"Alvöru" kappræður

Það hefur aldrei andað sérstaklega hlýju á milli Clinton og Obama og allra síst eftir að hann fór að ógna útnefningu forsetafrúarinnar fyrrverandi. Harkan á eftir að aukast á komandi dögum en mikið undir. Clinton berst fyrir pólitísku lífi sínu og arfleifð þeirra hjóna í sögu Bandaríkjanna.

Finnst þetta myndband ´varpa jafn skýru ljósi og margt annað á ástandið.


Rétt að afskrá félagið

Viðskipti með hlutabréf Flögu eru takmörkuð og því er verðmyndun þeirra í raun engin. Það er því fullkomlega vafasamt að slá því upp að bréfin hafi hækkað um 56% í dag líkt og um "alvöru" viðskipti á markaði sé að ræða.

Sé litið til viðskipta með bréf Flögu þá voru 40 viðskipti alls að fjárhæð liðlega 13,6 milljónir króna. Fyrstu viðskipti voru á genginu 0,70 - þ.e. hver króna nafnverðs var á 70 aura. Aðeins viðskipti fyrir  378 þúsund krónur voru á hæsta verði en alls námu viðskipti á genginu 1,00 eða hærra tæpum 7,6 milljónum.

Sé litið á þróun á gengi bréfa í Flögu kemur í ljós að sem fjárfestingarkostur hafa þau verið afleit. Í lok ágúst 2006 fór gengi þeirra hæst og var 4,20, en frá þeim tíma hefur gengið verið í frjálsu falli, fyrir utan litla hækkun í desember sama ár, en 13. desember voru mestu viðskipti með bréf félagsins á einum degi eða 112,7 milljónir.

Flaga er dæmi um félag sem helstu hluthafar hljóta að hugleiða að taka af markaði. Verðmyndun með bréfin er í raun engin og því hlaupa fjölmiðlar til með fyrirsagnir eins og mbl.is gerir að þessu sinni.


mbl.is Bréf Flögu hækkuðu um 56%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiðilestur klerks um fjölmiðla

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur við Akureyrarkirkju, vandar fjölmiðlum ekki kveðjurnar í pistli á bloggsíðu sinni. Þar heldur hann því fram að fjölmiðlar hafi aðallega áhuga á sér sjálfum, yfirborðsmennskan sé allsráðandi og veruleiki fjölmiðlafólks sé sýndarveruleiki.

Séra Svavar Alfreð telur að fjölmiðlar séu að breyta þjóðfélaginu í aulaþjóðfélag. 

Tilefni skrifa séra Svavars Alfreðs er umdeildur þáttur Spaugsstofunnar síðasta laugardag, en grínistarnir hafa haldið því fram að ekki hafi verið gert grín að veikindum borgarstjóra heldur var hæðst að fjölmiðlaumfjöllun um veikindin. (Það háð fór framhjá mér eins og fleirum).

"Fjölmiðlafólk landsins er á fullu við að gera okkur grein fyrir því hvernig fjölmiðlafólk fjallar um veruleikann," segir sóknarprestur þeirra Akureyringa.

Dómur séra Svavars Alfreðs um íslenska fjölmiðla er harður og óvæginn: "Umfjöllun sem ber vott um góða þekkingu blaðamanns á viðfangsefni sínu er alltof sjaldgæf í íslenskum fjölmiðlum." Yfirborðsmennskan er allsráðandi og skortur á faglegri fjölmiðlagagnrýni nær algjör.

Ekki get ég tekið undir allt sem sóknarprestur þeirra Akureyringa skrifar, en það er rétt að sjálfhverfa fjölmiðla eykst með hverju ári. Og þeim fjölgar sem eru sama sinnis og séra Svavar Alfreð.


Ríkisreknir listamenn

Nær 300 milljónum króna var úthlutað til listamanna, sem opinber nefnd telur að séu þess virði að sinni listsköpun fyrir landsmenn. Færri fengu en vildu. Tæplega þrír af hverjum tíu sem sóttu um opinbera styrki til listsköpunar hlutu náð fyrir augum nefnda. Þannig hafa ríkisreknar nefndir ákveðið hvað skuli gerast í menningarlífi landsmanna á næstu mánuðum og árum.

Í besta falli er hægt að setja fram alvarlegar spurningar um réttmæti þess að ríkisvaldið skuli með þessum hætti flokka listamenn. Og fyrir listamennina sjálfa hljóta að vera blendnar tilfinningar að þiggja opinbera styrki á sama tíma og meirihluti starfssystkina er út í kuldanum og ekki talinn sinna verkum sem er til hagsbóta fyrir þjóðfélagið. Eitt sinn reyndu listamenn að brjótast undan ofurvaldi ríkisvaldsins og valdastétta enda oft nauðsynlegir gagnrýnendur þjóðfélagsins.

Fyrir sjálfstæða listamenn hlýtur það einnig að vera frekar nöturlegt að þurfa að sækja um styrki til opinberra nefnda og bíða síðan milli vonar og ótta vikum eða mánuðum saman eftir niðurstöðu um hvort verk þeirra falli nefndarmönnum í geð eða ekki.

Eftir því sem fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins á ruv.is var að þessu sinni úthlutað um 300 milljónum króna og eru alls 1200 mánaðarlaun þar að baki. Þetta þýðir um 250 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Auk þessa samþykkti Alþingi að 28 listamenn fái svokölluð heiðurslaun listamanna á þessu ári samtals 50,4 milljónir króna. Hver listamaður fær 1,8 milljón króna á árinu og var fjárhæðin hækkuð um 200 þúsund frá liðnu ári.

Líklega eru flestir sammála því að með einum eða öðrum hætti eigi að hlúa að menningu og listum. En núverandi fyrirkomulag er niðurlægjandi fyrir listamennina sjálfa. Því er nauðsynlegt að leita annarra leiða. Það má t.d. taka upp opinbera styrki í réttu hlutfalli við sölu rithöfunda á markaði, en með  því er almenningur beint að greiða atkvæði um hvernig styrkjum skuli háttað. (Athyglisvert er að Arnaldur Indriðason, vinsælasti höfundur landsins, er ekki í hópi þeirra listamanna sem fá laun frá ríkinu). Tónlistamenn geta sótt styrki með svipuðum hætti. Myndlistarmenn eru kannski í erfiðari aðstöðu en þó kæmi t.d. til greina að einstaklingar og fyrirtæki sem kaupa verk listamanna geti sótt um ákveðna endurgreiðslu í formi skattaafsláttar, (svipað og var með hlutabréf). Slíkt ætti heldur betur að örva markað fyrir myndlist hér á landi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikilvæg vika fer í hönd

Allir bankarnir munu birta afkomu sína á liðnu ári í þessari viku. Landsbankinn birtir fyrstur afkomuna eftir lokun markaðar í dag. Glitnir kynnir afkomu liðins árs á morgun sem og Straumur Burðarás. Kaupþing birtir afkomuna á fimmtudag sama dag og Exista, sem jafnframt er stærsti hluthafi bankans. FL Group leggur spilin á borðin 13. febrúar næstkomandi.

Mikil eftirvænting er vegna uppgjörs bankanna og bíða fjárfestar milli vonar og ótta. Hvernig afkoma þessara fyrirtækja var í reynd á síðasta ársfjórðungi síðasta árs mun hafa mikil áhrif á það hvernig hlutabréfamarkaðurinn þróast á komandi vikum og mánuðum.


Verð á kolum rýkur upp

Búast má við að kol hækki verulega í verði á mörkuðum nú í vikunni vegna minna framboðs. Í Suður-Afríku hefur námum verið lokað tímabundið vegna raforkuleysis og í Ástralíu hefur framleiðsla dregist verulega saman vegna flóða. Þá hafa kínversk stjórnvöld bannað útflutning á kolum í febrúar og mars, til að koma í veg fyrir skort á heimamarkaði. Kína er stærsti kolaframleiðandi heims en um leið stærsti notandi.

Verði vandræði kolavinnslufyrirtækja í Suður-Afríku og Ástralíu langvinn er augljóst að það mun hafa veruleg áhrif á verðið til lengri tíma og hugsanlega einnig á verð á öðrum orkugjöfum. Í Evrópu hækkaði kolaverð um 87% á liðnu ári vegna aukinnar eftirspurnar í kjölfar hækkandi olíu- og gasverðs. Þá hefur Indland stóraukið innflutning á kolum.

Fátt bendir til annars en að verð á eldsneyti, hvaða nafni sem það nefnist, eigi eftir að haldast hátt á komandi mánuðum, þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu. Það ætti kannski að beina augum fjárfesta að fyrirtækjum s.s. kolafyrirtækjum.

Námufyrirtæki hafa ekki lækkað eins mikið í verð og önnur fyrirtæki síðustu vikurnar og raunar hækkuðu hlutabréf í flestum skráðum fyrirtækjum á þessu sviði í Bandaríkjunum verulega í liðinni viku. Consol Energy Inc. (CNX) hækkaði um 22% í síðustu viku en síðustu 12 mánuði hefur félagið hækkað um 117% í verði. Annað félag, Massey Energy (MEE) hækkaði um 21% en síðustu 12 mánuði hafa hlutabréf fyrirtækisins hækkað um 54%.


Hætt við nýskráningar vegna óróa á mörkuðum

Á síðustu tíu árum hafa ekki jafnmörg félög tilkynnt um frestun á nýskráningu hlutabréfa (IPO) en það sem af er þessum mánuði. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg fréttaveitunnar sem segir að alls hafi 24 félög hætt við skráningu í þessum mánuði.

Augljóst er að það er ekki skynsamlegt fyrir eigendur fyrirtækja að stefna að skráningu þeirra við þær aðstæður sem nú eru. Vekur það upp spurningar um hvort ekki kunni að vera rétt af forráðamönnum íslenskra fyrirtækja sem hafa stefnt að skráningu í kauphöll á næstu mánuðum, að hinkra fram eftir ári. Þetta á t.d. við um Símann og Promens, sem bæði stefnu að skráningu á liðnu ári, en frestuðu vegna markaðsaðstæðna. Fátt bendir til að þær aðstæður breytist á næstu vikum.

 


Leikmenn West Ham vilja hærri laun

Bjoggi og EggertBjörgólfur Guðmundsson, eigandi West Ham, hefur gefið skýrt til kynna að ekki verði um launahækkanir að ræða hjá leikmönnum. En ef marka má umfjöllun í enskum miðlum, er ekki víst að hann nái að standa gegn kröfum allra leikmanna.

Óánægja virðist vera meðal leikmanna úrvalsdeildarliðsins í kjölfar þess að Eggert Magnússon, sem látið hefur af störfum hjá félaginu, keypti Freddie Ljungberg og Craig Bellamy en sá fyrrnefndi er sagður vera með nær 80 þúsund pund á viku sem er margfalt það sem hann hafði hjá Arsenal. Raunar munu kaupin á Ljungberg og samningurinn við hann hafa verið "banabiti" Eggerts Magnússonar hjá West Ham.

Frá því er greint að margir leikmenn West Ham séu mjög óánægðir með hversu launamunurinn er orðinn mikill hjá liðinu og þrýsta því á hækkun launa. Á vefsíðu breska götublaðsins News of the World er fjallað um þetta mál, en þess ber að geta að blaðið er ekki í hópi áreiðanlegustu fjölmiðla Bretlandseyja.


Fjárfestingartækifæri

Á tímum óróa á fjármálamörkuðum leita fjárfestar eftir öruggu skjóli til að ávaxta peningana sína. Og fátt er um fína drætti þegar efnahagslíf heimsins berst við samdrátt. Nýr meirihluti í borgarstjórn gefur hins vegar vonir um ný tækifæri.

Fjármálaráðgjöf dagsins er: Kaupið hjall eða niðurnýtt hús við Laugaveginn á meðan núverandi meirihluti í borgarstjórn heldur velli.


Borgarblús

Hér kemur ein vísa enn sem ég fékk í pósti og enn er höfundur ókunnur.

Borgarblús 

Dagur er liðinn og dæmalaus sorg, 
depurð og leiði í hnípinni borg. 
Ólafur Frjálslyndur (óháður þó) 
öllu brátt ræður í fjúki og snjó. 

Björn Ingi snarar sér Boss-jakkann í, 
blessaður engillinn kominn í frí. 
Svandís er forviða, heldur um haus, 
hennar er stóllinn þó alls ekki laus. 

Vilhjámur Þ., sá er stóð upp úr stól 
og stakk af til Kanarí rétt fyrir jól, 
kemur til baka með börnin sín smá 
og borgmester verður að ári hér frá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband