Hann "vældi einsog ónefnd dýrategund sem fengið hefur gaffal í afturendann"

Össur Skarphéðinsson sér nú fram á að 12 ára draumur rætist. Hann sest innan fárra daga á ráðherrastól að nýju. Honum hefur að líkindum sjaldan liðið betur en þegar hann vermdi stól umhverfisráðherra 1993-1995. Sumum finnst að toppurinn á tilverunni að gegna ráðherraembætti.

Nú líkt og fyrir 12 árum verður Össur í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og miðað við hvernig Össur hefur rætt opinberlega um ráðherratíð sína, dreg ég í efa að hugur hans hafi stefnt annað en að tryggja ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Allt tal um vinstri stjórn fyrir kosningar var að mestu innantómt og hugur fylgdi ekki máli. Því tekur Össur því fegins hendi þegar hann getur kennt Steingrími J. Sigfússyni og vinstri grænum um að vinstri stjórn lítur ekki dagsins ljós.

Á heimasíðu sinni segir Össur meðal annars og skýtur fast:

"Taflið af hálfu VG var ótrúlega klunnalegt. Formaður sargaði í sundur allar brýr til Framsóknar, og tefldi þannig út af borðinu möguleika á vinstri stjórn með Framsókn út af borðinu. Fyrir mína parta er því dagljóst að líklega átti enginn einn stjórnmálamaður eins ríkan þátt í því að nú er hafin myndun samstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en félagi Steingrímur."

Össur Skarphéðinsson hefur lengi kunnað að beita pennanum, enda alinn upp á Þjóðviljanum heitnum, þar sem hann skrifaði einhverja bestu dálka þess tíma um pólitík og þjóðmál. Mér finnst á stundum að Össur sé miklu betri dálkahöfundur en stjórnmálamaður, enda er hann "villidýr" eins og hann segir sjálfur. Hefði Össur fæðst í Bandaríkjunum væri hann að líkindum með þekktustu dálkahöfunum þar vestra, efnamaður með nokkra unga menn í vinnu, líkt og þekktustu dálkahöfunar Bandaríkjanna. Skrif hans væru að birtast í hundruðum dagblaða.

Pennafærni Össurar fær á stundum að njóta sín á heimasíðunni og í gær skaut hann ekki aðeins á Steingrím J. heldur einnig á Guðna Ágústsson, en þá tvo sagði hann vera spælda stjórnmálamenn og vitnar þar í Kastljósþátt síðasta fimmtudag þar sem Steingrímur J. og Guðni sátu fyrir svörum.

Össuri fannst dapurlegt að horfa á þessa tvo stjórnmálamenn, sem nú virðast dæmdir til stjórnarandstöðu. Um Guðna Ágústsson skrifaði Össur:

"Hinn síðari [Guðni] vældi einsog ónefnd dýrategund sem fengið hefur gaffal í afturendann. Hann vændi Sjálfstæðisflokkinn um svik og pretti. Hefði nokkur ábyrgur stjórnmálamaður með fullu viti farið í tveggja flokka stjórn með Framsókn? Flokkurinn gat ekki einu sinni gert upp við sig hvort hann vildi vera, eða fara, úr ríkisstjórn. Sjö manna þingflokkur var svo sundurklofinn að hann gat ekki einu sinni komið sér saman um hvað hann vildi gera. Það hefði einfaldlega verið óábyrgt af Geir að leiða svo veika stjórn yfir þjóðina."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þennan pistil.  Gat ekki á mér setið að blogga um monthanann Össur sem ég heyrði segja, á kosningafundi fyrr í mánuðinum, að hann hafi verið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum kalinn á hjarta.  Nú er komið annað hljóð í manninn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.5.2007 kl. 15:21

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Það er alveg frábært að fylgjast nú með hinum svokölluðum "vinstri" mönnum í Samfylkingunni, sem hafa úthúðað Sjálftæðisflokknum um árabil fyrir ýmiss konar ósóma og hægri villu. Ef ég man rétt var eitt af kosningaloforðum S að koma D frá völdum og mynda sterka vinstri stjórn, eins konar breiðfylkingu vinstri manna. Hvað verður nú um þá fylgismenn S, sem ekki þola D og allt það sem sá flokkur stendur fyrir? Má ekki búast við klofningi í þeim flokki eða flykkjast menn nú til V?    

Júlíus Valsson, 19.5.2007 kl. 15:35

3 Smámynd: Júlíus Valsson

ps

Nú er komin fram skýring á því, hvers vegna Ingibjörg Sólrún var jafn "málefnaleg" og hún var í kosningabaráttunni. Hún var fyrir nokkru hætt að ráðast á D-listann og málaflutning hans með sama hætti og hún var vön. Það kom mörgum á óvart. Þetta er auðvitað góð lexia fyrir kjósendur í næstu kosningum. Það er í raun hægt að reikna það nokkurn veginn út, hvaða flokkar eru að krunka sig saman, ef menn skoða grant málaflutning formanna flokkanna í kosningabaráttunni og bera hann saman við fyrri ummæli þeirra.   

Júlíus Valsson, 19.5.2007 kl. 15:47

4 identicon

Varðandi komment Júlíusar þá finnst mér nú alltaf hafa verið ljóst að alveg eins og það er frjálshyggjufólk og miðjufólk í Sjálfstæðisflokknum þá eru frjálslyndir kratar vs vinstri kratar í Samfylkingunni. Það sama hefur verið sagt um framsóknarflokkinn sem er þó talsvert minni flokkur. Svo eru það róttæka fólkið vs íhaldið í VG. Ég held að það fari einmitt oftast eftir því hvaða flokk er verið að semja við á hvaða bili á hægri/vinstri ásnum samstarfið lendir.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 16:31

5 identicon

Já þetta var víst borðleggjandi.  Stjáni blái kjaftaði af sér fyrir norðan.
Frammararnir þurfa að fá frí í bili frá stjórninni og það vill enginn vinna með Steingrími J. 

Árni (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 16:37

6 Smámynd: Júlíus Valsson

Jú, Anna, mér var það ljóst. Það er bara undarlegt, hvernig stjórnmálamenn tala stundum. Eins og kjósendur séu hálfgerðir kjánar. Geta þeir ekki bara talað tæputungulaust? Það er það sem ég á við. 

Júlíus Valsson, 19.5.2007 kl. 17:00

7 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Það er ekki rétt að tala um frjálslynda krata og vinstri krata í Samfylkingunni. Nær sanni er að tala um hægri krata og vinstri krata í þeim flokki. Síðan er fólk í Samfylkingunni sem fellur ekki undir þessa skilgreiningu, m.a. fólk sem lítur á sig sem vinstrisósíalista.

En hitt held ég sé alveg rétt hjá Önnu, að VG er klofinn flokkur; annarsvegar er íhaldssöm og í raun furðu hægrisinnuð flokkseigendklíka sem ræður ennþá öllu innan flokksins, hinsvegar eru það vinstrisósíalistarnir.  

Jóhannes Ragnarsson, 19.5.2007 kl. 17:50

8 identicon

Jóhannes, örugglega má kenna suma krata við hægri en þeir sjálfir vilja held ég skilgreina sig sem frjálslynda (hljómar svo vel)  - en ég er hjartanlega sammála þér hvað það varðar að ég held að þessi íhaldsarmur sé ansi stjórnsamur í VG. Þess vegna fannst mér Guðni eiginlega ekki ganga nógu langt þegar hann skilgreindi Steingrím sem framsóknarmann, en ef það er einhver framsóknarmaður í honum er sá ansi langt til hægri á framsóknarásnum  - en nú er ég líklega búin að móðga einhverja VG vini mína  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 21:21

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Júlíus Valsson segir: Hvað verður nú um þá fylgismenn S, sem ekki þola D og allt það sem sá flokkur stendur fyrir? Ég spyr aftur á móti: Hvað á að gera við aumingja pótentátana í Sjálfstæðisflokknum sem beinlínis hata Ingibjörgu Sólrúnu og hafa aldrei hlíft sér við því að rakka hana niður sem mest þeir mega? Ég hef heyrt í og talað við þessar raddir, líkast til sömu raddirnar og vildu miklu frekar í samstjórn með VG. Sjálfstæðisfólk sem fékk velgju og hroll við að heyra á hana minnst - verður nú að vera næs og vinna með henni. Þarf þetta fólk ekki áfallahjálp?

Friðrik Þór Guðmundsson, 19.5.2007 kl. 22:07

10 identicon

Og hver ert þú?

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 23:49

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Og hver spyr?

Friðrik Þór Guðmundsson, 20.5.2007 kl. 00:23

12 identicon

Friðrik Þór, það er rétt há þér, það þurfa margir Sjálfstæðiskarlmenn áfallahjálp þessa daga. Og þeir eru í meirihluta í þessum flokki. Allt vegna þess að sumir voru svo einfaldir að kjósa (og ég líka) konu sem varaformann. Og konur geta svo vel grenjað saman, eins og nú sést. Karlar grenja EKKI saman. Nú ætlar kona í Sjálfstæðisflokknum að leiða ISG til valda, gjörsamlega ábyrgðarlausa konu sem t.d. öskrar á götuhornum að mynt lands síns sé ónýt ! Nei, mætti ég þá biðja um fólk sem hefur meira stjórn á tilfinningum sínum og er ekki svona endemis vitlaust, eins og hún hefur margoft sýnt sig vera.

Hvers vegna var ekki leitað til Frjálsra um a.m.k. stuðning ? Ég bara skil þetta ekki og óttast verulega fylgishrun XD í næstu kosningum.  Býður Jónina Ben uppá áfallahjálp í Póllandi ?

Örn Johnson´43 (IP-tala skráð) 20.5.2007 kl. 00:26

13 identicon

" Hinn síðari [Guðni] vældi einsog ónefnd dýrategund sem fengið hefur gaffal í afturendann."

 Er ekki í lagi með þig?  Þetta er verulega ósmekklegt og þér til skammar að vitna í þessa grein sem góða grein.

 Þú ert kannski einn af þeim sem ætlar að þurka út Framsóknarflokkinn með sömu aðferð og áróðursmeistarar Hitlerstjórnarinnar þurkuðu út gyðinga?

gp (IP-tala skráð) 20.5.2007 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband