Viðskiptaráðherra á villigötum

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur þegar ratað í villur á fyrstu dögum ráðherradóms. Í hádegisviðtali á Stöð 2 í gær sagðist hann vilja skoða möguleika á því að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja með lagasetningu. Í þessu, líkt og í svo mörgu öðru, er góður ásetningur stjórnmálamanna hættulegur og gengur gegn grunngildum lýðræðis og frjáls viðskiptalífs - grunngildum þjóðfélag sem hefur gert Ísland að einu mesta hagsældarríki veraldar.

Þegar tilkynnt var um skipan Björgvins G. Sigurðssonar í embætti viðskiptaráðherra hafði ég nokkrar áhyggjur af því að hann hefði ekki nauðsynlega innsýn í heim viðskipta, skilning á eðli frjálsra samninga eða tilfinningu fyrir gangverki atvinnulífsins. Björgvin hefur fremur beint athygli og kröftum að málefnum menntakerfisins.

Viðtal Stöðvar 2 við hinn nýja viðskiptaráðherra bendir til að þessar áhyggjur hafi verið á rökum reistar.

Ekki er ástæða til að óttast að ríkisstjórn Geirs H. Haarde standi að lagasetningu um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórn sem vill kenna sig við frjálslyndi og umbætur, mun aldrei ganga svo langt að afnema rétt hluthafa í einkafyrirtækjum til að taka ákvarðanir í eigin málum, né draga úr samkeppnishæfni viðskiptalífsins með þvingunum. Sem hluthafi í nokkrum félögum tek ég ákvörðun um stuðning við stjórnarmenn út frá því hvernig ég tel hagsmunum fyrirtækisins best borgið - og þar með mínum eigin. Ég styð besta einstaklinginn, en ekki þann sem er af "réttu kyni". Stjórnmálamenn geta ekki bæði ætlast til að skattleggja fyrirtæki og hluthafa, en leggja síðan á þá íþyngjandi skyldur sem geta lækkað verðmæti og dregið úr framtíðarmöguleikum fyrirtækja.

Góður hugur Björgvins G. Sigurðssonar til að rétta við skarðan hlut kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja verður ekki dregin í efa. Íslenskar konur þurfa hins vegar ekki á slíkri hjálp að halda, eins og dæmin sanna á síðustu árum. Hér skal það fullyrt að konur í viðskiptalífinu vilja ekki lagasetningu af því tagi sem viðskiptaráðherra telur koma til greina.

Verst er þó að með yfirlýsingu sinni hefur hinn nýi viðskiptaráðherra sent röng skilaboð til viðskiptalífsins. Í stað þess að standa vörð um frjálsræðið vill ráðherrann koma böndum á viðskiptalífið og neyða menn til að haga sér með þeim hætti sem ráðherrann telur æskilegt.

Halda menn að lífskjör hér á landi muni batna í kjölfar slíkra hafta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að setning kynjakvóta sé afar slæmt mál og þá sérstaklega fyrir konur. 

Konur munu fá á sig þann stimpil að þær séu í stjórn afþví þær eru konur en ekki af því að þær séu hæfar.  Þetta mun leiða til þess að minna mark verður tekið á konum í stjórn og mun þetta þá að sjálfsögðu bitna verst á þeim konum sem virkilega eru hæfar.

Því mun þetta frekar minnka áhrif kvenna en að auka.

Gunnar Valur (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband