Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
John Cleese auglýsir íslenska og pólska banka
Auglýsing Kaupþings með þeim félögum John Cleese og Ranveri Þorlákssyni, er frábær og ekki eru auglýsingarnar með þessum magnaða breska leikara frá í fyrra góðar. En John Cleese hefur haldið framhjá Kaupþingi og auglýsir pólskan banka.
Er enskum ekkert heilagt?
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Háir skattar hvetja til skattsvika
Frjálslyndir hagfræðingar og stjórnmálamenn hafa á stundum haldið því fram að skattsvik séu nauðvörn einstaklingsins gegn ofbeldi ríkisvaldsins. Eins og oft þegar of sterkt er tekið til orða leynist sannleikur í þeim.
Alþjóðavæðingin hefur haft það í för með sér að samkeppni milli landa hefur aukist. Hreyfanleiki fjármagns og vinnuafls hefur gert það að verkum að ekkert land er eyland þegar kemur að launum eða skattheimtu. Gegn þessari þróun hafa ofsköttunarlöndin, með Norðurlöndin í fararbroddi, brugðist með því að efla skatteftirlit hvers konar.
Því miður er líklegt að við Íslendingar dögum sömu ályktanir af meintum skattsvikum og frændur okkar sem glíma við skattaáþján. Við munum eyða milljónum í að "ná" þeim sem hafa flutt fjármuni í svokallaðar skattaparadísir, hvort heldur er í Lichtenstein eða í öðrum löndum. Fáum mun koma til hugar að best væri að efla samkeppnishæfni Íslands og í stað þess að hrekja efnamenn til að flýja land með fjármuni sína sé skynsamlegt og eftirsóknarvert að laða að efnamenn til landsins með lágum sköttum.
Hér er ekki tekin afstaða til þess hvort lögbrot hafi verið framin, enda upplýsingar ekki fyrir hendi til að dæma um slíkt. En í stað þess að hafa of miklar áhyggjur af því hvort einhverjum hafi tekist að koma undan einhverjum fjármunum ættum við að huga að því hvort skattkerfið hér á landi sé með þeim hætti að það takmarki fremur en hámarki skatttekjur ríkissjóðs og dragi þar með úr möguleikum samfélagsins að standa undir því velferðarkerfi sem flestir eru sammála um að skuli vera sem öflugast. Við eigum að velta því fyrir okkur hvort skattkerfið hveti menn til undanskots á skatti.
Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands er sannfærður um að við verðum að huga meira að samkeppnishæfni Íslands í skattamálum. Viðskiptablaðið hefur eftir Ragnari í dag:
"Fyrirtæki og jafnvel einstaklingar færa skattfang sitt milli landa með tilliti til skattaumhverfis. Þetta hefur færst í aukana og mun örugglega aukast enn meira í framtíðinni. Og allt tengist þetta skattasamkeppni milli landa."
Tilefni þessara orða Ragnar er útgáfa bókarinnar, Cutting Taxes to Increase Prossperity (Skattalækkanir til kjarabóta). Það er Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, RSE, sem gefur bókina út.
Viðskiptablaðið hefur einnig eftir Ragnari:
"Ríkið fengi meiri tekjur til lengri tíma litið með mun lægri skattheimtu á alla, ekki aðeins fyrirtæki. Það er óheppilegt að hafa mismunandi tekjuskatta fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Ég er sannfærður um það að heildartekjur af tekjuskatti myndu aukast ef hlutfallið til ríkisins yrði fært niður úr rúmum 24% í 10-15%."
Fylgst með skattsvikamáli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.7.2008 kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Iceland Express bregst rétt við
Mattías Imsland forstjóri Iceland Express var ekki lengi að bregðast við skrifum mínum um miður góða þjónustu flugfélagsins síðasta laugardag. Hvernig yfirmenn fyrirtækja bregðast við aðfinnslum og gagnrýni er ágætur mælikvarði á hvort menn eigi að eiga viðskipti við fyrirtæki eða ekki. Margir forstjórar fyrirtækja mættu taka Matthías sér til fyrirmyndar.
Í athugasemdum við skrif mín segist Matthías ætla að sjá til þess að aðfinnslur mínar skili sér í betri þjónustu, en, en rétt er og skylt að vekja frekari athygli á þeim, en þar segir hann orðrétt:
"Ég bið afsökunar á þessu, þetta hefur greinilega ekki verið eins og við viljum að þjónustan sé. Ég mun sjá til þess að þessar athugasemdir skili sér í betri þjónustu. Vona að þú gefur okkur annan möguleika á að sanna fyrir þér hvað við stöndum fyrir.
Matthias Imsland
Forstjóri Iceland Express"
Það er því aldrei að vita nema við hjónin gerum aðra tilraun og skreppum til London.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Léleg þjónusta Iceland Express og Stóra pokaspurningin
Félagi minn heldur því fram að mikill meirihluti Íslendinga verði að fara á þjónustunámskeið. Raunar er hann sannfærður um að taka eigi upp þjónustu- og samskiptanám í grunnskólum. Ég reyndi til skamms tíma að malda í móinn en hef gefist upp fyrir rökum félagans. Því miður er það svo að maður tekur eftir því þegar góð þjónusta er veitt en tekur annað hvort ekki eftir eða er hættur að kippa sér upp við lélega þjónustu.
Síðasta laugardag ætluðum við hjónin til London með Iceland Express. Flugið var á áætlun kl. 7.15 um morguninn og því vaknað snemma. Við tékkuðum okkur inn tæpum klukkutíma fyrir brottför. Á upplýsingaskjá við innritun var ljóst að flugvélin var á áætlun. Eftir að hafa farið í gegnum öryggishlið og inn í brottfarasal blöstu nýjar upplýsingar við: Áætluð seinkun til kl. 16.30. Engar upplýsingar voru gefnar í kallkerfi flugstöðvar og því ekki annað að gera en að fara að upplýsingaborði. Þar var ekki annað sagt en að von væri á að hægt væri að fara í loftið eftir rúmlega níu klukkutíma, en þó litlu lofað.
Engin afsökunarbeiðni koma frá Iceland Express en í kallkerfi flugstöðvarinnar var greint frá því að farþegum yrði boðið upp á morgunmat eftir klukkutíma. Ung kona með lítið barn var í vandræðum við þjónustuborðið og sagði starfsmönnum þar að hún ætti tengiflug. "Þú verður bara að breyta því," var svarið sem hún fékk. Engin tilraun gerð til að aðstoða hana með neinum hætti, enda vita allir að auðvelt er að breyta tengiflugi án aðstoðar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Og ekki var hún beðinn afsökunar á óþægindunum.
Portúgalskur karlmaður á heimleið var ráðvilltur við þjónustuborðið. Hann talaði takmarkaða ensku en reyndi af megni að átta sig á stöðunni enda með bókað flug til síns heima. Ekki mætti hann miklum skilningi og ekki mun hann bera landanum gott orð fyrir hjálpsemi. "Þú verður bara að finna einhvern til að túlka fyrir þig," sagði starfsmaður þjónustuborðsins við hann á ensku enda lítið mál að finna portúgalskan túlk í flugstöðinni.
Við hjónin gáfumst upp og óskuðum eftir töskunum. Fórum heim og munum sjálfsagt aldrei gera tilraun aftur til að fljúga með Iceland Express. Einföld afsökunarbeiðni, lipurð og hjálpsemi hefði farið langt með að koma í veg fyrir ákvörðun um að eiga ekki frekari viðskipti við flugfélagið.
En Iceland Express er ekki eina fyrirtækið sem lítur á það sem sérstakan greiða að leyfa fólki að eiga viðskipti við það. Ég er satt að segja að gefast upp við að kaupa í matinn fyrir helgar, en er nauðbeygður líkt og aðrir landsmenn.
Með örfáum undantekningum, líkt og Melabúðin og Fjarðarkaup, virðast matvöruverslanir vera reknar samkvæmt þeirri hugmyndafræði að viðskiptavinurinn sé til fyrir verslunina en ekki að verslunin sé til fyrir viðskiptavininn. Látum verðlagið (sem skrifast ekki síst á hið opinbera) og framsetningu í búðum liggja á milli hluta. En eftir að hafa fyllt heila kerru af matvöru fyrir helgina byrjar kapphlaupið mikla. Búið er að hrúga vörunni á kassaborðið og í örvæntingarfullri tilraun er reynt að troða öllu í plastpoka. Þegar tæpur helmingur er kominn niður er spurt ákveðið: "Hvað marga poka." Þá horfi ég brostnum augum á kassadömuna (-drenginn). "Ég veit það ekki," er það eina sem ég get sagt. "Hversu marga poka," er þá endurtekið hvassar og ákveðið. "Sjö," segi ég í ráðaleysi án þess að hafa hugmynd um hvort fjöldi þeirra er réttur. "16.575," er það eina sem sagt er á móti, ég rétti kortið um leið og ég reyndi að halda áfram að troða í pokana og þar með hef ég greitt 0,4% af heildarinnkaupunum fyrir pokana sjö.
"Takk fyrir viðskipti," "Eigðu góða helgi, " eða "njóttu dagsins," eru orð sem aldrei heyrast eftir stórinnkaup fyrir helgina. Kassadaman(drengurinn) hefur ekki tíma fyrir slík orð þar sem næsta fórnarlamb bíður eftir að vera yfirheyrður um hversu marga poka hann þarf.
Félagi minn er fyrir löngu hættur að svara Stóru pokaspurningunni. Hann lítur aðeins beint í augu viðkomandi afgreiðslumanns og segir: "Ég veit það ekki. Segð þú mér, þú ert sérfræðingurinn sem vinnur við þetta alla daga." En hann fær heldur engar þakkir fyrir viðskiptin eða ósk um góða helgi.
Það eina sem félagi minn veit er að eigendur verslunarinnar munu nota hluta af pokaskattinum til að slá sig til riddara með því að gefa fjármuni til góðgerðarmála. Þær gjafir eru ekki gefnar í nafni viðskiptavinanna, enda eru þeir hvort sem er aðeins til fyrir verslunina.
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Skýr skilaboð og gott fordæmi
Einhliða ákvörðun Lárusar Weldings forstjóra Glitnis um að lækka laun sín um helming er merki um nýja tíma og breytt vinnubrögð meðal íslenskra stjórnenda. Lækkunin mun vissulega ekki hafa mikil áhrif á afkomu Glitnis er hún er skýr skilaboð til starfsmanna, hluthafa og viðskiptavina að tími aðhalds og hófsemdar sé runninn upp.
Forvitnilegt verður að fylgjast með starfsbræðrum Lárusar Weldings á næstu vikum. Feta þeir í fótspor hans? Og taka stjórnir annarra fjármálastofnana svipaða ákvörðun og Þorsteinn Már Baldvinsson, nýr formaður stjórnar Glitnis, beitti sér fyrir á aðalfundi bankans og lækka eigin laun? Tíminn leiðir það í ljós.
Flest bendir til þess að afkoma bankanna verði lakari á þessu ári en á liðnu ári. Fari stjórnendur fjármálafyrirtækja og fjárfestingarfélaga ekki að fordæmi Lárusar Weldings er ljóst að hlutfall launa þeirra af hagnaði mun hækka verulega frá síðasta ári. Líkt og bent var á hér fyrir skömmu eru laun stjórnenda allt að 1,9% af hagnaði. Varla munu hluthafar sitja þegjandi undir því að það hlutfall hækki verulega vegna minnkandi hagnaðar.
Helmingar laun sín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 25. febrúar 2008
Pólitísk kreppa vinstri grænna og Steingríms J.
Vinstri grænir virðast komnir í pólitíska kreppu undir forystu Steingríms J. Sigfússonar. Flokknum hefur ekkert gengið í stjórnarandstöðu og traust kjósenda til formannsins hrapar. Hægt er að leiða rök að því að vandi vinstri grænna eigi aðeins eftir að aukast samfara því sem hægist á í efnahagslífinu.
Skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokkanna, sem birt var í gær (sunnudag), leiðir í ljós að fylgi vinstri grænna er nær það sama og í kosningunum, en úrslit þeirra voru mikið áfall fyrir flokkinn sem hafði verið á mikilli siglingu síðustu vikurnar fyrir kjördag. Áfall Steingríms J. Sigfússonar og félaga varð síðan enn meira þegar ljóst var að þeim tækist ekki að tryggja samstarf í ríkisstjórn.
Fyrstu mánuði kjörtímabilsins virtist sem vindur væri í seglum vinstri grænna en í september mældist flokkurinn með 16,5% fylgi í könnun Fréttablaðsins, en síðan hefur aðeins sígið á ógæfuhliðina. Í nýjustu könnun blaðsins er fylgi flokksins komið niður í 14,2%.
Til að kóróna vandræðagang vinstri grænna leiðir könnun Fréttablaðsins í ljós að aðeins 9,1% kjósenda bera mest traust til Steingríms J. Sigfússonar - mun færri en segjast fylgja flokknum að máli. Fyrir ári sögðust 25,7% kjósenda treysta formanni vinstri grænna mest allra stjórnmálamanna. Þannig er Steingrímur J. að missa fótanna á hinu pólitíska svelli - virðist raunar vera í frjálsu pólitísku falli, líkt og Össur Skarphéðinsson sem býður afhroð í áðurnefndri könnun Fréttablaðsins.
Líklegt er að vandi Steingríms J. Sigfússonar og vinstri grænna eigi aðeins eftir að aukast eftir því sem líður á árið. Flokkur sem býður aðeins upp á aukin ríkisútgjöld, aukna skattheimtu og stöðnun í atvinnuuppbyggingu er ekki líklegur til að höfða til kjósenda þegar hægir á vexti efnahagslífsins. Undir eðlilegum kringumstæðum skapast sóknarfæri fyrir flokk í stjórnarandstöðu þegar kreppir að í efnahag þjóðar. Kjósendur gera sér hins vegar grein fyrir að vinstri grænir bjóða ekki upp á fýsilegan kost til úrlausnar þeim vandamálum sem steðja að. Einmitt þess vegna styrkja stjórnarflokkarnir stöðu sína og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn og Geir H. Haarde. Fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins er athyglisverð ekki síst í ljósi vandræðagangsins í borgarstjórn. Staða Geir H. Haarde er gríðarlega sterk og styrkist. Framsóknarflokkur og frjálslyndir eru hins vegar í þann veginn að þurrkast út miðað við könnun Fréttablaðsins.
Veik staða Steingríms J. Sigfússonar mun kynda enn frekar undir þær raddir innan vinstri grænna að nauðsynlegt sé að skipta um kallinn í brúnni, enda er hann hættur að fiska. Steingrímur J. er ekki lengur sá sterki leiðtogi sem vinstri menn hefur alltaf dreymt um að eignast. Og hér skal efast um að hann sé að finna í þingflokki vinstri grænna.
Geir nýtur mests trausts en Vilhjálmur minnst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 24. febrúar 2008
Til hamingju með daginn
Konudagurinn er í dag, ef það hefur farið framhjá einhverjum karlmanni. Vissara að gera ráðstafanir.
Í tilefni af deginum er vert að senda öllum konum kveðjur með myndabandi sem ég fékk sent fyrir nokkru.
Laugardagur, 23. febrúar 2008
Brenglað gildismat
Gildismat þjóðar, einstaklinga og samfélaga birtist með margvíslegum hætti. Orð og orðanotkun er ein skýrasta birtingarmynd gildismats.
Við lítum á þá sem eldri eru sem þiggjendur og krefjumst þess að greiddar séu sérstakar barnabætur með börnunum, sem við erum svo gæfusöm að eignast.
Um leið og börnin eru komin í heiminn eru þau gerð að bótaþegum, líkt og þau séu þung byrgði sem sett hefur verið á herðar foreldra og samfélagsins alls. Þess vegna er talið nauðsynlegt að greiða foreldrum sérstakar bótagreiðslur fyrir hvert barn. Barnabætur lýsa undarlegu og röngu gildismati þjóðar.
Í stað þess að fagna hverju barni sem fæðist með því að líta á það sem frjálsan einstakling, teljum við nauðsynlegt að létta aðeins byrgði foreldranna með bótagreiðslum. Börnin eru gerð að annars flokks borgurum í stað þess að lofa þeim að njóta sömu réttinda og aðrir.
Fyrir 18 árin er einstaklingurinn bótaþegi í hugum samfélagsins en eftir það er litið á hann sem sérstakan skattstofn - uppspretta fyrir flóknar millifærslur. Þannig er haldið áfram í nokkra áratugi uns einstaklingurinn er kominn á þann aldur þegar flestir ákveða að setjast í helgan stein eftir gott ævistarf. Þá er aftur farið að líta að viðkomandi sem bagga og þiggjanda frá samfélaginu. Þá er einstaklingurinn kallaður ellilífeyrisþegi, líkt og hann sé að þiggja eitthvað, sem hann hefur ekki unnið fyrir.
Ágætur vinur minn sem er kominn nokkuð yfir sjötugt og rekur sitt fyrirtæki, er argur út í stofnanavæðingu samfélagsins sem hefur brenglað skilning okkar og ruglað heilbrigða skynsemi og viðhorf. Þannig fékk hann yfirlit frá séreignalífeyrissjóði, sem hann hefur greitt í undanfarna áratugi, þar sem hann var titlaður ellilífeyrisþegi. Þannig er öllu snúið á hvolf og lífeyrissjóðurinn er farinn að líta svo á að hann sé að þiggja peninga, sem vinur minn á og hefur lagt til hliðar af sjálfsaflafé.
Þjóðfélag sem lítur á þá sem yngstri eru og þá sem eru eldri og hafa skilað góðu ævistarfi, sem þiggjendur og bótaþega - bagga á okkur hinum - þarf að endurskoða gildismat sitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Rétt ákvörðun
Geir H. Haarde nálgast Breiðuvíkurmálið með réttum hætti og það sérstakt gleðiefni að ríkisstjórnin ætli að leggja fram frumvarp sem tryggir þeim sem máttu sæta illri meðferð, skaðabætur þó þær bæti aldrei þann sálræna skaða sem ungir drengir urðu fyrir á sínum tíma.
Mikilvægt er að tryggja rétt einstaklinga gagnvart opinberum aðilum. Ef hið opinbera brýtur með einum eða öðrum hætti á rétti einstaklinga, verður að tryggja að skaðinn sé bættur, fjárhagslega og með öðrum hætti sé þess kostur.
Því miður er það svo að erfitt hefur verið fyrir einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki, að sækja rétt sinn á hendur ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra. Ákvörðun forsætisráðherra um að tryggja fórnarlömbum Breiðavíkurheimilisins bætur, er vonandi vísbending um að ný viðhorf séu að ryðja sér til rúms.
Nefndin mun fjalla um önnur meðferðarheimili | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Ófullnægjandi skýringar á brotthvarfi forstjóra Eimskips
Í gær var tilkynnt að Baldur Guðnason forstjóri Eimskips hefði ákveðið að segja skilið við félagið eftir fjögurra ára starf. Hann hefur þegar látið af störfum. Ég dreg í efa að verið sé að segja söguna alla.
Eimskip hefur gengið í gegnum gríðarlegar breytingar á síðustu árum og þær breytingar eru langt í frá fullkláraðar.
Í desember síðastliðnum lét Magnús Þorsteinsson af embætti stjórnarformanns Eimskips. Óvenjulegt er að stjórnarformenn láti af embætti með þeim hætti. Yfirleitt bíða menn eftir aðalfundi til að gera hluthöfum grein fyrir ákvörðun sinni. Það er einnig óvenjulegt að forstjóri stórfyrirtækis ákveði að taka pokann sinn og láti þegar af störfum án þess að stjórn fyrirtækisins hafi ráðrúm til að ganga frá ráðningu eftirmanns.
Með allt þetta í huga eru skýringar Baldurs Guðnasonar á því afhverju hann ákveður að yfirgefa brúnna hjá Eimskip ófullnægjandi. Jafnframt vekur það spurningar hvers vegna nauðsynlegt er talið að Eimskip kaupi eigin hlutabréf af eignarhaldsfélagi Baldurs - Eyfirðingi sem er fjórði stærsti hluthafinn í Eimskip. Markaðsvirði bréfanna er nær tveir milljarðar króna. Ekki verður betur séð en að þau kaup gangi gegn settu markmiði félagsins að lækka skuldir.
Hluthafar Eimskips og markaðsaðilar hljóta að kalla eftir frekari skýringum, en vægast sagt er það óheppilegt að bæði stjórnarformaður og forstjóri yfirgefi fyrirtæki á tveggja mánaða millibili, sem er að ganga í miklar breytingar að ekki sé talað um þann óróa sem verið hefur á alþjóðlegum mörkuðum. Við slíkar aðstæður fara menn ekki frá hálfkláruðum verkefnum ótilneyddir.