Svikin loforð

Ég var búinn að lofa sjálfum mér að hætta að blogga - og það sem verra er - ég var búinn að gefa öðrum loforð um að hætta.

Vonandi fyrirgefst mér að hafa ekki staðið við gefin orð. Á móti kemur að líklega mun þetta standa stutt yfir.


Takk fyrir mig

Á margan hátt hefur það verið gaman að taka þátt í blogg-ævintýrinu hér á mbl.is en nú er mál að linni.

Ég vil þakka þeim þúsundum sem hafa lagt það á sig á hverjum degi að fylgjast með því sem ég hef skrifað en þó vil ég fyrst og fremst þakka þeim fjölmörgu sem hafa gert athugasemdir við skoðanir mínar, bæði beint hér á bloggið og með símtölum og tölvupóstum.

Nú bíða hins vegar önnur verkefni sem verður að sinna.

Bloggið hér á mbl.is er forvitnilegur spegill á þjóðfélagið og lifandi vettvangur skoðanaskipta. Vonandi verður svo áfram.


Skagfirðingur vill gegn Valgerði Sverrisdóttur

Gunnar Bragi Sveinsson, oddviti framsóknarmanna í Skagafirði íhugar að bjóða sig fram í embætti varaformanns Framsóknarflokksins gegn Valgerðir Sverrisdóttur. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Feykis.

Framsóknarmenn hafa lengi náð að verja sterkt vígi í Skagafirði og þangað hefur Framsóknarflokkurinn sótt forystumenn og er Ólafur heitinn Jóhannesson fremstur meðal jafningja.

Feykir hefur eftir Gunnari Braga að hann hafi skrifað um málið á bloggi og reynt að hvetja einhverja nýja "til þess að bjóða sig fram og fá með því góða endurnýjun í flokksforystuna. Ég fékk góð viðbrögð við þessum skrifum mínum. Það góð að ég er nú að íhuga framboð en hef ekki tekið neina ákvörðun hvað það varðar."

Gunnar Bragi er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki og hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Framsóknarflokkinn og situr í miðstjórn flokksins.


Tilboð Björgólfs Thors hefur lækkað

Novator - fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar stjórnarformanns Actavis - hefur lagt fram formlegt yfirtökutilboð í félagið. Tilboðið er enn óhagstæðara en þegar óformlegt tilboð var sett fram í maí. Björgólfur býðst til að kaupa þau hlutabréf sem eru ekki í hans eigu eða tengdra félaga á 0,98 evrur á hlut sem er langt undir síðasta viðskiptagengi.

Það vekur furðu að Björgólfur Thor skuli leggja fram formlegt yfirtökutilboð á þessum tíma og miða við evrur, en krónan hefur hækkað töluvert frá 9. maí. Þann dag voru tæpar 87 krónur í einni evru en í dag eru þær "aðeins" tæpar 83 krónur.

Ég hélt því fram að Björgólfur Thor væri að líkindum tilbúinn til að greiða nokkru hærra verð fyrir Actavis, en tilboðið gaf til kynna. Greinilegt er að ég hafði rangt fyrir mér. Björgólfur Thor hefur þvert á móti lækkað verðið töluvert. Miðað við miðgengi evru nú í morgun er tilboðið 4,7% lægra en í maí, þrátt fyrir að gengi bréfa Actavis hafi hækkað.

Í tilkynningu til Kauphallar segir Actavis að tilboðið sé lagt fram í evrum:

"Tilboðið er lagt fram í evrum og hljóðar upp á 0,98 evrur á hlut í reiðufé (sem jafngildir 85,23 krónum á hlut, miðað við opinbert viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands þann 9. maí sl.)."

Þegar þetta er skrifað er hagstæðasta kauptilboðið í bréf Actavis 84 krónur á hlut. Sé miðað við miðgengi Seðlabankans er tilboð Björgólfs Thors 81,25 krónur á hvern hlut.

Það hlýtur að vekja nokkra furðu meðal hluthafa Actavis að Björgólfur Thor skuli leggja fram formlegt yfirtökutilboð á þeim nótum sem gert hefur verið. Varla geta hluthafar verið mjög ánægðir með tilboðið og erfitt er að sjá að þeir telji hag í því að fallast á tilboðið.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að óháður aðili hafi verið tilnefndur til að gera faglegt mat á tilboðinu (en ekki sagt hver það er) og á grundvelli þess muni stjórn félagsins gera tillögu til hluthafa. Því er beint til hluthafa að halda að sér höndum þangað til stjórn gefur út sitt álit eigi síðar en 8. júní næstkomandi. 

Björgólfur Thor og Andri Sveinsson, starfsmaður Novator, sitja í stjórn Actavis en þeir munu ekki taka þátt í umsögn stjórnar. Hins vegar sitja nánir samverkamenn Björgólfs Thors í stjórninni. Sindri Sindrason, Magnús Þorsteinsson stjórnarformaður hf. Eimskipafélags Íslands og Baldur Guðnason forstjóri félagsins. Í ljósi náinna fjárhagslegra tengsla þessara manna við Björgólf Thor væri skynsamlegt að þeir segðu sig einnig frá málinu. 


mbl.is Novator gerir tilboð í allt hlutafé í Actavis Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar segja ekki alla söguna í umhverfismálum

Fjölmiðlar hafa á síðustu árum verið mjög uppteknir af umhverfismálum, en því miður virðast sem þeir hafi hvorki getu né vilja til að greina frá öllu er skiptir máli. Sumt hentar ekki staðlaðri stefnu fjölmiðlanna.

Fyrir tveimur árum þögðu fjölmiðlar fremur þunnu hljóði þegar íslenskir vísindamenn komust að því að ýmislegt benti til að votlendi sem ræst hefur verið fram spúi margfalt meiri koltvísýringi en allur bílafloti landsmanna.

Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður Viðskiptablaðsins vekur athygli á þessari staðreynd í vikulegum pistli sínum um fjölmiðla í blaði sínu í dag. Fyrir þá sem vilja fylgjast með þjóðfélagsumræðu og telja nauðsynlegt að veita fjölmiðlum - ekki síður en stjórnvöldum aðhald - er lestur fjölmiðlapistla Ólafs Teits í Viðskiptablaðinu skyldulesning. (Pistlarnir birtast á hverjum föstudegi).

Rannsóknir íslensku vísindamannanna leiddu í ljós að losun koltvísýrings vegna þess að við höfum ræst fram votlendi geti verið allt að tvisvar sinnum meira en öll önnur losun okkar Íslendinga. Niðurstöðurnar vöktu hins vegar litla athygli, þrátt fyrir hinn mikla áhuga á umhverfismálum og þrátt fyrir að áhyggjur af hlýnun jarðar hafi aldrei verið meiri.

Viðskiptablaðið fjallaði um málið fyrir viku enda ekki margir sem höfðu heyrt af þessum merku niðurstöðum en Ólafur Teitur segir að "umfjöllunin hafi átt vel við á þessum tíma þegar hafin er mjög áberandi herferð sem felst í því að fólk og fyrirtæki kolefnisjafni bíla sína með því að láta fé af hendi rakna til skógræktar".

Síðan segir Ólafur Teitur:

"Allir skógar á Íslandi binda  um það bil 50-60 þúsund tonn af koltvísýringi á ári. Hvers vegna er ekkert um það fjallað að skrúfa megi fyrir ríflega hundrað sinnum meira magn, það er allt að 7 milljónum tonna, og það í eitt skipti fyrir öll, með því að endurheimta votlendi?

Sagt er að það dugi að kaupa fáein tré til að kolefnisjafna fólksbíl í eitt ár en ekki fylgir sögunni að það tekur þessi tré marga áratugi að kolefnisjafna eins árs notkun á bílnum. Sá sem kolefnisjafnar bílinn sinn með þessum hætti núna verður þess vegna í raun ekki búinn að bæta fyrir aksturinn árið 2007 fyrr en eftir fimmtíu, sextíu eða sjötíu ár, þótt vissulega hafi hann gert ráðstafanir núna til þess að svo megi verða. Hvers vegan vekur það enga athygli að hugsanlega megi með einfaldari og ódýrari hætti kolefnisjafna bílanotkun einstaklings út alla ævina með því að moka ofan í nokkra skurði?"

En afhverju vekja jafnmerkilegar rannsóknir ekki meiri athygli en raun ber vitni, ekki síst þegar fjölmiðlar og stjórnmálamenn keppast við að sýna og sanna að þeir sér grænir - séu hliðhollir umhverfinu? Ólaftur Teitur veltir fyrir sér svarinu:

"Getur verið að svörin við þessu tengist því að fjölmiðlum - og hugsanlega öðrum þeim sem duglegastir eru við að vekja athygli á ógninni af hlýnun andrúmsloftsins - sé ekki fyrst og fremst umhugað um að draga úr losun koltvísýrings heldur leggi þeir fyrst og fremst upp úr því að berjast gegn stórfyrirtækjum, iðnaðarsamfélaginu, nútímalegum lífsháttum, „neyslukapphlaupinu" og öðrum helstu meinsemdum mannlegs samfélags? Sú ályktun er í það minnsta nærtæk. Og nóg hafa sumir þessara aðila fjárfest í þeirri kenningu á undanförnum árum með síendurteknum yfirlýsingum að eina leiðin til að bjarga mannkyninu frá glötun sé að „við ríku þjóðirnar" hverfum af braut hömlulausrar neyslu og eftirsóknar eftir vindi."


Kommi í véum kapítalistanna?

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra er í viðtali við Sunnlenska fréttablaðið en það er gamalreyndur refur í blaðamennsku og sunnlendingur Sigurður Bogi Sævarsson sem tekur viðtalið.

Viðskiptaráðherra á pólitískar rætur í Alþýðubandalaginu líkt og félagi hans Össur Skarphéðinsson, en þeir skipta nú með sér ráðuneytinum sem síðustu ár hafa verið á herðum eins ráðherra. Björgvin vekur athygli á því að margir vinstri menn hafi gegnt embætti viðskiptaráðherra og nefnir nokkra  og þar virðist Svavar Gestsson vera í sérstöku uppáhaldi. Líklega rennur kalt vatn niður bakið á mörgum í viðskiptalífinu.

Sigurður Bogi bendir á að Björgvin sem gamall allaballi sé nú orðinn ráðherra í ráðuneyti viðskiptalífsins og bankanna og spyr:

Er kommi í véum kapítalistanna ekki eins og örn í æðarvarpinu?

Og ráðherrann svarar:

“Nei, alls ekki. Við eigum alltaf að læra af sögunni og fyrsta daginn minn í hér ráðuneytinu leit ég á ráðherravegginn svonefnda, þar sem eru myndir af viðskiptaráðherrum fyrri tíðar. Þegar ég skoðaði þessar myndir sá ég best hvað vinstri menn hafa ráðið miklu um stefnumótun í viðskiptamálum og verið um margt farsælir í störfum sínum. Gylfi Þ. Gíslason var viðskiptaráðuneytinu frá 1956 til 1971 og þótt afar framsýnn rétt eins og Jón Sigurðsson – að ég tali ekki um Svavar Getsson sem byrjaði sinn ráðherraferil hér í viðskiptaráðuneytinu. Annars finnst mér nú ekki rétt hjá þér að tala um mig sem komma í véum kapítalistanna, sjálfur skilgreini ég mig sem frjálslyndan sósíaldemókrati og mun vinna sem slíkur í þessu ráðuneyti.”


Börnunum má ekki leiðast!

Foreldrar, kennarar og aðrir sem koma að uppeldi og uppfræðslu barna eru of uppteknir af því að láta börnunum ekki leiðast. Foreldrar hafa mestar áhyggjur af því að börnunum leiðist. Kennarar eru miður sín ef nemendum finnst leiðinlegt að sitja í tímum. Það á allt að vera skemmtilegt og það á að tryggja að börnin okkar hafi eitthvað fyrir stafni, að þau séu aldrei ein, hafi alltaf eitt við að vera. Leiði er bannorð og foreldrar og kennarar eru dæmdir út frá því hvort þeir tryggi að börnin hafi alltaf eitthvað fyrir stafni.

Um liðna helgi fékk ég stuttan fyrirlestur frá gömlum skólamanni þegar við sátum yfir kaffibolla á Sauðárkróki. Hann er hættur fyrir löngu að reyna að skilja hvernig viðskiptin gerast í Reykjavík, með kaupum og sölu á fyrirtækjum, útrás og uppgangi. Minn gamli mentor, sem er með eyfirskt blóð í æðum en er orðinn meiri Skagfirðingur en aðrir, er hættur að hafa áhyggjur af sunnanmönnum sem ætla að sigra heiminn. Hann hefur hins vegar áhyggjur af því hvernig staðið er að uppeldi og menntun barna.

Í þjóðfélagi hraðans er það bannorð að börnunum leiðist. Það er talin skylda foreldra og þjóðfélasins alls að tryggja að leiði sæki ekki að börnum. Foreldrar gera síðan kröfu til þess að kennarar tryggi að leiði sæki ekki að börnunum. Þess vegna verður að hafa ofan fyrir þeim.

Eftir skóla verða börnin að sækja tíma í tónlist, leiklist, íþróttum, dans og föndri. Heimilið verður að vera þannig útbúið að allir nýjustu tölvuleikirnir séu til staðar á nýjustu tölvunum með bestu mögulegu nettengingum sem völ er á, DVD-safnið verður að vera gott þar sem allar bestu, skemmtilegustu og nýjustu myndirnar eru. Á sumrin eru börnin send á öll helstu námskeið sem í boði eru enda ómögulegt að láta þeim leiðast.

"Börnum á að leiðast," segir skólamaðurinn að norðan. Hann heldur því fram að fátt þroski og efli frumkvæði og frjálsa hugsun barna meira en leiði. Nú sé svo komið að börn séu hætt að þurfa að hugsa um að hafa ofan fyrir sér, að dunda við að búa eitthvað til, að skapa eitthvað sjálf í leik og starfi. Foreldrar og kennarar eru búnir að taka frumkvæðið frá börnunum - búnir að hrifsa frá þeim hvatann til að hugsa sjálf hvernig hægt sé að verja tímanum.

Minn gamli mentor telur að með þessu sé verið að ala upp kynslóð sem sé án frumkvæðið og hugmynda - verið sé að lama sköpunargáfuna sem þroskast í leiðindum. Og hvernig ætla Íslendingar þá að sækja fram í viðskiptum, listum og menningu?

Ég held að við foreldrar ættum að huga að því að láta börnunum okkar kynnast leiðindum. Í leiðindunum verða til hugmyndir sem kalla á framkvæmd. og hugmyndaauðgi Og hvað viljum við meira?


Viðskiptaráðherra á villigötum

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur þegar ratað í villur á fyrstu dögum ráðherradóms. Í hádegisviðtali á Stöð 2 í gær sagðist hann vilja skoða möguleika á því að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja með lagasetningu. Í þessu, líkt og í svo mörgu öðru, er góður ásetningur stjórnmálamanna hættulegur og gengur gegn grunngildum lýðræðis og frjáls viðskiptalífs - grunngildum þjóðfélag sem hefur gert Ísland að einu mesta hagsældarríki veraldar.

Þegar tilkynnt var um skipan Björgvins G. Sigurðssonar í embætti viðskiptaráðherra hafði ég nokkrar áhyggjur af því að hann hefði ekki nauðsynlega innsýn í heim viðskipta, skilning á eðli frjálsra samninga eða tilfinningu fyrir gangverki atvinnulífsins. Björgvin hefur fremur beint athygli og kröftum að málefnum menntakerfisins.

Viðtal Stöðvar 2 við hinn nýja viðskiptaráðherra bendir til að þessar áhyggjur hafi verið á rökum reistar.

Ekki er ástæða til að óttast að ríkisstjórn Geirs H. Haarde standi að lagasetningu um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórn sem vill kenna sig við frjálslyndi og umbætur, mun aldrei ganga svo langt að afnema rétt hluthafa í einkafyrirtækjum til að taka ákvarðanir í eigin málum, né draga úr samkeppnishæfni viðskiptalífsins með þvingunum. Sem hluthafi í nokkrum félögum tek ég ákvörðun um stuðning við stjórnarmenn út frá því hvernig ég tel hagsmunum fyrirtækisins best borgið - og þar með mínum eigin. Ég styð besta einstaklinginn, en ekki þann sem er af "réttu kyni". Stjórnmálamenn geta ekki bæði ætlast til að skattleggja fyrirtæki og hluthafa, en leggja síðan á þá íþyngjandi skyldur sem geta lækkað verðmæti og dregið úr framtíðarmöguleikum fyrirtækja.

Góður hugur Björgvins G. Sigurðssonar til að rétta við skarðan hlut kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja verður ekki dregin í efa. Íslenskar konur þurfa hins vegar ekki á slíkri hjálp að halda, eins og dæmin sanna á síðustu árum. Hér skal það fullyrt að konur í viðskiptalífinu vilja ekki lagasetningu af því tagi sem viðskiptaráðherra telur koma til greina.

Verst er þó að með yfirlýsingu sinni hefur hinn nýi viðskiptaráðherra sent röng skilaboð til viðskiptalífsins. Í stað þess að standa vörð um frjálsræðið vill ráðherrann koma böndum á viðskiptalífið og neyða menn til að haga sér með þeim hætti sem ráðherrann telur æskilegt.

Halda menn að lífskjör hér á landi muni batna í kjölfar slíkra hafta?


Samstarfsmenn Bjarna Ármannssonar yfirgefa Glitni

Tómas Kristjánsson og Finnur Reyr Stefánsson voru nánir samverkamenn Bjarna Ármannssonar fyrrverandi forstjóra Glitnis banka og þá sérstaklega sá fyrrnefndi.

Búist hefur verið við að töluverðar breytingar muni verða hjá Glitni samfara brotthvarfi Bjarna og ráðningu Lárusar Weldings í hans stað. Slíkt þykir eðlilegt. Þegar hefur verið gengið frá ráðningu eftirmanna Tómasar og Finns.

Alexander K. Guðmundsson, forstöðumaður hjá Glitni í Noregi hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fjármálasviðs í stað Tómasar.

Gísli Heimisson verið ráðinn framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs þar sem Finnur Reyr réði ríkjum. Gísli hefur þróað og stýrt upplýsingatæknikerfum Glitnis frá 2005.

Í tilkynningu til kauphallar í morgun er sagt að "Tómas og Finnur Reyr hafa undirbúið þessa breytingu í nokkurn tíma og er ákvörðun þeirra tekin í samráði við bankann". Þetta er dálítið merkilegt orðalag.


mbl.is Nýtt félag eignast fasteignafélagið Klasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur Skarphéðinsson: VG sá samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í hillingum

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra er byrjaður að draga víglínuna milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Sem iðnaðarráðherra veit hann að líklega munu þingmenn vinstri grænna (VG) sækja mest að honum á kjörtímabilinu. Einmitt þess vegna sendir ráðherrann kaldar kveðjur í herbúðir vinstri grænna í blaðagrein í Fréttablaðinu í dag.

Össur Skarphéðinsson telur að framundan sé sársaukafullt uppgjör hjá VG enda beri þeir stærstu ábyrgðina á því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var mynduð í stað vinstri stjórnar. Telur ráðherrann að forystumenn vinstri grænna hafi lesið hina pólitískur stöðu kolvitlaust enda notað "gleraugu" Styrmis Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins. Í framhaldinu heldur Össur því fram að Reykjavíkurlistinn hafi dáið drottni sínum vegna þess að vinstri grænir hafi séð samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í hillingum fremur en meirihluta vinstri manna í borgarstjórn.

Össur segir meðal annars:

"Formaður VG kistulagði hins vegar alla möguleika á myndun vinstri stjórnar. Hann gerði það ljóst með skýrum hætti að VG gæti ekki hugsað sér að fara í ríkisstjórn með Framsókn. Árásir hans á Framsókn í uppgjörsþáttum ljósvakans bak kosningum gerðu það sérhverjum landsmanni ljóst. Bersýnilegt var, að forysta VG hafði lesið stöðuna með gleraugum ritstjóra Morgunblaðsins og taldi sig eiga möguleika á að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Öðru vísi er ekki hægt að skilja þá grófu fingurbrjóta sem VG átti á taflborði stjórnmálanna hina örlagaríku daga í kjölfar þingkosninganna. Það var þessi afstaða forystu VG sem hrinti af stað atburðarásinni sem leiddi til myndunar Þingvallastjórnarinnar."

Í niðurlagi greinar sinnar segir iðnaðarráðherra svo:

"Í uppgjörinu, sem hlýtur að fara fram um þessa atburðarás, hljóta menn líka að horfa til afdrifa Reykjavíkurlistans. Upp úr honum slitnaði vegna afskipta forystu VG - sem þá einsog nú virtist fremur sjá samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í hillingum en reyna myndun öflugs meirihluta til vinstri. Þetta er dálagleg ferilskrá hins grjótharða vinstris - eða hvað?"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband