Skemmtilegt á kosningaskrifstofu á Króknum

Ég fór norður í Skagafjörð síðasta fimmtudag og dvaldi á uppeldisstöðvum á Sauðárkróki. Þar er allt á öðru tempói en hér sunnan heiða, jafnvel í aðdraganda kosninga. Á uppvaxtarárum mínum á Króknum tók ég virkan þátt í kosningum, þó ekki væri ég flokksbundinn á þeim tíma. Harðan var oft mikil, enda návígi. En kosningabaráttan var yfirleitt skemmtileg.

Fyrir þremur áratugum var sagt að kjósendur á Sauðárkróki, sem vildu láta keyra sig á kjörstað hefðu samband við Alþýðubandalagið, vegna þess að allaballar keyrðu um að flottustu bílunum. Einn virðulegur borgari á Króknum lét allaballana alltaf keyra sig á kjörstað, en síðan beint í kaffi og meðlæti til íhaldsins. Þar voru bestu kökurnar og besta kaffið, enda bakarísfjölskyldan svarið íhald og nokkar bestu kökugerðarkonur sveitarinnar sáu um bakkelsið. Hann kaus hins vegar aldrei íhaldið, hvað þá allaballana. Minn gamli vinur var krati, andkommi sem þoldi íhaldið lítt nema í sinni heimabyggð. Framsókn heimsótti hann aldrei og vildi lítið um framsóknarmenn vita.

Síðasta föstudag tók ég hús á íhaldinu á Króknum; fór í kaffi á kosningaskrifstofuna við Aðalgötuna. Þá rifjaðist upp fyrir mér hve skemmtilegt og gaman það getur verið að taka þátt í kosningum. Að sitja yfir kaffi og hlusta á sögur sem einhverjir bestu sagnamenn segja er ævintýri.

Björn Björnsson, fyrrum skólastjóri, situr þar í ríki sínu, þekkir alla og kann sögur af flestum. Allar eru þær til að gleða og fremur upphefja, jafnvel pólitíska andstæðinga. Brynjar Pálsson, gamall bóksali, er vart síðri. Ég hef aldrei hitt hann í vondu skapi. Og í miðri sagnaveislu þeirra Björns og Brynjars kom Bjarni Har., móðurbróðir Einars Kristins Guðfinssonar sjávarútvegsráðherra. Þá byrjar fjörið fyrst. Og sögurnar, þær er ekki hægt að endursegja. Þegar þessir þrír koma saman verður aldrei leiðinlegt og þá er von um árangur.

Allir eru þeir gallharðir sjálfstæðismenn, hafa ákveðnar skoðanir á flestum hlutum, eru gagnrýnir á þjóðfélagið en skynja hvað vel hefur verið gert. En um leið og þeir skipuleggja kosningabáráttuna, gera þeir þá kröfu að hægt sé að hafa gaman - að menn taki lífið ekki of alvarlega. Líklega ættu fleiri að taka þessa og raunar fleiri Skagfirðinga sér til eftirbreytni. "Við skulum berjast en fjandakornið, höfum þá gaman af því," gæti verið þeirra mottó.

Markmiðið er hins vegar skýrt. Skagfirðingar eiga að tryggja kosningu Einars Odds Kristjánssonar á þing. Þetta minnir að nokkru á þegar Siglfirðingar og íhaldið í Skagafirði börðust fyrir Eykon - Eyjólf Konráð Jónsson - enda minnir Einar Oddur í mörgu á Eykon. Báðir eru hreinir og segja það sem þeir hugsa, fremur eað því hvað kjósendur vilja heyra.

Fyrir slíka menn eru félagarnir á Króknum tilbúnir til að berjast.

Skoðanakannanir benda til þess að Einar Oddur nái kjöri, sem er með hreinum ólíkindum. En kannski er það vegna þess að Skagfirðingar og Húnvetningar eru tilbúnir til að berjast fyrir Vestfirðing, vegna þess að honum er treyst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Jónsson

Góður pistill Óli, ég man eftir því þegar við Árni Þór vinur minn, sentumst á milli kjörstaðar og kosningaskrifstofa sjálfstæðismanna og krata. Feður okkar samtíða í bæjarstjórn og aðeins einu sinni sló í brýnu með okkur út af pólitík. Þá vorum við ekki mjög gamlir og tókumst hraustlega á og þetta vakti furðu skólafélaga okkar.

Karl Jónsson, 23.4.2007 kl. 13:44

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ef menn ná Einari mínum Oddi á þing sem kjördæmakjörnum þingmanni verður mér léttara í sinni.

Þar fer gegnheilt íhald og Drengur góður.

Við þurfum fleirri slíka í lið okkar Sjálfstæðismanna.

Baráttukveðjur

miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 23.4.2007 kl. 14:42

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Kæri Óli Björn þakka þér fyrir skemmtileg skrif, það er akurat þetta sem vantar í lífið og tilveruna í dag, húmor, kærleika og gleði, ég er nú það eldri en þú að  ég man nú tímana tvenna í svo mörgu, ég var líka svo lánsöm að fá að upplifa nærveru við fullorðið fólk og hlusta á sögur, umræður um pólitík og allt annað líka. Kom ég nú ætíð á krókinn með foreldrum mínum  er ég var lítil snót., vorum við að heimsækja vini  sem þar bjuggu. Þá var nú öðruvísi umhorfs en núna  þá rann bæjarlækurinn í gegnum Þorpið, ég vona að ég muni þetta rétt. Maður var afar ungur er maður fór að vinna fyrir flokkinn í kostningum og eimitt að vera með er fólk var sótt heim og það var alltaf mikið fjör og gaman. Ein sem er fædd og uppalin í gömlu góðu Reykjavik síðan í Sandgerði í 27 ár á Ísaf. í 10 ár búin að búa á Húsavík í 2 ár og vonandi verð ég hér það sem eftir er. Ég óska okkur góðs gengis í kostningunum.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 24.4.2007 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband