Af fötum og framsókn

Fékk þetta í tölvupósti fyrir skömmu, en veit ekki hver er höfundur. Svona í tilefni atburða vikunnar er vert að birta þetta. Kannski að höfundurinn gefi sig fram við tækifæri eða fleiri vísur verði settar saman.

 

Æran er flekklaus öldungis mín,

engan ég svík eða blekki.

Víst eru nýju fötin mín fín

en Flokkurinn greiddi þau ekki.

 

Flestir mundu fagna því

og flokksins vaxa kraftur.

Ef að Framsókn færi í

fjósagallan aftur.

 

Situr einn á sviðnum bletti,

samherjarnir meiddir flýja,

Henti í þa hnífa setti,

og hefur ekki fundið nýja.

 

Búrhnífar standa bökum í,

svo blóðið lagar í taumum,

og Framsókn dýru fötin ný,

farin að trosna á saumum.

 

Framsóknar- er fúið brak,

flúinn Björn af velli,

En alltaf má fá annað bak,

og aðra hnífa í hvelli.

 

Ætli ég segi ekki bara,

eigi þarf að þinga,

Þó Guðjón vilji fá að fara

í föt af Birni Inga.


Kolla og Samfylkingin

Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður og bókmenntarýnir, er farin að efast um að hún eigi samleið með Samfylkingunni. Í fjölmiðlapistli sínum í 24 stundum, er Kolbrún þung yfir því sem hún kallar skrílslæti á áheyrendapöllum Ráðhússins í gær.

"Það sem gerðist á áheyrendapöllum Ráðhússins í gær á lítið skylt við mótmæli. Þetta voru skrílslæti," segir Kolbrún og bætir við: "Þeir sem að þeim stóðu ættu að skammast sín, en ég efast um að þeir kunni það. Vonandi eiga þeir eftir að þroskast."

Kolbrún (Kolla) segir að hópurinn á pöllunum hafi gleymt sér í múgæsingu og hagað sér eins og óður skríll og hún bætir við:

"Þetta var ófögur sjón og vonandi á maður ekki eftir að verða oft vitni að öðru eins. Maður spyr sig hvort fulltrúum minnihlutans hafi þótt þessi ógeðfellda múgæsing í lagi. Ef þeim finnst þetta virkilega gott og blessað þá held ég að það sé varasamt að treysta þeim. Skynsamt fólk á að sjá að þetta var ekki í lagi."

Svo vill til að Kolbrún fær svar við þessari spurningu í eigin blaði. Eftirfarandi er haft orðrétt eftir Degi B. Eggertssyni, sem nú er orðinn fyrrverandi borgarstjóri eftir liðlega 100 daga á stóli borgarstjóra:

"Þarna hefur verið gengið þannig á svig við allar leikreglur svo flestum blöskrar. Það sem var hér á ferðinni var alls ekkert ofbeldi heldur stór hópur venjulegs fólks sem var mætt í hádegishléinu sínu til þess að segja sína skoðun."

Þá veit Kolla hverjum er ekki treystandi og kannski er hún um leið búin að fá svar við því hvort hún sé í réttum félagsskap eða ekki. Í niðurlagi fjölmiðlapistils síns segir Kolla:

"Samfylkingarfólk mun hafa verið fjölmennt á pöllunum þennan dag. Nú vill svo til að ég er flokksbundin í Samfylkingunni. Ef það fólk sem þarna var á pöllum er dæmigert fyrir Samfylkinguna þá er ég örugglega ekki í réttum félagsskap."


Hroðvirknisleg vinnubrögð Morgunblaðsins

Frétt Morgunblaðsins, í gær, um álit greiningardeildar sænska bankans SEB Enskilda á fjárhagsstöðu Exista var sérkennilega unnin. Ekkert var óeðlilegt við að Morgunblaðið greindi frá álitinu - raunar hefði verið óeðlilegt af ritstjórn blaðsins að þegja þunnu hljóði. En vinnsla fréttarinnar var í besta falli hroðvirknisleg.

Þegar ritstjórn Morgunblaðsins ákvað að birta fréttina um álit Enskilda og slá henni upp sem aðalfrétt blaðsins, gerði hún sér fulla grein fyrir því að fréttin myndi hafa mikil áhrif innanlands og utan, eins og kom í ljós þegar hlutabréf Exista féllu um liðlega 11%. Á einum degi fóru nær 16,5 milljarðar út um gluggann hjá hluthöfum Exista.

Ef greining Enskilda á við rök að styðjast er augljóst að staða Exista er alvarleg og mun hafa mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf. Einmitt þess vegna hefði ritstjórn Morgunblaðsins átt að vanda sig sérstaklega og stunda sjálfstæða blaðamennsku, en ekki éta allt hrátt upp frá frændum okkar í Svíþjóð. Ritstjórn blaðsins hefði auðvitað átt að bera álit Enskilda undir forráðamenn Exista, en einnig leita upplýsinga hjá greiningardeildum Landsbanka og Glitnis, sem eiga litla beina hagsmuni tengda Exista. Þetta var ekki gert né var gerð tilraun til að leggja sjálfstætt mat á greiningu sænska bankans á stöðu Exista, sem þó hefði verið næsta auðvelt.

Niðurstaðan er því sú að frétt Morgunblaðsins var hroðvirknislega unnin og í raun óskiljanlegt hvernig ritstjórn getur gengið fram með þeim hætti sem raun ber vitni.

Greiningardeild Glitnis gerði athugasemdirvið niðurstöður kollega sinna og forráðamenn Exista hafa mótmælt harðlega. Í komandi viku verður ársuppgjör Exista kynnt og þá kemur hið rétta í ljós. En í þessu samhengi er það í sjálfu sér aukaatriði, hver hefur rétt fyrir sér og hver ekki. Meginatriðið er hvernig Morgunblaðið stóð að vinnslu fréttar sem ritstjórn blaðsins vissi fyrirfram að gæti haft mikil og alvarleg áhrif á íslenskan fjármálamarkað.

Þetta er ekki eina dæmið á síðustu vikum þar sem Morgunblaðið fer fram með sérkennilegum hætti gagnvart íslenskum fjármálafyrirtækjum. Fyrir réttri viku hélt blaðið því fram að einn af stjórnendum Glitnis banka færi "frjálslega með staðreyndir" - blaðið gaf til kynna að viðkomandi væri í raun að segja ósatt.

"Ingvar Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis, sagði í samtali við Morgunblaðið í fyrradag að viðræður fjögurra teyma bankans í byrjun þessa árs, við fjárfesta í Bandaríkjunum, Asíu og Evrópu til að kanna jarðveginn fyrir alþjóðlegt skuldabréfaútboð hefðu verið á þann veg að „viðtökur hafi verið með ágætum en of snemmt sé að segja til um niðurstöðuna".

Eitthvað fer framkvæmdastjórinn frjálslega með staðreyndir í þessum efnum, því samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins voru viðtökur með þeim hætti, þegar þessar fyrstu viðræður á árinu fóru af stað, að forsvarsmenn Glitnis setti hljóða er þeir hugleiddu hvers konar kjör þeim stæðu til boða enda ákváðu þeir í gær að hætta við fyrirhugað skuldabréfaútboð."

Morgunblaðið sér ástæðu til þess að skrifa sérstakan leiðara um Exista og Enskilda bankann í dag. Með afar sérkennilegum hætti virðist leiðarahöfundur þeirrar skoðunar að staða Exista veki upp spurningar um hvort Kaupþing hafi bolmagn til að standa undir kaupum á hollenska bankanum NIBC. Exista er stærsti hluthafi Kaupþings og hefur skuldbundið sig til að taka þátt í hlutafjáraukningu bankans sem ætlað er að fjármagna kaupin.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir síðan:

"Það er skoðun margra sérfræðinga á þessu sviði, að Kaupþing hafi ætlað sér um of með þessum kaupum og að bezt væri fyrir bankann að komast frá þeim. En jafnframt er nokkuð ljóst að samningarnir um kaupin hafa verið með þeim hætti, að Kaupþing komizt því aðeins frá kaupunum, að Fjármálaeftirlitið telji að Kaupþing ráði ekki við þau.

Það yrði kusk á hvítflibba Kaupþings ef Fjármálaeftirlitið kæmist að þeirri niðurstöðu. En jafnframt mundi slík niðurstaða leysa vanda bankans."

Kannski hefur það farið fram hjá mér ef Morgunblaðið hefur birt fréttir um að "margir" telji að Kaupþing hafi ætlað sér um of með kaupunum á hollenska bankanum. Hverjir eru þetta og hversu margir eru þeir? Er Morgunblaðið ekki þess umkomið að taka sjálfstæða efnislega afstöðu til málsins, án þess að bera fyrir sig ónafngreinda "marga" aðila.

Niðurlag leiðarans er sérkennilegt. Morgunblaðið telur að það sé "aðeins" kusk á hvítflibbann ef Kaupþingi tekst ekki að standa við gerða samninga og myndi um leið leysa vanda bankans. Hér slær eitthvað út. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins getur ekki staðið í þeirri trú að eina afleiðingin af því að íslenskur banki geti ekki staðið við samninga, sé lítið kusk. Ekki er ég viss um að Björgólfur Guðmundsson stjórnarformaður Landsbankans taki undir þessi orð. Ætli bankastjórnar Seðlabankans taki undir með Morgunblaðinu? Varla. Greiningardeild Enskilda, sem er greinilega í miklu áliti á ritstjórn Morgunblaðsins, er örugglega  ekki sammála því að eina afleiðingin bara kusk sem menn dusta af við hentugleika.

Niðurstaða leiðarahöfundar Morgunblaðsins veldur mér áhyggjum. Ritstjórn Morgunblaðsins virðist ekki skilja hvað er í húfi. Og kannski þess vegna er gengið til verka við fréttaskrif með þeim hætti sem raun ber vitni.


Framsókn slátrar öllum krónprinsum

Ef þú ætlar í stjórnmál og ert framsóknarmaður, þá er hér heilræði: Láttu aldrei kalla þig krónprins flokksins og alls ekki gefa til kynna að þú gerir tilkall til slíks titils. Það er líklegra að þér verði slátrað en að þú komist til æðstu metorða innan Framsóknarflokksins.   fframsókn

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, ætlar að láta af starfi borgarfulltrúa í dag. Þetta kemur fram á heimasíðu borgarfulltrúans.

Framsóknarmenn hafa bundið miklar vonir við Björn Inga og hefur hann á stundum verið kallaður krónprins flokksins, ekki síst eftir að Árni Magnússon ákvað að draga sig í hlé til að hefja vinnu hjá Glitni banka.

Brotthvarf Björns Inga er gríðarlegt áfall fyrir framsóknarmenn um allt land þó auðvitað kætist einhverjir andstæðingar hans innan og utan Framsóknarflokksins. Varla mátti flokkurinn við slíku, en á nokkrum mánuðum hafa framsóknarmenn þurft að sætta sig hvert áfallið á fætur öðru: Niðurlægjandi úrslit í þingkosningum, brotthvarf Jóns Sigurðsson úr formannsstóli, útskúfun úr ríkisstjórn og til að kóróna allt þá hefur flokkurinn hrökklast í minnihluta í borginni.

Merkilegt er að velta því fyrir sér hvernig framsóknarmenn fara með unga stjórnmálamenn sem þeir binda einhverjar vonir við. Að minnsta kosti þrír "krónprinsar" flokksins hafa ákveðið að freista gæfunnar á öðrum vettvangi en í pólitíkinni.

Finnur Ingólfsson fór í Seðlabankann og þaðan í VÍS og stundar nú fjárfestingar. Hann var búinn að fá nóg af innri baráttu og deilum í Framsóknarflokknum. Brotthvarf Finns var persónulegt áfall fyrir Halldór Ásgrímsson, þáverandi formann. Nú hefur Finnur hins vegar efnast vel og sér sjálfsagt ekki eftir því að hafa yfirgefið vígvöll stjórnmálanna.

Árni Magnússon, fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins, gafst einnig upp en á hann var litið sem framtíðarleiðtoga flokksins. Álag á fjölskyldu og deilur innan flokksins réðu þessari ákvörðun.

Og nú hefur Björn Ingi tekið sömu ákvörðun og Finnur og Árni. Ekki veit ég hvað hann ætlar að taka sér fyrir hendur en ég óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Ástæða þess að Björn Ingi ætlar að víkja til hliðar, nú þegar ný meirihluti tekur við völdum, segir hann vera hatrammar deilur og árásir á sig persónulegar sem séu farnar að skaða fjölskyldu hans og Framsóknarflokkinn:

"Almenningur hefur orðið vitni að óvenjulega rætnum og persónulegum árásum gegn mér síðustu daga. Hreint og beint hatur í minn garð frá fyrrverandi þingmanni flokksins og gömlum samherja hefur vakið þjóðarathygli og halda skeytasendingar hans áfram...

Á slíkum tímamótum er rétt að staldra við. Vitaskuld eru fjármál stjórnmálaflokka ekki á könnu eða ábyrgð einstakra frambjóðenda, en þegar slíkur trúnaðarbrestur í félagsstarfi er kominn upp og er knúinn áfram af heift í minn garð, hlýtur að vera orðin áleitin spurning hvort persónuleg óvild tiltekinna einstaklinga gegn mér sé farin að bitna á fjölskyldu minni, almennt á Framsóknarflokknum og fólki innan hans í Reykjavík og um land allt."

En heilræðin standa.


mbl.is Björn Ingi hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær 29 milljarðar á dag

Markaðsverðmæti íslensku bankanna og fjárfestingarfélaga hefur lækkað um 435 milljarða króna frá lokum síðasta árs. Þetta þýðir að á hverjum viðskiptadegi, þar sem af er ári, hafi um 29 milljarðar króna að jafnaði verið étnir upp.

Svo virðist sem verðfall á íslenskum hlutabréfamarkaði sé nokkuð meira en á öðrum mörkuðum, en þegar þetta er skrifað hefur S&P 500 vísitalan í Bandaríkjunum lækkað um 33 stig og er þetta sjötti dagurinn í röð sem lækkun verður. Hlutabréfavísitölur hafa ekki fallið jafnmarga daga í röð frá apríl 2002.

Bankarnir

Hlutabréf Exista hafa orðið illa úti það sem af er ári og bréf í SPRON eru í frjálsu falli allt frá því að kaup voru skráð í október síðastliðnum. Hlutabréf í Glitni hafa hins vegar staðið sig "best" þar sem lækkunin er um 14%.

Allt bendir til þess að mjög sé að hægja á efnahagslífinu hér á landi eins og víða annars staðar. Í þeirri stöðu hlýtur ríkissjóður að huga að aðgerðum a.m.k. með lækkun opinberra gjalda. Því miður hefur lítið heyrst frá forsætis- og fjármálaráðherra á sama tíma og ólgan vex og óvissan verður meiri. Slíkt getur vart gengið til lengdar.

 

 


mbl.is Lækkun Úrvalsvísitölunnar 20,1% frá áramótum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjötti dagurinn í röð

Allt bendir til að dagurinn í dag verði sjötti dagurinn í röð þar sem S&P 500 hlutabréfavísitalan fellur. Óvænt vaxtalækkun bandaríska seðlabankans og 150 milljarða dollara efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast hafa lítil áhrif.S%P Hlutabréf snarféllu strax við opnun markaðar, en hafa síðan rétt nokkuð úr kútnum.

Hlutabréf í traustustu fyrirtækjunum virðast í frjálsu falli. Gengi Apple hefur t.d. lækkað verulega það sem af er degi enda eru stofnanafjárfestar að selja bréfin. Nú fyrir stundu var gengi bréfanna undir 137 dollurum á hlut sem er nær 33% fall frá því þau fóru hæst undir lok síðasta árs. Þrátt fyrir að afkoma Apple á síðasta ársfjórðungi hafi verið umfram væntingar, þá urðu fjárfestar fyrir vonbrigðum með áætlaða afkomu á komandi mánuðum. Hagnaður á hlut jókst um 54% og sala var 36%. En fjárfestar vilja meira og hafa áhuga á framtíðinni fremur en fortíðinni. Apple er ekki eina dæmi.

Einstaklingar sem huga að kaupum í hlutabréfum ættu að halda að sér höndum á næstu dögum á meðan óróinn gengur yfir. Hvort það tekur daga eða vikur veit hins vegar enginn.

Markaðurinn

 


Erfiður dagur

Nú þegar markaðir hafa opnað í Bandaríkjunum þá benda fyrstu mínútur til þess að dagurinn verði erfiður og að það reyni á taugarnar á fjárfestum. S&P 500 hefur fallið um 32 punkta, en á síðustu mínútum hefur vísitalan verið að hækka.

Sömu sögu er að segja af Nasdaq, sem féll strax í upphafi viðskipta en gerir tilraun til að ná sér á strik.

Það á eftir að koma í ljós hvort vaxtalækkun bandaríska seðlabankans muni virka eins og að er stefnt, en öllum að óvörum lækkaði bankinn vexti í dag. En þrátt fyrir vaxtalækkun og þrátt fyrir tilkynningu ríkisstjórnarinnar í Washington um 150 milljarða dollara efnahagsaðgerðir í formi skattalækkunar, eru markaðsaðilar ekki sannfærðir.

Allt þetta þýðir aðeins eitt: Enginn einstaklingur á að kaupa hlutabréf í dag eða a.m.k. næstu 3-5 daga. Svo einfalt.


Ágúst Ólafur getur andað léttar

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, er svekktur yfir nýjum meirihluta í borginni og segir að Ólafur F. Magnússon skuldi borgarbúum skýringar.

 

Á bloggsíðu sinni segir varaformaðurinn:

 

“Augljóst er að Ólafur F. var einungis að hugsa um sinn eigin rass þegar þessi ákvörðun var tekin og tók hana að auki án alls samráðs við sína samstarfsfélaga í borginni.”

Þá spyr ég:

Telur varaformaður Samfylkingarinnar að Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hafi aðeins verið að hugsa um eigin rass þegar hann sleit samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn? Eða skiptir það máli í huga varaformannsins hverjir hlut eiga að máli? Þurfa menn aðeins að skýra út samstarfsslit við Samfylkinguna?

En þó Ágúst Ólafur sé greinilega sár yfir þróun mála í borginni, þá getur hann dregið andann léttar - að minnsta kosti tímabundið. Helsti keppinautur hans (sem er krónprins Ingibjargar Sólrúnar) um embætti varaformanns Samfylkingarinnar, hefur verið vængstýfður.


Steingrímur J. líttu þér nær

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, hefur lengi verið í hópi þeirra stjórnmálamanna sem ég hef borið hvað mesta virðingu fyrir. Ekki vegna þess að ég sé sammála honum (því fer fjarri) heldur vegna þess að mér hefur fundist hann verða heiðarlegur í stjórnmálabaráttu sinni, samkvæmur sjálfum sér og talað hreint út. Ekki síst vegna þessa geri ég kannski meiri kröfur til Steingríms J. en margra annarra stjórnmálamanna.

Það er skiljanlegt að formaður vinstri grænna sé ekki kátur með þróun mála í borgarstjórn Reykjavíkur. Annað væri óeðlilegt þegar búið er að svipta flokkinn völdum - raunar miklu meiri völdum en margir gera sér grein fyrir - í höfuðborg landsins. Reiði Steingríms J. er einnig skiljanleg þegar haft er í huga að hann líkt og Svandís Svavarsdóttir, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá Morgunblaðinu, gerir sér grein fyrir þeirri einföldu staðreynd að fyrir liðlega 100 dögum gátu vinstri grænir myndað sögulegan meirihluta í borgarstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hvað slíkt samstarf hefði leitt af sér mun aldrei koma í ljós, en að líkindum gert samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn líklegra en ella.

"Mér var nokkuð brugðið og maður hugsar út í hverslags stjórnmál er eiginlega komið," hefur Morgunblaðið eftir Steingrími J. í dag. Morgunblaðið hefur það eftir formanni vinstri grænna að útspil sjálfstæðismanna sé ótrúlegt og að hans mati sé farið yfir ákveðna línu bæði í pólitísku og siðferðislegu tilliti sem ekki sé venjan að fara yfir í íslenskum stjórnmálum. Síðan segir Steingrímur J. Sigfússon orðrétt:

"T.d. það að kaupa ekki stuðning einstaklinga með æðstu embættum, menn yrðu a.m.k. að vera einhver hópur eða hafa einhvern flokk á bak við sig sem bæri þá ábyrgð á viðkomandi og væri pólitískt bakland."

Steingrímur J. Sigfússon fagnaði þegar meirihluti sjálfstæðismanna og Framsóknarflokksins féll í október síðastliðnum. Þá talaði hann ekki um menn væru keyptir, þó framsókn hafi fengið formennsku í sjö nefndum með einn borgarfulltrúa. Í huga hans voru það ekki pólitísk hrossakaup.

Í febrúar 1980 var mynduð ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen og Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins. Með Gunnari voru tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þá var Steingrímur J. Sigfússon virkur í flokksstarfi Alþýðubandalagsins og í hreyfingu vinstri manna í Háskóla Íslands. Ástæða þess að framsóknarmenn og allaballar tóku höndum saman við Gunnar voru fyrst og fremst sú einfalda staðreynd að þeir töldu að þar með væri hægt að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn til frambúðar. Þeim varð ekki að ósk sinni.

En hver var munurinn á því að mynda stjórn með Gunnari Thoroddsen, gegn "baklandinu" og að Sjálfstæðisflokkurinn tæki höndum saman við gamlan samherja?

Afhverju talar Steingrímur J. Sigfússon í reiðikasti með þessum hætti?

Getur verið að hann skynji að samherjar hans í borgarstjórn hafi spilað illa af góðri hendi sem gat tryggt þeim völd í höfuðborginni og hugsanlega síðar í landstjórninni?


Upprisa Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar

Nýr meirihluti í borgarstjórn er pólitísk upprisa Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Fyrir liðlega 100 dögum gáfu fjölmiðlungar út pólitískt dánarvottorð fyrir "gamla góða Villa" og margir skrifuðu undir. En Vilhjálmur vaknaði upp líkt og gamli maðurinn í Chile.

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna var lamaður eftir að hafa misst meirihlutann í Reykjavík fyrir klaufaskap og andvaraleysi. Eftir atburði gærdagsins hefur hann náð vopnum sínum aftur undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar.

Spurningum um hvort hinn nýi meirihluti haldi út kjörtímabilið getur enginn svarað fyrr en upp er staðið. Hitt er hins vegar ljóst að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er óskoraður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni og á meðan meirihlutinn stendur munu borgarfulltrúar flokksins standa þétt við bakið á leiðtoganum. Og það sem meira er, enginn mun geta gengið á hólm við Vilhjálm fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, ef honum tekst að sigla í gegnum það sem eftir lifir af kjörtímabilinu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband