Hvernig þingmaður yrði Ómar Ragnarsson?

Þessu undir stól ég sting,

stóru orðin spara.

Ómar hann kemst ekki á þing

og engu þarf að svara.

Þannig orti Gunnar Sandholt í vísnakenni Safnahússins á Sauðárkróki sem haldinn var í 13. sinn fyrir skömmu.  Þátttakendur voru meðal annars beðnir um að svara spurningunni: Hvernig þingmaður yrði Ómar Ragnarsson. Rétt er að taka fram að hagyrðingarnir ortu löngu fyrir kjördag, þannig að Gunnar Sandholt reyndist sannspár.

Hjalti Pálsson, einn dómnefndarmanna, skrifar um keppnina í Feyki, héraðsfréttablað í Norðurlandi vestra.

En fleiri góðar vísur um Ómar voru settar saman. Þannig segir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd:

Að senda Ómar inn á þing

orðstír mannsins skaðar

hrekkjalóma hugsun slyng

hæfir annars staðar.

Pálmi Jónsson á Sauðárkróki bað Ómar um að róa sig:

Í landsins gæðum fegurð finn

og framtíð glæstra vona

elsku besti Ómar minn

ekki láta svona.

Hilmir Jóhannesson er tvíræður í sínum orðum:

Hrjúfum rómi hér ég syng,

þið hafið dóm á blaði.

Fari Ómar inn á þing

er það tómur skaði.

Loks er vert að líka á hvaða kostum Óttar Skjóldal í Enni telur að þingsmannsefni verða að búa yfir:

Hann mun bera hinum af,

hann ég bestan nefni.

Hann mun ljúga hina í kaf,

hann er þingmannsefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Það klikkar ekki að maður andar að sér Skagafirðinum reglulega á þessari síðu - sem er gott.

Verst að Feykir er ekki á netinu svo við útlendingarnir gætum lesið hann.

Rúnar Birgir Gíslason, 21.5.2007 kl. 14:56

2 identicon

Sammála Rúnari, það er voðalega heimilislegt svona stundum að opna bloggsíðuna þína Óli Björn. Tel mig í það minnsta hálfan Skagfirðing, dóttir prestsdóttur úr Lýtingsstaðahreppi, og að auki með 10 sumra sveitadvalareynslu frá þessum slóðum. Endilega haltu áfram „fréttaritun“ úr þessum eðalfirði, okkur hinum til ánægju og yndisauka

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 15:20

3 Smámynd: Eiríkur Ingvar Ingvarsson

Bendi á að Ómar er þegar farin að undirbúa forsetaframboð.

Eiríkur Ingvar Ingvarsson, 22.5.2007 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband