Þriðjudagur, 22. janúar 2008
Flest bendir til verðhruns á Wall Street í dag
Flest bendir til að hlutabréf muni falla verulega í verði þegar hlutabréfamarkaðir verða opnaðir í Bandaríkjunum, en í gær var frídagur í minningu Martins Luthers King. Vísitala framvirka samninga gefur tilefni til að ætla að dagurinn gæti orðið sá versti frá hryðjuverkaárásunum 11. september 2001.
Miklar áhyggjur af efnahagssamdrætti í Bandaríkjunum hafa orðið til þess að fjárfestar halda að sér höndum og hafa skipulega fært fjármuni úr hlutabréfum í aðrar eignir sem taldar eru tryggari.
Gærdagurinn var svipaður og hryllingsmynd fyrir fjármálamarkaðinn í Evrópu og Asíu. MSCI heimsvísitalan féll um 3% og hefur ekki lækkað meira á einum degi frá 2002. Vísitölur hlutabréfa á helstu fjármálamörkuðum eru a.m.k. 20% lægri en hæsta gildi á liðnu ári.
Fall á verðmæti hlutabréfa á helstu mörkuðum heims getur haft keðjuverkandi áhrif á efnahagsþróun og ráðherrar Evrópusambandsins hafa lýst verulegum áhyggjum af því að verðfall hlutabréfa muni birtast í efnahagslegum samdrætti innan sambandsins.
Það sem af er deginum hefur verið mikill órói á mörkuðum í Evrópu, en margir stofnanafjárfestar voru þó í kauphug, vegna orðróms um samþætta aðgerð Englandsbanka og Seðlabanka Evrópu um verulega lækkun vaxta. En einnig bíða menn þess að markaðir opni í Bandaríkjunum (kl. 14.30 að íslenskum tíma). Síðasta vika var sú versta frá júlí 2002 í Bandaríkjunum og eins og áður segir benda framvirkir samningar ekki til mikillar bjartsýni.
Mánudagur, 21. janúar 2008
Margrét Sverrisdóttir á tvo kosti
Fall vinstri meirihlutans í Reykjavík er pólitískt áfall fyrir Björn Inga Hrafnsson og Framsóknarflokkinn, sem nú er dæmdur til áhrifaleysis í borgar- og landsmálum næstu árin. Að sama skapi er samstarf Ólafs F. Magnússonar og Sjálfstæðisflokksins, áfall fyrir Dag B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóra og krónprins Ingibjargar Sólrúnar. Sókn hans eftir varaformennsku í Samfylkingunni hefur stöðvast a.m.k. tímabundið. Vinstri grænir geta nagað sig í handarbökin fyrir að hafa ekki tekið saman við íhaldið þegar tækifæri gafst fyrir rúmu 100 dögum.
Nýr meirihluti í borgarstjórn gefur Margréti Sverrisdóttur hins vegar tvo möguleika. Hún getur tekið þá ákvörðun að standa ekki við hlið félaga síns, Ólafs F. Magnússonar, og þar með dæmt sjálfa sig til pólitísks áhrifaleysi eða hún getur tekið þátt í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn af fullum krafti og tryggt sér meiri áhrif í stjórnmálum en hún hefur nokkru sinni haft.
Af fyrstu viðbrögðum Margrétar að dæma ætlar hún að velja fyrri kostinn. Gamall refur í stjórnmálum og faðir Margrétar hefur greinilega ekki náð að gefa henni góð ráð. Sverrir Hermannsson hefði valið síðari kostinn.
Ólafur og Vilhjálmur stýra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 21. janúar 2008
Framsókn logar stafna á milli
Framsóknarflokkurinn hefur sjö kjörna þingmenn á Alþingi, en enginn þeirra kemur frá Reykjavíkurkjördæmunum. Kannski er það vegna þessa sem flestir þingmenn flokksins vilja leiða hjá sér bræðravíg milli framsóknarmanna í Reykjavík.
Ótrúlegt viðtal Egils Helgasonar í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag, við Guðjón Ólaf Jónsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins, þar sem hann fór hörðum orðum um Björn Inga Hrafnsson, eina borgarfulltrúa flokksins, virðist hafa kveikt ófriðarbál í höfuðborginni. Kaldur og yfirvegaður sagði þingmaðurinn fyrrverandi vera með hnífasett í bakinu frá Birni Inga og hann væri ekki sá eini. Nefndi að hægt væri að ræða við Jónínu Bjartmarz og Árna Magnússon, sem bæði eru fyrrum ráðherrar Framsóknarflokksins.
Merkilegt er að enginn fjölmiðill hefur leitað til þessara tveggja fyrrum ráðherra til að bera undir þá ummæli og ávirðingar Guðjóns Ólafs í garð borgarfulltrúans.
Ef marka má blogg- og heimasíður þingmanna sjö, virðast þeir annað hvort ekki hafa heyrt af persónulegum hjaðningavígum Björns Inga og Guðjóns Ólafs, eða þá að þeir kæra sig kollótta.
Birkir Jón Jónsson, 6. þingmaður Norðausturkjördæmis, fjallar á bloggi sínu um húsnæðismál.
Barni Harðarson, 8. þingmaður Suðurkjördæmis, fjallar um að vikan hafi verið betri hjá sér en krónunni. Bjarni hefur hins vegar rætt um málefni Framsóknarflokksins í hádegisviðtali á Stöð 2. Bjarni hefur raunar aldrei verið hræddur við erfiðar umræður.
Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður og 10. þingmaður Suðvesturkjördæmis, fagnar sex ára afmæli dagbókar á heimasíðu sinni.
Magnús Stefánsson, 3. þingmaður Norðvesturkjördæmis, gerir efnahagsmálin að umtalsefni á heimasíðu sinni.
Valgerður Sverrisdóttir, fjallar á heimasíðu sinni um Félag kvenna í atvinnurekstri og húmoristann Þorstein Pálsson.
Eftir því sem ég fæ best séð eru Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins og Höskuldur Þórhallsson, 10. þingmaður Norðausturkjördæmis, hvorki með heima- eða bloggsíðu. Guðni hefur hins vegar ekki komist hjá því að ræða við fjölmiðla um ástandið.
Á heimasíðu Framsóknarflokksins er ekkert fjallað um vígin í Reykjavík. Þar er birt ræða formannsins á Alþingi um efnahagmál í síðustu viku.
Merkilegt er að enginn fjölmiðill hefur reynt að spyrja Jónínu Bjartmarz um ásakanir Guðjóns Ólafs, en hann nefndi hana sérstaklega í Silfri Egils,
Mánudagur, 21. janúar 2008
Björn Ingi og Guðjón Ólafur: Fötin og eggvopnin
Félagi minn sendi mér þessa mynd í tilefni af hinu furðulegu átökum sem nú eru í Framsóknarflokknum. Þarf ekki fleiri orð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 21. janúar 2008
SPRON étur upp eigið fé fjárfesta
Fáar fjárfestingar hafa reynst verri en kaup á hlutabréfum í SPRON. Þegar sparisjóðurinn var skráður í kauphöllina 23. október síðastliðinn var upphafsgengi hlutabréfanna 18,90. Þegar þetta er skrifað er gengið aðeins 6,60 og hefur því lækkað um 65% frá skráningu.
Þeir sem keyptu hluti í SPRON á upphafgenginu hafa orðið fyrir verulegum skakkaföllum og enn verri ef þeir tóku lán til að standa undir hluta kaupanna. Allir þeir sem lögðu minna en 65% eigið fé í slík kaup skulda nú meira en nemur markaðsverði bréfanna.
Fjárfestir sem keypti hlutabréf í SPRON fyrir 10 milljónir króna og fékk til þess 50% lán (sem taldist ekki hátt veðhlutfall fyrir nokkrum vikum), skuldar nú liðlega 1,5 milljónir króna umfram markaðsvirði bréfanna. Með öðrum orðum: Allt eigið fé hefur verið étið upp og eftir stendur skuld umfram eignir.
Þetta einfalda dæmi lýsir ástandinu ágætlega. Vert er að taka fram að ekki keyptu margir hluti í SPRON á upphafgengi, enda féll verðmæti bréfa sparisjóðsins strax á fyrsta viðskiptadegi. Á móti kemur hins vegar að margir fjárfestar keyptu hluti fyrir skráningu og það á miklu hærra verði og var gengið um eða yfir 24 þegar það fór hæst.
Mánudagur, 21. janúar 2008
15-faldur verðmunur á Sigló og Seltjarnarnesi
Allt að 15-faldur verðmunur er á fermetraverði íbúðarhúsnæðis á Siglufirði og á Seltjarnarnesi.
DB fasteignir auglýsa í Morgunblaðinu í dag 2ja hæða steinhús við Eyrargötu á Siglufirði. Húsið er nær 202 fermetrar að stærð og sagt er að hægt sé að skipta húsinu í tvær íbúðir. Ásett verð er 6,9 milljónir króna eða liðlega 34 þúsund krónur að meðaltali á fermetra. Í lýsingu með húsinu segir meðal annars:
"Efri hæðinn skiptist í þrjú svefnherbergi, eldhús, baðherbergi og stóra stofu. Neðri hæðin skiptist í þrjú svefnherbergi, gang, geymslu og þvottahús. Á undanförnum árum hafa staðið yfir endubætur á húsinu að innan sem ekki er lokið og selst húsið í því ástandi sem það er í dag."
Á Seltjarnarnesi eru Íslenskir aðalverktakar að reisa fjölbýlishús við Hrólfsskálamel. Ekki er ég sérfræðingur í fasteignamarkaðinum, en mér sýnist að íbúðirnar séu með þeim dýrustu. Tæplega 94 fermetra 2ja herbergja íbúð (þar af 11,5 fm. bílageymsla) kostar 48 milljónir króna og er íbúðin fullbúin. Meðalverð á fermetra er því tæpar 513 þúsund krónur eða 15-falt það sem sett er á húsið við Eyrargötuna.
Auðvitað er langt í frá um sambærilegar eignir sé að ræða, - annars vegar er um nýbyggingu að ræða og hins vegar hús á Siglufirði, sem byggt var 1931. En þessar tölur sýna hins vegar hve gríðarlegur munur er á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu og dreifbýli.
Vert er að benda á að nokkrar eignir eru til sölu á Siglufirði og tæplega 400 fermetra einbýlishús, sem byggt var árið 1979, er sett á 32 milljónir eða 82 þúsund krónur á fermetra. En það er einnig hægt að kaupa litla íbúð í bænum fyrir 32 þúsund krónur á fermetra.
Mánudagur, 21. janúar 2008
Versta vikan á Wall Street frá júlí 2002
Þegar hlutabréfamarkaðurinn opnaði síðasta föstudagsmorgun í Bandaríkjunum tóku hlutabréf að hækka lítillega, eftir að hafa verið í "frjálsu falli" í vikunni. Fjárfestar önduðu léttar, en aðeins tímabundið. Eftir að George Bush hafði tilkynnt um 150 milljarða dollara efnahagsaðgerðir (1% af vergri landsframleiðslu), til að örva efnahagslífið, tóku stofnanafjárfestar að selja hlutabréf og gengi þeirra féll hratt. Markaðurinn jafnaði sig rétt undir lok dagsins, en ekki nægjanlega.
Niðurstaðan: Versta vika á bandarískum hlutabréfamarkaði frá júlí 2002 var að baki.
Hlutabréfavísitalan S&P 500 (Standard & Poor's) lækkaði í liðinni viku um 5,4%. Vísitalan hefur ekki lækkað meira á einni viku frá júlí 2002 þegar hún féll um 8%. Nasdaq vísitalan lækkaði um 4,1% og Dow Jones um 4%.
Það sem af er ári hafa fáar fréttir glatt fjárfesta . Mikill söluþrýstingur hefur verið á hlutabréfamarkaði enda margir stofnanafjárfestar að færa fjármuni úr hlutabréfum í skuldabréf eða aðrar eignir. Gengi hlutabréfa traustra fyrirtækja, sem hafa á undanförnum mánuðum hækkað mest, hafa orðið einna verst úti.
Í dag, mánudag, draga menn hins vegar andann og reyna vonandi að ná áttum, en almennur frídagur er í Bandaríkjunum, og þar með eru fjármálamarkaðir lokaðir, til minningar um Martin Luther King.
Föstudagur, 18. janúar 2008
Erfitt að horfa á landsliðið
Þegar illa gengur hefur alltaf verið erfitt að horfa á íslenska landsliðið í handbolta. Maður fer í vont skap og verður pirraður út í allt og alla.
Ég nam ekki eftir öðrum eins leik og gegn Svíum í gær. Vörnin var þokkaleg en sóknarleikurinn átti lítið skylt við það orð. Fyrstu 20 mínútur seinni hálfleiks eru að líkindum ömurlegustu mínútur í sögu landsliðsins í áratugi. Ekki var hægt að sjá að þar færu landsliðsmenn - andleysi var algjört.
Það er rétt hjá Ólafi Stefánssyni að leikurinn var skandall. Enginn ætlast til þess að "drengirnir okkar" hafi sigur í öllum leikjum, en allir ætlast til að þeir leggi sig fram og sýni þann karakter sem einkennir liðið á bestu stundum þess. Þann karakter verður landsliðið að kalla fram á völlinn í leikjunum gegn Frakklandi og Slóvakíu.
Skandall að lenda tíu mörkum undir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 16. janúar 2008
Heiftin og og gamall fræðimaður
Sigurður Líndal, prófessor í lögum, skrifar nöturlega grein í Fréttablaðið síðastliðinn þriðjudag. Þessi gamli grandvari fræðimaður er fullur vandlætingar vegna skipunar dómara í undirrétti og sparar ekki stóryrðin, sem einhverjir kalla fúkyrði.
Ég hef verið í hópi þeirra fjölmögru sem hafa litið á Sigurð Líndal sem einn af okkar merkustu fræðimönnum sviði lögfræði. Skrif hans í Fréttablaðið eiga ekkert skylt við fræðimennsku. Heiftin hefur borið fræðimanninn ofurliði af ástæðum sem flestum eru huldar. Sigurður Líndal er að þjóna öðrum hagsmunum en hagsmunum fræðimennskunnar, sem hann með réttu hefur verið svo stoltur af. En glæsileg fortíð gleymist auðveldlega í ólgusjó samtímans og sagan dæmir menn ekki síst af þeirra síðustu verkum.
Heiftin sem hefur mótað umræðuna um skipan Þorsteins Davíðssonar í embætti dómara við héraðsdóm Norðurlands eystra og Austurlands á sér vart líka á síðustu árum. Svo virðist sem hún hafi ekkert með hæfni Þorsteins til að sinna starfi dómara að gera, heldur aðeins þá einföldu staðreynd að hann er sonur föður síns.
Ég ætla ekki að gera að umtalsefni hversu fráleitt það er að matsnefnd skuli reyna að taka völd af ráðherra, með því að raða niður umsækjendum í sérstaka röð. Ég ætla heldur ekki að benda á þá staðreynd að Þorsteinn Davíðsson hefur áður sótt um starf dómara, en ekki fengið. En mér finnst rétt að benda á hversu ósamkvæmir gamlir fræðimenn, og minni spámenn eins og Ástráður Haraldsson, eru sjálfum sér.
Samkvæmt lögum ber hæstaréttardómurum að skila umsögn um þá sem óska eftir embætti dómara við Hæstarétt. Þetta var gert árið 2006 þegar Hjördís Björk Hákonardóttir var skipuð hæstaréttardómari.
Í umsögn Hæstaréttar um umsækjendurna, þau Hjördísi Björk Hákonardóttur dómstjóra, Pál Hreinsson prófessor og héraðsdómarana Sigríði Ingvarsdóttur og Þorgeir Inga Njálsson, sagði að öll væru þau hæf en Páll þeirra hæfastur.
Hjördís var skipuð án mikilla mótmæla. Allra síst af gömlum fræðimönnum, eftir því sem ég fæ best séð. Þorsteinn Davíðsson var einnig talinn hæfur af umsagnarnefnd Péturs Hafsteins, en ekki hæfastur. Pétur Hafstein, fyrrum dómari við Hæstarétt, hefur síðan farið mikinn eftir skipun Þorsteins, en þagði þunnu hljóði þegar vinkona hans var skipuð hæstaréttardómari þrátt fyrir að annar væri talinn hæfastur. (Páll var síðan skipaður dómari við Hæstarétt á liðnu ári).
Afhverju skyldi það nú vera að menn bregðast ólíkt við. Þó er embætti hæstaréttardómara án nokkurs vafa mikilvægara og áhrifameira en dómari við undirrétt. Ég get ekki komist að annarri niðurstöðu en aðrar ástæður en efnislegar liggi þar að baki.
Einar Kárason rithöfundur verður ekki sakaður um að vera í hópi stuðningsmanna Davíðs Oddssonar. Þvert á móti hefur hann skipað sér á bekk með þeim sem hvað harðast hafa deilt á fyrrum forsætisráðherra. En Einari er misboðið í umræðunni um skipan Þorsteins Davíðssonar. Í stuttri grein í Morgunblaðið skrifaði rithöfundurinn:
Síðasta aldarfjórðung hefur Davíð Oddsson verið valdamesti maður landsins og ráðskast með flest svið þjóðlífsins. Það er eðlilegt að orð slíks manns og gerðir sæti gagnrýni og raunar inngróið í það lýðræðiskerfi sem við aðhyllumst að um menn í hans stöðu geisi stormar.
En það vekur æ meiri efasemdir að Þorsteinn Davíðsson megi hvergi sjást eða heyrast án þess að því sé hnýtt við, til þess að gera hann tortryggilegan, að hann sé sonur föður síns. Mér finnst það í rauninni jafn lítilmannlegt og hallærislegt og þegar Hannes Hólmsteinn var ítrekað að reyna að gera þýðingarstörf Hjörleifs Sveinbjörnssonar tortryggileg vegna þess að hann væri eiginmaður Ingibjargar Sólrúnar.
Það er sjálfsagt að skamma ráðherra fyrir orð þeirra og gerðir og auðvitað á að gagnrýna embættisveitingar með málefnalegum hætti. En getum við ekki gert með okkur þjóðarsátt um að sýna dálitla tillitssemi fjölskyldum þeirra sem í eldlínunni standa?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Miðvikudagur, 16. janúar 2008
Borgaði alltaf á réttum tíma!!
Hann var fyrirmyndarleigjandi - greiddi húsaleiguna alltaf á réttum tíma og kvartaði aldrei. Sem sagt: Draumur leigusalans.
En það var ekki allt sem sýndist. Í átta ár leigði ónefndur maður íbúð í Ogden í Utha ríki í Bandaríkjunum. Þegar hann yfirgaf húsið kom hins vegar í ljós að íbúðin var full af bjórdósum - Coors Light. Talið er að um 70 þúsund dollur hafi fyllt íbúðina, en það þýðir að viðkomandi hafi drukkið 24 dollur á hverjum degi í þau átta ár, sem hann var skilvís leigjandi.
Félagi minn sendi mér þessar myndir og ég stóðst ekki mátið að skella þeim hér inn.