Ístöðuleysi í fjármálum hins opinbera

Tekjuafgangur hins opinbera minnkaði á fyrstu níu mánuðum ársins, miðað við sama tíma fyrir ári. Alls nam afgangurinn 41,9 milljarði króna á móti 50,2 milljörðum. Minni tekjuafgangur er ekki vegna lægri tekna - sem hækkuðu um 34 milljarða króna - heldur vegna stóraukinna útgjalda.

Útgjöld hins opinbera sem námu alls 404 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum jukust um 42 milljarða eða um 11-12%. Að meðaltali jukust útgjöld hins opinbera því um nær 4,7 milljarða króna á mánuði. Þessar tölur sýna svart á hvítu hversu lítið aðhald er í opinberum fjármálum - fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Opinber fjármálastjórn einkennist öðru fremur af ístöðuleysi.

Viðskiptablaðið benti á það í leiðara í liðinni viku að ríkisútgjöld hafi aukist um 90% frá árinu 2000. Blaðið bendir réttilega á að skýringin á góðri afkomu ríkissjóðs sé ekki aðhald í ríkisfjármálum heldur miklar tekjur. Miklar tekjur ríkissjóðs, sem eru í beinu samhengi við efnahagslegan uppgang, hafa gert það að verkum að lausung gætir í útgjöldum ríkisins. Sú lausung þrýstir síðan enn frekar á Seðlabankann að halda stýrivöxtum óeðlilega háum.

Samkvæmt fjárlögum komandi árs munu útgjöld ríkisins aukast um nær 45 milljarða króna eða 3,7 milljarða á mánuði. Þetta þýðir að hvert einasta mannsbarn á landinu þarf að bera nær 144 þúsund krónum meira í opinber gjöld en ella.

 

Skipting útgjalda eftir málaflokkum 
Rekstrargrunnur, m.kr.Heimildir Fjárlög 
20072008Breyting
Almenn opinber þjónusta23.80823.85749
Löggæsla og öryggismál17.41719.6352.218
Fræðslumál38.19141.6083.417
Heilbrigðismál97.569102.9765.407
Almannatryggingar og velferðarmál86.40596.3399.934
Húsnæðis-, skipulags- og hreinsunarmál4.9675.03063
Menningar- og kirkjumál14.72515.8091.084
Eldsneytis- og orkumál2.4312.49261
Landbúnaðar- og sjávarútvegsmál16.74616.231-515
Iðnaðarmál1.6321.811179
Samgöngumál25.80942.58316.774
Önnur útgjöld vegna atvinnuvega5.6717.6421.971
Önnur útgjöld ríkissjóðs54.00358.2194.216
Samtals389.374434.23244.858
2007 miðast við fjárlög ársins og fjáraukalög. Heimild: Fjármálaráðuneytið.

Margt af því sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera á komandi ári er góðra gjalda vert og vissulega var kominn tími til þess að ráðist yrði í að bæta hag aldraðra. Um það verður ekki deilt og það veldur mér ekki áhyggjum að átak skuli gert til hagsbóta fyrir þá sem verst eru settir. Áhyggjur mínar beinast fyrst og fremst að ístöðuleysinu sem almennt gætir í opinberum fjármálum - ístöðuleysi sem ráðamenn hafa komist upp með í skjóli almennrar hagsældar og stóraukinna tekna.

Margt bendir til þess að það muni hægja verulega á efnahagslífinu á komandi misserum. Opinberir sjóðir - ríkis- og sveitarsjóðir - munu finna fyrir því. Ekkert bendir til þess að þar hafi menn pólitískt þrek til að mæta væntanlegum tekjusamdrætti.

Mér er til efst að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi nokkurn áhuga á að grípa til aðhaldsaðgerða, fremur verður vísað til traustrar stöðu ríkissjóðs og stofnað til skulda til að standa undir síhækkandi útgjöldum, samfara lækkandi eða óbreyttum tekjum. Meirihluti vinstri manna í Reykjavíkurborg mun fylgja sömu fjármálastefnu og R-listinn lagði svo ríka rækt við - skuldasöfnun og hækkandi skattheimta.

Það eru því blikur á lofti í opinberum fjármálum þegar nýtt ár gengur í garð. Og það mun aftur hafa áhrif á afkomu heimilanna og rekstur og efnahag fyrirtækjanna.


Gleðileg jól

Svona í tilefni jólanna:

Fjögur (þroska)þrep í lífi okkar karlmanna:

Þrep 1: Við trúum á jólasveininn.

Þrep 2: Við afneitum jólasveininum.

Þrep 3: Við leikum jólasveininn.

Lokaþrep: Við lítum út eins og jólasveininn. 

Ég óska öllum lesendum gleðilegra jóla. Megi friður jólanna vera með ykkur öllum.


Jólakveðja borgarstjóra

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri virðist ekki skilja muninn á hækkun og lækkun skatta. Í viðtali við Morgunblaðið síðastliðinn fimmtudag hefur borgarstjórinn ekki miklar áhyggjur af hækkun fasteignagjalda á borgarbúa - hækkun sem nemur 1,2 milljörðum króna á komandi ári.

Meirihluti borgarstjórar ákvað að halda skatthlutfalli fasteignaskatt óbreyttu á komandi ári, þrátt fyrir að ljóst væri að fasteignamat, sem er grunnur skattheimtunnar, myndi hækka milli ára. Óbreytt skatthlutfall þýðir því hækkun skatta á borgarbúa og fyrirtæki. Svo segir borgarstjóri að skattalækkanir séu ekki á dagskrá, frekar komi til greina að létta álögum af einstökum hópum fólks. Hér er verið að hafa endaskipti á hlutunum eða gera góðlátlegt grín að borgarbúum. Lækkun skatthlutfalls til móts við hærra fasteignamat, er ekki lækkun fasteignaskatts heldur óbreytt skattheimta. Síðan segir borgarstjóri að settar verði "til hliðar 270 milljónir í sérstakar aðgerðir í húsnæðismálum".

Varla getur Björn Ingi Hrafnsson, leiðtogi framsóknarmanna, tekið undir hundalógík borgarstjóri? Eða hvað?

Hækkun fasteignagjalda upp á 1,2 milljarða króna mun koma verst niður á eldra fólki sem hefur takmarkaðan lífeyri, barnafjölskyldum sem barist hafa við að koma sér þaki yfir höfuðið og þeim sem þúsundum sem leiga íbúðahúsnæði, enda verður skattheimtunni velt út í leiguverðið á nýju ári. Þó hefur ekkert gerst hjá þessu fólki annað en að mat á eignum þeirra hefur verið hækkað. Tekjur þess eru óbreyttar og ráðstöfunartekjur skerðast því samkvæmt ákvörðun vinstri meirihluta borgarstjórnar, sem vill þó láta kenna sig við réttlæti og jöfnuð. Efnamenn munu hins vegar ekki svitna yfir hækkun skatta sem mun ekki hafa áhrif á það hvort þeir endurnýi Ranger Rover jeppann á nýju ári.

Borgarstjóri sendir því mismunandi jólakveðjur til borgarbúa.

Ég benti á þessa einföldu staðreynd hér 20. nóvember síðastliðinn í tilefni af því að meirihluti borgarstjóra felldi tillögu um lækkun skatthlutfalls fasteigna. 


Fjölmiðlamenn fyrir dómstólum

Magnúsi Ragnarssyni, fyrrum sjónvarpsstjóra Skjás eins, hafa verið dæmdar 1,5 milljónir króna í miskabætur vegna ummæla sem birtust á síðasta ári í DV og í Fréttablaðinu þessu ári. Auk þess var útgefandi blaðanna dæmdur til að standa straum af málskostnaði og birtingu dómsins í dagblöðum alls liðlega ein milljón króna.

Ég ætla ekki að ræða um niðurstöðu dómsins, sem getur varla komið á óvart enda skrif blaðanna óvenju rætin og ekki til annars en að meiða þann einstakling sem hlut átti að máli. Án þess að hafa gert nokkra vísindalega könnun á því, þá sýnist mér sem dómum gegn útgefendum, ritstjórum og blaðamönnum vegna meiðyrða hafi fjölgað á síðustu misserum. Kannski vegna þess að dómstólar hafa ekki jafnmikið langlundargeð gagnvart skrifum blaðamanna eða þá, sem er líklegra, að skrif nokkurra prentmiðla eru harðari og óvægnari en áður, þar sem jafnvel einkalíf manna er ekki lengur heilagt.

Eftir stutta leit á fann ég eftirfarandi fréttir hér á mbl.is sem allar eru frá þessu ári:

Innlent | fim. 20.12.2007

Fær 1,5 milljónir í bætur fyrir meiðyrði

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 365 miðla til að greiða Magnúsi Ragnarssyni, fyrrum sjónvarpsstjóra Skjás Eins, 1,5 milljónir króna í miskabætur fyrir ummæli sem birtust í DV í september á síðasta ári og Fréttablaðinu í janúar og febrúar á þessu ári. Ummælin voru einnig dæmd dauð og ómerk.

Innlent | mið. 31.10.2007

Dæmdur til að greiða hálfa milljón í bætur fyrir meiðyrði

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Eirík Jónsson, blaðamann á tímaritinu Séð og heyrt, til að greiða Þóru Guðmundsdóttur hálfa milljón króna í miskabætur fyrir ærumeiðandi ummæli um hana í blaðagrein. Hann var einnig dæmdur til að greiða hálfa milljón í málskostnað. Mikael Torfason, fyrrum ritstjóri blaðsins, og viðmælandi blaðsins voru sýknaðir.

Innlent | þri. 5.6.2007

Fyrrum ritstjórar DV dæmdir til að greiða bætur fyrir meiðyrði

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo fyrrverandi ritstjóra DV til að greiða karlmanni 500 þúsund krónur í miskabætur fyrir ummæli, sem höfð voru um hann í frétt í blaðinu á síðasta ári þar sem hann var bendlaður við umfangsmikla afbrotastarfsemi. Þá eru ummælin einnig dæmd dauð og ómerk.

Innlent | fim. 1.3.2007

Bubba Morthens dæmdar bætur fyrir meiðyrði

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að fyrrum ritstjóri tímaritsins Hér & nú skuli greiða Bubba Morthens 700 þúsund krónur í miskabætur fyrir fyrirsögn á forsíðu blaðsins þar sem stóð „Bubbi fallinn.

Siðanefnd Blaðamannafélagsins

Ég fór einnig stuttlega yfir úrskurði siðanefndar Blaðamannafélags Íslands á þessu ári, en veit ekki hvort málum nefndarinnar hefur fjölgað eða ekki á síðustu misserum. Eftirfarandi mál voru þó talin ámælisverð að mati nefndarinnar og í tveimur tilfellum taldi nefndin að viðkomandi fjölmiðlamenn eða ritstjórnir hefðu brotið alvarlega gegn siðareglum blaðamanna.

DV

Kærandi:  Ingjaldur Arnþórsson.

Kærður: Trausti Hafsteinsson, blaðamaður á DV.

Kæruefni: Kærð er umfjöllun DV um persónuleg málefni kæranda og fjölskyldu hans dagana 24. ágúst, 27. ágúst, 30. ágúst og 3. september 2007.

Úrskurður:Kærði hefur brotið gegn 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands með umfjöllun sinni um kæranda og fjölskyldu hans í DV 24. ágúst 2007. Brotið er alvarlegt. 

Sjónvarpið

Kærandi: Jónína Bjartmarz

Kærð:Ríkisútvarpið ohf., fréttamennirnir Helgi Seljan, Sigmar Guðmundsson og Jóhanna Vilhjálmsdóttir, og fréttastofa Sjónvarps.

Úrskurður: Ríkisútvarpið og Helgi Seljan teljast hafa brotið 3. grein siðareglna. Brotið er alvarlegt.

Blaðið

Kærandi: Orkuveita Reykjavíkur

Kærðu: Blaðið, Sigurjón M. Egilsson, Gunnhildur Anna Gunnarsdóttir og Trausti Hafsteinsson.

Úrskurður: Blaðið telst hafa brotið 3. grein siðareglna. Brotið er ámælisvert.


Ragnar Aðalsteinsson er alltaf á móti

Einhverju sinni var sagt að aðeins tvennt væri öruggt í lífinu; skattar og dauðinn. Ég hygg að hægt sé að bæta hinu þriðja við. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður er alltaf á móti öllum hugmyndum og tillögum Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. ragn

Undir fyrirsögninni Ótrúlegt ef Alþingi vill öryggisþjónustu, segir Fréttablaðið að hæstaréttarlögmaður teldi enga þörf á íslenskri öryggisþjónustu. Við lestur fréttarinnar kemur í ljós að hæstaréttarlögmaðurinn er Ragnar Aðalsteinsson, eins og raunar mátti búast við. Mér virðist sem að í 90% tilfella þar sem sagt er í fréttafyrirsögn að hæstaréttarlögmaður sé á móti hugmyndum dómsmálaráðherra, þá sé það Ragnar Aðalsteinsson.

Kannski er hægt að bæta við fjórða atriðinu sem er öruggt í lífinu. Þegar Björn Bjarnason kemur fram með tillögur birtir Fréttablaðið viðtal við hæstaréttarlögmanninn Ragnar Aðalsteinsson.


Trúverðugleiki að veði

Í ólgusjó fjármálalífsins hafa augu margra beinst að greiningadeildum bankanna og það með réttu. Morgunblaðið er með ágæta úttekt á því í dag, hvernig spár greiningadeildanna um gengi hlutabréfa á þessu ári hefur ræst. Niðurstaðan er sú að ekkert samhengi er á milli raunveruleika og væntinga sérfræðinga bankanna.

Til varnar greiningadeildum má segja að enginn hafi mátt sjá þann óróa sem einkennt hefur alþjóðlega fjármálamarkaði í kjölfar gríðarlegs taps vegna undirmálslána svokölluðu í Bandaríkjunum. En úttekt Morgunblaðsins vekur auðvitað upp spurningar um hvernig staðið er að málum innan greiningadeilda. Ég fæ ekki betur séð en að trúverðugleiki þeirra sé að veði.

Margir fjárfestar eru helsærðir eftir fall á hlutabréfamarkaði síðustu vikur og hugsanlega munu margir ekki ná sér á strik aftur. Við mat á fjárfestingu í hlutabréfum styðjast margir almennir fjárfestar við greiningar frá bönkunum og ráðleggingar sem ráðgjafar veita. Í uppsveiflu, eins og einkennt hefur íslenskan fjármálamarkað síðustu ár, er fremur einfalt að gefa góð ráð - þegar harðnar á dalnum reynir hins vegar á.

Hér fyrir neðan er listi yfir þau hlutabréfa sem hafa lækkað í verði það sem af er þessu ári, samkvæmt yfirliti M5.is.

Flaga Group hf.

-62,6%

365 hf

-58,7%

SPRON hf.

-52,5%

FL Group hf.

-42,8%

Eik Banki P/F

-32,9%

Icelandic Group hf.

-29,5%

Exista hf.

-15,1%

Össur hf.

-14,2%

Straumur-Burðarás

-13,5%

Bakkavör Group hf.

-10,2%

Icelandair Group hf.

-7,4%

Glitnir banki hf.

-6,7%

Føroya Banki P/F

-4,8%

Century Aluminum Company

-2,3%

Atlantic Airways P/F

-1,9%

Ég hef ekki gert sérstaka úttekt á því hvaða verðmat greiningadeildir hafa gefið út á þessu ári, en fyrir tilviljun rakst ég á verðmat greiningadeildar Landsbankans á 365 hf. sem gefið var út 25. júlí síðastliðinn. Þar sagði meðal annars:

"Eftir erfiðleika og tap af rekstrinum undanfarið leggja nýafstaðin sala á Hands Holding-hlutnum, endurfjármögnun og hagræðing í rekstrinum grunn að viðsnúningi. Við teljum þó sýnilegan árangur nauðsynlegan svo almennir fjárfestar öðlist fulla trú á félaginu. Greiningardeild verðmetur félagið á 3,02 krónur á hlut og mælir með að fjárfestar minnki við eign sína og undirvogi bréf félagsins í vel dreifðu eignasafni sem tekur mið af íslenska hlutabréfamarkaðnum."

Við lokun markaðar í gær var gengi 365 hf. 1,98 eftir að hafa hækkað lítillega. Þegar Landsbankinn gaf út verðmat á fjölmiðlafyrirtækinu var gengi hlutabréfanna 3,34 og hafði þá fallið hressilega frá ársbyrjun þegar það var 4,80. Greiningadeild bankans gerði rétt í því að ráðleggja fjárfestum að minna eign sína í 365, þó verðmatið hafi verið langt yfir því sem reyndin er í dag.

Þetta er örugglega ekki eina dæmið á síðustu mánuðum þar sem verðmat fyrirtækja hefur reynst langt frá því sem síðar hefur orðið. En ætli einhverjir hafi litið til verðmats bankans og keypt hlutabréf í 365, þegar gengi hélt áfram að falla? Einnig á velta því fyrir sér hvort bankarnir styðjist við verðmat greiningadeildanna þegar þeir taka ákvörðun um að veita lán til hlutabréfakaupa.


Danskt blogg verður frétt á Íslandi

Morgunblaðið greinir frá því að danskur blaðamaður, Jens Chr. Hansen, hafi á bloggsíðu sinni krafist þess að Baugur Group legði á borðið upplýsingar um efnahag félagsins. Samkvæmt Morgunblaðinu er hinn danski blaðamaður margverðlaunaður og þess vegna telur blaðið nauðsynlegt að flytja fréttir af því hvað hann skrifar á bloggi.

Nú veit ég ekkert um Jens sem starfar nú á Berlinske Tidende. En það er eitthvað undarlegt við að íslenskir fjölmiðlar taki upp blogg blaðamanns og seti það í búning fréttar. Það eru engin rök fyrir slíku og önnur sjónarmið en blaðamennskunnar eru greinilega ráðandi.  


Að vera sjálfum sér samkvæmur

Íslendingum tekst illa að vera samkvæmir sér sjálfum. Þetta kemur skýrt fram í afstöðu stjórnvalda til milliríkjaviðskipta með landbúnaðarvörur. Íslensk stjórnvöld gera kröfu til þess að fullur og óheftur aðgangur sé að mörkuðum annarra landa fyrir íslenskar landbúnaðarvörur, en telja fráleitt að heimila frjálsan innflutning til landsins.

En dæmi eru fleiri og nú síðast hin furðulega útrás Orkuveitu Reykjavíkur undir nafni REI, sem meirihlutinn í borgarstjórn, ætlar að gera að sérstökum fjárfestingararmi Orkuveitunnar, og þá helst þannig að selja Geysi Green Energy (GGE) allar sínar eigur en eignast um leið hlut í GGE. (Þannig ætla Svandís Svavarsdóttir, Dagur B. Eggertsson og Björn Ingi Hrafnsson, að reyna að komast á lögsókn GGE vegna samningsbrota.)

Merkilegt er að á sama tíma og Svandís Svavarsdóttir og félagar hennar í vinstri grænum ítreka nauðsyn þess að tryggja að auðlindir landsins, séu í opinberri eigu skuli þau ætla að standa að því með einkaaðilum (kapítalistunum sjálfum) að hasla sér völl í öðrum löndum á sviði náttúruauðlinda. Það hefur jaðrar við landráð í hugum vinstri grænna og raunar flestra íslenskra stjórnmálamanna, að nefna það að hugsanleg eigi að opna á möguleika þess að erlendir aðilar fjárfesti í íslenskum náttúruauðlindum. En það breytir auðvitað ekki því að Íslendingar eiga að fá að fjárfesta í auðlindum annarra landa, ekki síst þeirra sem eru með vanþróaðra efnahagslíf.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og flokksbróðir Dags B. Eggertssonar, vill raunar ganga enn lengra og koma í veg fyrir að bændur fái að njóta þeirra auðlinda sem fram til þessa hafa talist í þeirra eigu. Hann hefur boðað ný vatnalög og nái hugmyndir hans fram að ganga verður um stærstu þjóðnýtingu Íslandssögunnar að ræða. Verður forvitnilegt að fylgjast með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu slíks frumvarps.

En Össur telur hins vegar stórkostleg tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki að sækja fram á sviði orkuiðnaðar í öðrum löndum. Þar mega kapítalistarnir heldur betur kaupa og selja - bara ekki á Íslandi.


Fasteignagjöld hækka um 70%

Árið 2002 námu fasteignaskattar Reykjavíkurborgar 4.513 milljónum króna en á föstu verðlagi miðað við byggingarvísitölu um 6.150 milljónum króna. Vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað um 36%.

Fjárhagsáætlun Dags B. Eggertssonar fyrir komandi ár gerir ráð fyrir að fasteignagjöld skili borgarsjóði um 10.510 milljónum króna. Miðað við fast verðlag munu fasteignagjöld á borgarbúa því verða um 71% hærri á komandi ári en árið 2002. Áætlað er að fasteignagjöld nemir alls 9.014 milljónum á þessu ári þannig að nýr borgarstjóri ætlar sér að auka tekjurnar um 1.500 milljónir króna á ári. Slíkt hefði þótt frétt til næsta bæjar hér áður.

Ég fæ því ekki séð að sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafi verið að flytja tillögu um lækkun skatta heldur miklu fremur voru þeir að reyna að koma í veg fyrir aukna skattheimtu.

Auðvitað skýrast hærri tekjur af fasteignagjöldum frá árinu 2002 að hluta til vegna fjölgunar íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á þessum árum, en ekki nema að litlum hluta. Hærra fasteignamat er meginskýringin. Fólk sem býr í sínu sama húsnæði er því að greiða stöðugt hærri gjöld til borgarinnar.

Sé tekið mið af því að 112.490 manns voru skráð til heimilis í Reykjavík 1. desember 2002, þá var meðalgreiðsla fasteignagjalda á hvern borgarbúa tæpar 55 þúsund krónur á föstu verðlagi byggingarvísitölu. Því miður hef ég ekki tölu um íbúafjölda Reykjavíkur nú, en sé reiknað með eðlilegri íbúafjölgun, þá er ekki óvarlega áætlað að halda því fram að meðalgreiðsla hvers borgarbúa á komandi ári verði 88-90 þúsund krónur.

Það er með þessum hætti sem verið er að hækka skatta og nýr meirihluti borgarstjórnar var að samþykkja hækkun opinberra gjalda, en ekki fella tillögu um lækkun.


mbl.is Tillaga um að lækka fasteignaskatt felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur hafðir að fíflum

Ég hef setið á mér að fjallað um eitthvert furðulegasta mál sem upp hefur komið á síðustu árum. Í raun hefur ekki verið hægt að ræða um Orkuveitu Reykjavíkur, REI og Geysir Green Energy, með skynsamlegum hætti og verður ekki í náinni framtíð ef svo fer sem horfir.

Meirihluti borgarstjórnar, undir forystu fyrrum félaga minna í Sjálfstæðisflokkum, sprakk og furðulegur bræðingur vinstri manna undir forystu Dags B. Eggertssonar tók við. (Ég á enn eftir að átta mig á því hvernig Margrét Sverrisdóttir, hafði geð í sér að mynda vinstri stjórn í Reykjavík, eftir allt sem hún hefur sagt og skrifað í gegnum árin).

Eigi ég erfitt með að skilja Margréti Sverrisdóttur þá er útilokað að ég átti mig á borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Aldrei fyrr hef ég horft á stærri hóp stjórnmálamanna fremja pólitískt harahírí án ástæðu. Og ekkert er sárara en að horfa upp á góða félaga neita allri skynsemi og ana áfram í misskilningi pólitískrar þoku.En gamlir félagar í Sjálfstæðisflokknum eru ekki þeir einu sem hafa valdið mér vonbrigðum.

Einhver mætasti stjórnmálamaður yngri kynslóðar er Björn Ingi Hrafnsson - jafnvel þó hann sé framsóknarmaður líkt og tengðafaðir minn á Árskógsströnd. Aldrei hefur stjórnmálamaður slitið samstarfi fyrir jafnlítið og Björn Ingi - raunar ekkert. Aldrei hefur stjórnmálamaður slitið meirihlutasamstarfi, myndað nýjan meirihluta og orðið algjörlega áhrifalaus, fyrr en Björn Ingi ákvað að segja skilið við íhaldið í Reykjavík. (Kannski er verst fyrir minn góða vin að íhaldið gleymir engu og það gæti haft áhrif fyrir hann sem sækist eftir því að leiða Framsóknarflokkinn í framtíðinni).

En svo kemur Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi vinstri grænna. Hér skal það fullyrt að engum stjórnmálamanni hefur Morgunblaðið hampað meira í seinni tíð en Svandísi. Ritstjórn Morgunblaðsins taldi hana fulltrúa nýrra tíma - stjórnmálamann nýrra hugmynda og vinnubragða. Sjaldan hefur Morgunbalið haft jafn rangt fyrir sér. Sjaldan hefur sjórnmálamaður þurft að bakka og taka til baka fyrri orð en Svandís. Hinn nýji vinstri meirihluti í Reykjavík, með stuðningi Margrétar Sverrisdóttur, hefur ákveðið að hafa kjósendur í Reykjavík að fíflum.

Nú á að gera REi að fjárfestingararmi Orkuveitunnar, selja á eignir félagsns til Geysis Green og um leið að kaupa hlut í félaginu, undir forystu Hannesar Smárasonar og FL Group.

Í liðlega aldarfjórðung hef ég fylgst með og haft það að meginstarfi að skrifa um íslenskt viðskiptalíf. Það skal viðurkennt að ég hef ekki alltaf skilið hvað hinir snjöllu jöfrar eru að gera, en fjandinn: Ég fullyrði að nú er verið að hafa kjósendur í Reykjavík að fíflum.

Mikið er ég feginn að búa á Seltjarnarnesi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband