Börnunum má ekki leiðast!

Foreldrar, kennarar og aðrir sem koma að uppeldi og uppfræðslu barna eru of uppteknir af því að láta börnunum ekki leiðast. Foreldrar hafa mestar áhyggjur af því að börnunum leiðist. Kennarar eru miður sín ef nemendum finnst leiðinlegt að sitja í tímum. Það á allt að vera skemmtilegt og það á að tryggja að börnin okkar hafi eitthvað fyrir stafni, að þau séu aldrei ein, hafi alltaf eitt við að vera. Leiði er bannorð og foreldrar og kennarar eru dæmdir út frá því hvort þeir tryggi að börnin hafi alltaf eitthvað fyrir stafni.

Um liðna helgi fékk ég stuttan fyrirlestur frá gömlum skólamanni þegar við sátum yfir kaffibolla á Sauðárkróki. Hann er hættur fyrir löngu að reyna að skilja hvernig viðskiptin gerast í Reykjavík, með kaupum og sölu á fyrirtækjum, útrás og uppgangi. Minn gamli mentor, sem er með eyfirskt blóð í æðum en er orðinn meiri Skagfirðingur en aðrir, er hættur að hafa áhyggjur af sunnanmönnum sem ætla að sigra heiminn. Hann hefur hins vegar áhyggjur af því hvernig staðið er að uppeldi og menntun barna.

Í þjóðfélagi hraðans er það bannorð að börnunum leiðist. Það er talin skylda foreldra og þjóðfélasins alls að tryggja að leiði sæki ekki að börnum. Foreldrar gera síðan kröfu til þess að kennarar tryggi að leiði sæki ekki að börnunum. Þess vegna verður að hafa ofan fyrir þeim.

Eftir skóla verða börnin að sækja tíma í tónlist, leiklist, íþróttum, dans og föndri. Heimilið verður að vera þannig útbúið að allir nýjustu tölvuleikirnir séu til staðar á nýjustu tölvunum með bestu mögulegu nettengingum sem völ er á, DVD-safnið verður að vera gott þar sem allar bestu, skemmtilegustu og nýjustu myndirnar eru. Á sumrin eru börnin send á öll helstu námskeið sem í boði eru enda ómögulegt að láta þeim leiðast.

"Börnum á að leiðast," segir skólamaðurinn að norðan. Hann heldur því fram að fátt þroski og efli frumkvæði og frjálsa hugsun barna meira en leiði. Nú sé svo komið að börn séu hætt að þurfa að hugsa um að hafa ofan fyrir sér, að dunda við að búa eitthvað til, að skapa eitthvað sjálf í leik og starfi. Foreldrar og kennarar eru búnir að taka frumkvæðið frá börnunum - búnir að hrifsa frá þeim hvatann til að hugsa sjálf hvernig hægt sé að verja tímanum.

Minn gamli mentor telur að með þessu sé verið að ala upp kynslóð sem sé án frumkvæðið og hugmynda - verið sé að lama sköpunargáfuna sem þroskast í leiðindum. Og hvernig ætla Íslendingar þá að sækja fram í viðskiptum, listum og menningu?

Ég held að við foreldrar ættum að huga að því að láta börnunum okkar kynnast leiðindum. Í leiðindunum verða til hugmyndir sem kalla á framkvæmd. og hugmyndaauðgi Og hvað viljum við meira?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

soooooo true

Jóna Á. Gísladóttir, 30.5.2007 kl. 13:26

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er erfitt fyrir kennara þegar helsti og jafnvel eini mælikvarði foreldra á hvort kennarinn er góður eða slæmur er hvort krakkarnir segja hann "skemmtilegan". Svo vilja allir sleppa leiðindum eins námskröfum og mælingum á námsárangri með stöðluðum samræmdum prófum svo skólinn geti bara verið "skemmtilegur" og engin leiðindi séu að þvælast fyrir.

Helgi Jóhann Hauksson, 30.5.2007 kl. 16:10

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Það er sannarlega þörf á þessu innleggi.   Við sjálf erum afþreyingarkynslóðin og höfum alið það upp í börnunum okkar að það þurfi stanzlaust að hafa ofan af fyrir þeim.  Þetta er algengt viðhorf í samfélaginu víðar en hjá börnum, á vinnustöðum og í ýmsu frístundastarfi er enginn einstaklingur virkilega "góður"  í því sem hann er að gera, nema hann sé líka skemmtilegur - og svo líka auðvitað rosalega klár. 

Marta B Helgadóttir, 30.5.2007 kl. 17:33

4 identicon

Hárrétt. Börnum nefnilega leiðist ekki lengi. Þau finna sér eitthvað að gera.

Í vetur hafði ég með mér son minn á fjórða ári í eina viku þar sem ég var við vinnu í sumarbústaði. Ekkert var þar af leikföngum eða öðru sem "verður að vera" þar sem börn eru. Eftir skamma stund var guttinn búinn að finna sér steinvölur, spítukubba og sitthvað annað og týndur í eigin heimi við leik. Honum leiddist ekki nema fyrstu mínúturnar.

Hjörtur Árnason (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 20:22

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sannari orð hef ég ekki lengi heyrt. Þinn gamli mentor hittir algjörlega naglann á höfuðuð, ég tek ofan hatt minn fyrir honum. Ég er ein af þeim sem messa hvað mest yfir því hvernig ungt fólk og börn eru meðhöndluðu. Það er fátt hollara en að hafa ofan af fyrir sér. Takk fyrir þetta.

Ásdís Sigurðardóttir, 30.5.2007 kl. 21:37

6 Smámynd: Halla Rut

Svo sannarlega segir þú sannleikann. Við foreldrar nútímans erum algjörlega farin yfir strikið í ofverndun. Vitum við það ekki öll en erum svo hrædd við "ekki góðir foreldrar" stimpilinn sem við erum svo fljót að setja á hvort annað.

Halla Rut , 30.5.2007 kl. 21:40

7 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Ofverndun verður til þess að börnin verða ósjálfbjarga og hvernig verður þá heimurinn eftir 30 ár?

Rúnar Birgir Gíslason, 30.5.2007 kl. 23:00

8 Smámynd: Sigurður Halldór Jesson

Takk fyrir þennan greinarstúf. 
Það er löngu orðið tímabært að opna fyrir umræðu um þetta.  Mötun á rétt á sér í ákveðnum tilfellum en það má ekki gerast að frumkvæðið verði alveg tekið af börnum.

Sigurður Halldór Jesson, 31.5.2007 kl. 11:24

9 Smámynd: Valdimar Gunnarsson

Ójá - alltaf eru nú Eyfirðingar gáfaðir. Minn gamli sveitungi veit hvað hann syngur og það gerir hún Magga Pála líka sem komst að því í Hjallaskólanum sínum að börnin voru hljóðari og hæglátari í leikjum sínum þegar þau voru ekki með tilbúin leikföng heldur "hvaða dót sem var" -- kubba, leir, druslur o.s.frv. Börn virðast líka ekki leika sér skemur með slík ímynduð leikföng, ímyndunin verður drjúgur hluti af leiknum. 

Með þessu kemur frumkvæðið - leiðin út úr leiðindunum - en frumkvæðið er það kvæði sem  verður höfuðlausn nútímans.

Valdimar Gunnarsson, 31.5.2007 kl. 22:10

10 Smámynd: Elías Theódórsson

Þarna kemur fram enn ein afleiðing stofnanauppeldis. Í lokin skorar þú á foreldra. Veistu hvað foreldrar hafa langan tíma á dag/viku með börnum sínum? Ef foreldrar eiga að koma að þessu þurfa þeir að hafa val um uppeldi barna sinna. Börnum er komið fyrir á stofnunum frá unga aldri og fá að dúsa þar allt of lengi. Ég kalla eftir frelsi og fjölbreytni í uppeldismálum.

Elías Theódórsson, 1.6.2007 kl. 07:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband