestir búast við því að Íslandsmet verði slegið á morgun, þegar Exista tilkynnir um afkomu félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins. Greiningardeild Glitnis banka gerir ráð fyrir að hagnaðurinn verði 54,6 milljarðar króna, sem jafngildir 18,2 milljörðum króna í hverjum mánuði að meðaltali. Greiningardeild Landsbankans er enn bjartsýnni og spáir um 60 milljarða hagnaði.

Þessi gríðarlega góða afkoma Exista endurspeglar góðan árangur í kjarnafjárfestingum félagsins og þá fyrst og fremst í Kaupþingi og Sampo, finnska tryggingafélaginu. Kaupþing mun raunar einnig birta afkomu sína á morgun og reikna flestir markaðsaðilar með að bankinn sé með um eða yfir 20 milljarða hagnað á fyrsta ársfjórðungi.

Exista beitir svokallaðri hlutdeildaraðferð og færir því hlutdeild í hagnaði fyrirtækjanna í samræmi við eignarhlut. Greiningardeild Íslandsbanka telur að hlutur Exista í hagnaði Sampo verði um 42 milljarðar og fimm milljarðar vegna Kaupþings.

Annað fjármálafyrirtæki mun einnig birta afkomutölur á morgun. Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki mun opinber þriggja mánaða tölur. Reiknað er með góðri afkomu.

Það má því búast við góðum degi á íslenskum fjármálamarkaði á morgun.


Ekki reita gamlar konur til reiði

Það borgar sig ekki að reita gamlar konur til reiði, jafnvel þó þú sért á góðum bíl.

Frjálsleg loforð

Frjálslyndir ætla að taka forystuna í kosningabaráttunni hvað varðar kosningaloforð. Yfirboð Frjálslynda flokksins verða sérkennilegri eftir því sem nær dregur kjördegi.

Heilsíðuauglýsingar í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Blaðinu, í dag eru merki um að frjálslyndir eru að fara af taugum. Gengi þeirra í skoðanakönnunum er þannig að ef ekki væri fyrir persónulegar vinsældir flokksformannsins í eigin kjördæmi, kæmist varla nokkur frambjóðandi flokksins á þing. En vinsældir Guðjóns A. Kristjánssonar hafa minnkað frá síðustu kosningum - nema að skýringin á minna fylgi í Norðvesturkjördæmi sé sú staðreynd að Kristinn H. Gunnarsson hefur gengið til liðs til frjálslynda og situr í 2. sæti á framboðslista þeirra í kjördæmi formannsins. 

Frjálslyndir lofa að afnema verðtryggingu. Fyrir nokkru setti flokkurinn fram yfirboð í skattamálum sem ganga ekki upp, eins og bent hefur verið á og frambjóðendur frjálslyndra hafa ekki treyst sér til að svara athugasemdum.

Frjálslyndir halda því fram að afnám verðtryggingar lána sé nauðsynleg fyrir heimilin í landinu. Með afnámi verðtryggingar virðist Frjálslyndi flokkurinn ætla að bjarga efnahag íslenskra heimila. Nú ætla ég ekki að eyða mörgum orðum um að verðtrygging hefur fremur orðið til þess að raunvextir lána eru lægri en ella, vegna þess að áhætta lánveitanda er minni en annars, heldur aðeins og benda á að stór hluti eigna íslensks almennings nýtur verðtryggingar.

Nú bíð ég spenntur eftir næsta yfirboði frjálslyndra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband