Ótrúlegt fyrirtæki - ótrúlegur maður

Steve Jobs, forstjóri Apple, er að líkindum einn merkasti stjórnandi samtímans. Viðskiptatímaritið Fortune telur að hann sé í hópi 25 valdamestu athafnamanna heims. Nýja tölvan sem Steve Jobs kynnti í gær, er aðeins eitt dæmi um ótrúlega hæfileika fyrirtækis til að koma með nýjungar á markaðinn.

Fátt kætir fjárfesta meira en nýjungar í vöru og þjónustu. Apple er því eitt af eftirlætisfyrirtækjum þeirra sem stunda hlutabréfaviðskipti. Og ekki hafa fjárfestar borðið skarðan hlut frá borði. Þrátt fyrir lækkun á gengi flestra fyrirtækja síðustu daga, þar á meðal Apple, hafa bréf fyrirtækisins hækkað um 79% síðustu 12 mánuði. Hæst hefur fór gengið í 202,96 dollara á hlut 27. desember sl. en í lok dags í gær var það 169,04 dollarar. Það sem af er ári hefur gengið hins vegar lækkað um 15%.

Nýjungar hafa verið lykillinn að velgengni Apple allt frá því að Steve Jobs snéri aftur til fyrirtækisins fyrir rúmum áratug. Búist er við að hagnaður á hlut verði 5,12 dollarar á þessu ári borið saman við 3,93 dollara á liðnu ári. Á síðustu þremur ársfjórðungum hefur hagnaður á hlut hækkað um 60-85%. Tekjur hafa hækkað um 20-30%. Arðsemi eigin fjár á síðustu árum hefur verið að meðaltali rétt undir 30%.

Þó óvarlegt sé að ráðleggja nokkrum að fjárfesta í hlutabréfum þessa dagana ættu íslenskir fjárfestar að fylgjast vel með Apple á komandi vikum. Þegar óróinn á fjármálamarkaði er að baki er líklegt að hlutabréf í Apple séu betri kostur til ávöxtunar en hlutabréf í flestum íslenskum fyrirtækjum.


mbl.is Apple kynnir örþunna fartölvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgólfur treystir tökin á Mogganum

Björgólfur Guðmundsson hefur aukið hlut sinn í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins og 24 Stunda. Ólafsfell, eignarhaldsfélag Björgólfs, hefur keypt 16,7% hlut Ólafs Jóhanns Ólafssonar, og er þar með stærsti hluthafinn í Árvakri með liðlega 33%.

Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag. MGM, eignarhaldsfélag í eigu Straums Burðaráss er með 16,7% hlutafjár í Árvakri, en ráðandi hluthafar í fjárfestingarbankanum eru Björgólfsfeðgar. Þetta þýðir að Björgólfur Guðmundsson fer með meirihluta hlutafjár í Morgunblaðinu. Ekki er ólíklegt að enn frekari breytingar verði á eignarhaldinu á komandi mánuðum.

Hafi einhver verið í vafa um hver ráði ferðinni í Árvakri þá ætti sá vafi að hverfa með þessum fréttum. Það verður því Björgólfur Guðmundsson, sem mun ákveða hver (eða hverjir) verður eftirmaður Styrmis Gunnarssonar ritstjóra Morgunblaðsins, en hann lætur af störfum í lok þessa árs.


Hvað er svona galið?

Ég hef ekki alltaf verið sammála Árna Páli Árnasyni, þingmanni Samfylkingar, raunar oftar ósammála en sammála. En ég hef þó talið Árna Pál vera í hópi skynsamlegustu þingmanna. Hugsanlega hef ég haft rangt fyrir mér.

Ummæli Árna Páls um skattkerfið og breytingar á því í Silfri Egils í gær benda ekki til þess að hann hafi mikinn skilning á eðli skatta eða efnahagsmálum yfirleitt. Svo virðist að hann hallist fremur að því að auka millifærslukerfið og flækja kerfið þannig að meðalmaðurinn skilji hvorki upp né niður í kerfinu og nái aldrei að átta sig á rétti sínum. Árni Páll virðist ekki skilja að einfalt skattkerfi er besta vörn almenns launamanns gegn aukinni skattheimtu. Flókið kerfi millifærslu, stighækkandi skatta og hærri jaðarskatta, er ekki kerfi launamannsins sem gengur sjálfur frá sinni skattskýrslu, heldur kerfi sérfræðinga og þeirra sem hafa efni á því að kaupa þjónustu endurskoðenda.

Andriki gerir ummæli Árna Páls í Silfri Egils að umræðuefni í dag. Þar segir orðrétt:

"Það er ekki von á góðu frá hinni framfarasinnuðu frjálslyndu umbótastjórn kenndri við Þingvelli þegar einn af þingmönnum stjórnarinnar kallar tillögur í leiðara Viðskiptablaðsins um 2% lækkun á tekjuskatti einstaklinga „gersamlega galnar“. Þetta gerði Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu í gær og enginn í settinu sá ástæðu til að andmæla honum. Það er kannski ekki við öðru að búast þegar ríkisstarfsmenn sitja og ræða við aðra ríkisstarfsmenn í Ríkissjónvarpinu...

Annars var það lykilatriði í málflutningi Árna Páls um skattamálin að ekki mætti koma með svona skattalækkun „við þessar efnahagslegu aðstæður“. Já hljómar kunnuglega, ekki satt? Þetta er það sem samfylkingarmenn segja við hvaða efnahagslegu aðstæður sem er. Það er sama hvenær minnst er á skattalækkanir alltaf skulu kratarnir (og að því er virðist flestir sjálfstæðismenn, innsk. óbk)koma með eitthvað af þessu:

1. Skattalækkunin er aðeins fyrir þá efnameiri.

2. Skattalækkunin er gerð á röngum tíma.

3. Skattalækkunin er gerð með röngum hætti.

4.  Skattalækkunin veldur þenslu af því óábyrgir einstaklingar ráðstafa fjármunum í stað góðgjarnra stjórnmálamanna.

5. Skattalækkunin veldur verðbólgu og viðskiptahalla.

6. Skattalækkunin vegur að rótum velferðarkerfisins því tekjur ríkisins skerðast.

7. Skattalækkun er skattahækkun því tekjur ríkisins hafa aukist við fyrri skattalækkanir."


Skattkerfi fyrir hina betur settu

Flest bendir til að kjarasamningar verði erfiðir. Verkalýðshreyfingin hefur með réttu beint athyglinni að skattkerfinu, en tillögur hennar eru byggðar á misskilningi og ganga í raun gegn hagsmunum meirihluta íslenskra launamanna. Það breytir ekki hinu að það er skynsamlegt af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að krefjast úrbóta á skattkerfinu.

Viðskiptablaðið gaf út veglegt tímarit - Áramót - milli jóla og nýárs. Þar skrifaði ég stutta grein um skattkerfið, þar sem því var haldið fram að kerfið þjóni fyrst og fremst þeim sem betur eru settir. Undir lok liðins árs rifjaði ég einnig upp hér á blogginu gamalt loforð Sjálfstæðisflokksins, að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum.

Í tilefni af kjarasamningum leyfi ég mér að birta hér greinina úr Viðskiptablaðinu:

Skattkerfið er sú umgjörð sem stjórnmálamenn sníða viðskipta- og efnahagslífi þjóðarinnar. Þeir geta sniðið hana þannig að þjóðfélagið eflist, verði þróttmeira og einstaklingar og fyrirtæki dafni en stjórnmálamennirnir geta einnig gert umgjörðina svo þrönga að smá saman er efnahagslífið kæft og frumkvæði einstaklinganna drepið. Skattkerfið er því eitt mikilvægasta stjórntæki sem stjórnmálamenn hafa tekið sér og því miður kennir sagan okkur að þeir hafa oft farið illa með tækið enda er það vandmeðfarið.

Hagfræðingar eru gjarnir á að deila við hvern annan og virðast sammála um fátt annað en gildi sinnar fræðigreinar. En flestir þeirra (a.m.k. þeir sem teljast sæmilega frjálslyndir) eru sammála um að eitt lögmál sé í gildi:

Því meira sem eitthvað er skattlagt því minna færðu af því. Að sama skapi: Því meira sem velgengni er skattlögð því minni verður velgengnin.

Því ætti einstaklingur að vinna meira ef mesti hluti afrakstursins fer til ríkisins? Því ætti einstaklingur að taka áhættu í fjárfestingum ef stór hluti hugsanlegs hagnaðar rennur í opinberan sjóð? Því að láta sig dreyma stóra drauma þegar litlir draumar kosta minna?

Einföld sannindi

John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, gerði sér grein fyrir þeirri hættu sem fylgir skattheimtuvaldi stjórnmálamanna. Á fundi Félags hagfræðinga í New York í desember 1962 sagði hann meðal annars:

"Efnahagskerfi sem er þrúgað af háum sköttum mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilega hagvöxt eða nægilega mörg störf."

Þessi einföldu sannindi ættu flestum Íslendingum að vera ljós. Krónískur halli á ríkissjóði og uppdráttarsýki efnahagslífsins einkenndi íslenskt þjóðarbú allt fram á síðasta áratug liðinnar aldar. Með einkavæðingu, auknu frjálsræði á fjármálamarkaði með frjálsum fjármagnsflutningum og síðast en ekki síst með markvissum skrefum í lækkun skatta, var efnahagslífinu gefin vítamínssprauta.

Íslendingar hafa lært að með því að skattleggja minna er hægt að fá meira. Með því að hætta að refsa fyrir velgengni með íþyngjandi sköttum hefur velmegun og hagsæld aukist.

Skattkerfið ræður því miklu um efnahagslega afkomu þjóðarinnar um leið og það markar umsvif ríkiskerfisins á hverjum tíma.

Á undanförnum árum hafa verið stigin nokkur mikilvæg skref í breytingum á skattkerfinu, þó enn eigi eftir að sníða verstu agnúana af tekjuskattskerfi einstaklinga.

Tekjuskattur fyrirtækja hefur verið lækkaður og tekjur ríkissjóðs hafa margfaldast, en í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þarf að halda áfram á sömu braut. Fjármagnstekjuskattur er einfaldur í framkvæmd og hefur stutt við gríðarlega grósku í íslensku fjármálalífi og atvinnulífi almennt. Meira að segja vinstri-grænir eru farnir að átta sig á því að ekki er skynsamlegt að ganga hart fram í skattlagningu fjármagnstekna.

Eykur launamuninn

En eftir stendur tekjuskattur einstaklinga þó nokkuð hafi miðað með lægri skattprósentu. Vandinn við gildandi tekjuskattskerfi er fyrst og fremst tvíþættur: Annars vegar draga háir jaðarskattar úr umsvifum og hvetja til svartrar atvinnustarfsemi og hins vegar hamla þeir því að hægt sé hækka laun þeirra sem lægst hafa launin. Skattkerfið er fyrir þá betur settu en refsar þeim sem lægri laun hafa.

Eðlilega sér einstaklingur lítinn tilgang í því að afla sér aukinna tekna ef hann heldur litlum hluta þeirra eftir vegna skerðinga í formi tekjutenginga. Háir jaðarskattar eru meira íþyngjandi fyrir þá sem hafa lægstu launin, eru með litla menntun og/eða eru á vinnumarkaði þar sem lítil eða engin samkeppni ríkir um vinnuaflið.

Háir jaðarskattar þrýsta á að laun þeirra hærri launuðu séu hækkuð á meðan aðrir sitja eftir. Ástæða þessa er ekki flókin. Launþegar hafa fyrst og fremst áhuga á ráðstöfunartekjum þ.e. hversu mikið er eftir í "launaumslaginu" þegar skattar hafa verið greiddir. Þeir launþegar sem eru hreyfanlegir - eiga möguleika á vinnu á tveimur eða fleiri stöðum - eru yfirleitt betur borgaðir en hinir. Þetta þýðir að atvinnurekandinn verður að bæta viðkomandi upp skertar rauntekjur vegna hárra jaðarskatta. Launþeginn mun annað hvort leita sér að vinni þar sem honum er bættur skaðinn eða hreinlega þiggja lægra launað starf þar álagið er minna, ábyrgðin minni og vinnutíminn styttri. Háir jaðarskattar eru því fremur til þess fallnir að auka launamun í þjóðfélaginu en draga úr honum. Hið sama á við um stighækkandi skattprósentu.

Mikilvægasta verkefni fjármálaráðherra

Mikilvægasta verkefni fjármálaráðherra á yfirstandandi kjörtímabili er að stokka upp tekjuskattskerfi einstaklinga með það að markmiði að einfalda það, draga úr eða fella niður tekjutengingar og taka upp eina einfalda skattprósentu.

Fyrir liðlega 12 árum lagði Viðskiptablaðið til að tekinn yrði upp ein skattprósenta fyrir einstaklinga. Tillagan var einföld: Eitt 5% skattþrep á allar tekjur óháð uppruna. Samhliða var m.a. lagt til að niðurgreiðslur í landbúnaði yrði lagðar niður sem og vaxtabætur. Hér verða rök Viðskiptablaðsins ekki rakin frekar, en mörgum þótti blaðið ganga full langt í hugmyndum sínum.

En fjármálaráðherra getur gengið í smiðju fleiri en Viðskiptablaðsins til að undirbúa uppskurðinn og koma á fót einföldum flötum tekjuskatti. Árið 1998 lögðu gamlir félagar hans, Pétur Blöndal og Vilhjálmur Egilsson, fram frumvarp um breytingar á lögum um tekjuskatt. Hugmynd þeirra var einföld. Tekjuskattur og útsvar átti að lækka í undir 20% á sjö árum. Samhliða átti að fella niður persónuafslátt, sjómannaafslátt, vaxtabætur og hátekjuskattinn svokallaða. Barnabætur átti að fella undir sérlög og teknar upp sérstakar húsnæðisbætur í stað húsaleigu- og vaxtabóta. Markmiðið var að gera skattkerfið einfaldara, en um leið skilja að skatta og félagslega aðstoð. Tillögur tvímenningana féllu í grýttan jarðveg en efnislega voru þær í takt við hugmyndir Viðskiptablaðsins.

Fjármálaráðherra gerði vel í því að taka hús á Pétri og Vilhjálmi, rifja upp hugmyndir þeirra og hrinda þeim í framkvæmd. Fátt yrði meiri kjarabót fyrir íslenska launamenn.


Vetraríþróttir verða æ erfiðari

Ég fór í fyrsta skipti í vetur á skíði í gær. Mætti fullur vonar og tilhlökkunar í Bláfjöll snemma um morgunin. En það var greinilega meira af vilja en getu að skíðasvæði Reykvíkinga hefur verið opnað. Magurt er varla rétt orð fyrir skíðafærið.

Því miður er það orðið þannig að það verður æ erfiðara að stunda vetraríþróttir hér á landi. En maður heldur alltaf í vonina og í upphafi vetrar var ég sannfærður um að nú kæmi snjórinn. Ég bíð enn.

Á meðan beðið er eftir afvöru snjó er hægt að stytta sér stundir við að horfa á myndbönd af þeim  sem komast í snjó. Og kannski er það á stundum sárabót að hafa gaman að þeim sem ekki eru þeir snjöllustu í snjónum.

 


Afhverju fáum við ekki öll boðsmiða?

Umræðan um hvort eðlilegt og sanngjarnt hafi verið að Borgarleikhúsið tæki leiklistargagnrýnanda DV út af boðslista á frumsýningar er á villigötum. Raunar svo miklum villigötum að ritstjóri DV og leikhússtjóri gátu ekki skipst á skoðunum í Kastljósi nú í vikunni þannig að hægt væri að halda þræði. Það eina sem stóð uppúr þeim umræðum, var spurning 9 ára dóttur minnar: Pabbi afhverju er kallinn með kúrekahatt?

Auðvitað er það sérkennilegt að leikhús bjóði gagnrýnendum á leiksýningar. Fyrir því hefur hins vegar skapast hefð, sem ég hef ekki fram að þessu haft áhyggjur af. En þetta er eins og svo margt annað í heimi fjölmiðla, sem telja almenningi trú um að allt sé svart og hvítt, en starfa síðan sjálfir á mis-gráum svæðum.

En í tilefni þess að búið er taka einn frumsýningargest út af boðslista Borgarleikhússins, er vert að varpa eftirfarandi spurningum til leikhússtjóra Borgarleikhússins og Þjóðleikhússins, sem eru rekin með stuðningi okkar allra í gegnum skatta:

  1. Hverjum er boðið á frumsýningar?
  2. Hversu margir frumsýningargesta greiða sinn miða sjálfir?
  3. Hvert er hlutfall greiðandi frumsýningargesta og boðsgesta?
  4. Hvað kostar aðgöngumiði á frumsýningu?
  5. Eru boðsgestir á aðrar sýningar en frumsýningar?
  6. Hversu margir boðsgestir voru í leikhúsinu á árinu 2007?
  7. Hver (hverjir) og hvernig er tekin ákvörðun um hverjum skuli boðið sér að kostnaðarlausu í leikhús?
  8. Er sama fólkinu boðið á allar frumsýningar eða breytist boðslistinn eftir því hvaða verk er á fjölunum?
  9. Hvaða rök liggja að baki því að nauðsynlegt er talið að ákveðnum hópi sé boðið í leikhús án greiðslu?
  10. Getur það haft neikvæð áhrif á leikhúsið að afnema boðslista?

Ég velti því fyrir mér hvort hægt væri að lækka miðaverð á leiksýningar ef hætt yrði að bjóða hinum og þessum (en aldrei mér eða þér) á frumsýningar. Kannski hef ég rangt fyrir mér þegar ég held því fram að aðeins þeim sé boðið í leikhús sem hafa efni á því að borga fyrir sína miða sjálfir. Hinum, sem þurfa annað hvort að neita sér um leikhúsferð, eða telja slíkt ferðalag til munaðar einu sinni á ári (eða sjaldnar), er aldrei boðið.


Fjárfestar að missa stjórn á sér

cramer2Fjárfestar hafa verið á taugum undanfarnar vikur og raunar mánuði. Skiptir litlu hvort um er að ræða hér heima eða annars staðar. Bankamenn eru einnig sveittir og taugarnar eru þandar. Þá líta menn oft til hins opinber og gagnrýna harðlega, með réttu eða röngu, stjórnun peningamála og ríkisfjármála.

Jim Cramer er þekktur fjárfestir í Bandaríkjunum og reglulegur álitsgjafi í fjölmiðlum. Cramer stofnaði ásamt öðrum The Street.com, viðamikil upplýsinga- og fréttavef fyrir fjárfesta og atvinnulífið. Hann er talinn með áhrifamestu mönnum í fjölmiðlum um fjármálamarkaðinn. Cramer er höfundur metsölubóka um fjármálamarkaðinn. Cramer er annar meðal stjórnenda þáttarins Mad Money á CNBC.

Þegar ljóst var, á liðnu ári að markaðurinn væri að stefna í djúpa niðursveiflu, missti Jim Cramer  nær stjórn á sér í þættinum og jós úr skálum reiði sinnar yfir bandaríska seðlabankann. Slóðin á myndbandið er hér, en því miður tókst mér ekki að setja það beint inn. (Kannski að einhver góðhjartaður kenni mér það).

Líklega eru margir hér á landi sem hafa samúð með Cramer.


Jón Ásgeir treystir tökin

Með brotthvarfi fjárfestingarfélagsins Gnúps úr hluthafahópi FL Group hefur Jón Ásgeir Jóhannesson þétt tökin enn frekar á félaginu. Pálmi Haraldsson, einn nánasti viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs, keypti stóran hluta bréfa Gnúps og er orðinn þriðji stærsti hluthafinn. Líklegt verður að teljast að ekki verði langt þangað til Oddaflug Hannesar Smárasonar, sem nú er annar stærsti hluthafinn, hverfi á braut eða minnki verulega við sig.

Eignarhald á FL Group er lykill að öflugum fyrirtækjum. FL er stærsti hluthafinn í Glitni banka með tæp 31% hlutafjár, en auk þess er Jötunn Holding, sem meðal annars er í eigu Baugs, með tæp 5%. Tryggingamiðstöðin er í eigu FL Group, að ógleymdum fasteignafélögum.

Samkvæmt hluthafalista er BG Capital - fjárfestingarfélag Baugs - langstærsti hluthafinn í FL með um 36,5%. Ef tekið er tillit til þeirra breytinga sem nú hafa átt sér stað og hverjir teljast nánir viðskiptafélagar Jóns Ásgeirs er ljóst að um 56% heildarhlutafjár í FL Group er í þeirra eigu. Þá eru taldir aðilar sem eru fjárhagslega tengdir Jóni Ásgeiri, en einnig Pálmi Haraldsson og Materia Invest ehf. sem er í eigu Kevins Stanford, Þorsteins M. Jónssonar og Magnúsar Ármanns.

Þess ber að geta að 20 stærstu hluthafar FL fara með liðlega 90% hlutafjár.

 

fl group


Pálmi í Fons stórtækur

Flestir sem fylgjast með íslensku viðskiptalífi hafa gert sér grein fyrir að fjárhagslegur styrkleiki Pálma Haraldssonar, sem yfirleitt er kenndur við Fons, sé mikill. Kaup fjárfestingarfélags hans á stórum hluta á bréfum í FL Group, sem áður voru í eigu Gnúps, vekur upp þær spurningar hvort menn hafi vanmetið styrk Pálma.

Alls keypti  Fons  um 6% hlut í gær en í tilkynningu til Kauphallar kemur ekki fram á hvaða gengi. Hins vegar er greint frá því að Gnúpur hafi selt bréf á genginu 12,10. Þetta þýðir að kaupverð bréfanna sem eignarhaldsfélag Pálma keypti er liðlega 10 milljarðar króna. Ef það reynist rétt að gengið hafi verið 12,10 er ljóst að fyrsti dagurinn var ekki góður því gengi FL í lok dags var 11,32 sem þýðir liðlega 640 milljón króna tap á fjárfestingunni. En auðvitað er Pálmi ekki að tjalda til einnar nætur í þessum efnum.

Pálmi tók tók stöðu í FL í byrjun desember og keypti þá hlutabréf fyrir 10,2 milljarða króna á genginu 16,10 samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Miðað við lokagengi í gær var verðmæti þess hlutar um 7,2 milljarðar. Gengistapið er því um 3 milljarðar króna. Þrátt fyrir það hefur Pálmi trú á félaginu og bætir við sig og hefur fjárhagslega burði til þess. Á þessum síðustu og verstu tímum eru ekki margir í stakk búnir til slíkra stórræða.

Pálmi Haraldsson er einn nánasti viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og eiga þeir náið samstarf í mörgum félögum, bæði innlendum og erlendum. Þegar tilkynnt var um "björgunaraðgerðir" með aukningu hlutafjár í FL Group í byrjun desember síðastliðins, kom fram að Baugur myndi leggja til 53,8 milljarða í formi eignarhluta í fasteignafélögum og var miðað við gengið 14,7. Miðað við lokagengi í gær hefur verðmæti eigna Baugs í FL lækkað um tæpa 12,4 milljarða króna á liðlega einum mánuði.


Tækifæri fyrir fjárfesta?

Lítil auglýsing í Markaði Fréttablaðsins vakti nokkra athygli. Þar er verið að leita eftir fjárfestum en auglýsingin er á bls. 14, undir leiðara blaðsins.

fjarfestar 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband