Orð "starfsmanns á plani" vega aldrei þungt

Ekki skil ég þetta upphlaup sem orðið hefur vegna skrifa Össurar Skarphéðinssonar um Gísla Martein Baldursson. Vissulega eru skrifin ósvífin og rætin. Slegið er undir belti. En skipta orð "starfsmanns á plani" í raun einhverju? Varla.

Össur Skarphéðinsson hefur sjálfur lýst sér sem áhrifalitlum stjórnmálamanni, enda var honum spáð pólitískum dauða eftir harða baráttu við svilkonu sína um formennsku í Samfylkingunni árið 2005. Á aðfangadag jóla - fyrir rétt tveimur mánuðum - skrifaði Össur eftirfarandi á heimasíðu sína, kannski í vonleysi og depurð:

"Ég hef stundum velt fyrir mér hlutverki mínu í ríkisstjórn Íslands. Ég er ekki forsætisráðherra og hugsanlega er það galli minn sem stjórnmálamanns að mig hefur aldrei langað til þess. Ég er ekki utanríkisráðherra og get því ekki haft nokkur áhrif á gang heimsins. Ég er líka búinn að uppgötva síðan í maí að hið falda vald liggur í fjármálaráðuneytinu. Þar hef ég bókstaflega engin ítök heldur - þó slitna, úrsérgengna  kólumbíska skjalataskan mín sé túlkuð sem stöðug umsókn um það embætti. Hvað er ég þá?

Það rann upp fyrir mér meðan ég sat og horfði á Næturvaktina í haust. Ég er starfsmaður á plani!"


mbl.is Pistill Össurar ræddur á þingflokksfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FL Group: Afhverju kom rekstrarkostnaðurinn á óvart?

Júlíus Þorfinnsson, forstöðumaður samskiptasviðs FL Group, gerir nokkrar athugasemdir við skrif mín um félagið síðasta þriðjudag. Vert er að halda þeim athugasemdum til haga og benda lesendum á þær. Júlíus leiðréttir þar þá röngu staðhæfingu mína að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi tekið við formennsku stjórnar FL Group í desember síðastliðnum. Hið rétta er að Jón Ásgeir tók við stjórnartaumum í júní. Júlíus svarar hins vegar í engu spurningum mínum um það hvort upplýsingum hafi verið haldið leyndum varðandi ótrúlega háan rekstrarkostnað félagsins.

Tilefni skrifa minna voru ummæli Jón Ásgeirs Jóhannessonar í hádegisviðtali á Stöð 2 um að 6,2 milljarða króna rekstrarkostnaður hefði komið á óvart. Ekki er hægt að skilja orð stjórnarformannsins með öðrum hætti en að upplýsingum hafi verið haldið leyndum, annars hefði rekstrarkostnaður ekki komið á óvart.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag er augljóst að Pálmi Haraldsson, aðaleigandi Fons og varaformaður stjórnar FL Group, er langt í frá sáttur við rekstrarkostnaðinn á liðnu ári. Pálmi svarar spurningu blaðamanns svo:

"Við þessum tölum er mjög einfalt svar: Þarna voru gerð mistök og þau verða ekki gerð aftur. Það er engin leið að réttlæta þennan rekstrarkostnað með neinum hætti." 

Athugasemdir Júlíusar við skrifum um FL er rétt að birta hér en þær eru gerðar fyrir hönd félagsins: 

"1. Rekstarkostnaður Tryggingamiðstöðvarinnar kemur inn í reikninga FL Group á fjórða ársfjórðungi 2007. Þessi kostnaður var 841 m.kr., eins og upplýst hefur verið í reikningum félagsins.

2. Sértækur kostnaður FL Group við tilgreind fjárfestingaverkefni á árinu 2007 var 1.325 m.kr., en megnið af þessum kostnaði féll til á fjórða ársfjórðungi. Hér er um aðkeypta sérfræðivinnu að ræða. Stærsta verkefnið á síðari hluta 2007 var fyrirhuguð yfirtaka á Inspired Gaming Group. Samhliða ákvörðun í desember sl. um að hætta við yfirtökuna vegna markaðsaðstæðna var þessi kostnaður gjaldfærður í bókhaldi félagsins. Meðal annarra verkefna af þessum toga má nefna AMR.

3. Skrifstofu félagsins í Kaupmannahöfn var lokað í desember og samið við starfsmenn um starfslok. Einnig var gerður starfslokasamningur við Hannes Smárason í desember.

4. Jón Ásgeir Jóhannesson hefur verið stjórnarformaður FL Group síðan í júní 2007, ekki desember eins og sagt er hér að ofan.

Júlíus Þorfinnsson, forstöðumaður samskiptaviðs FL Group."

Eftir stendur að enn er ósvarað hvort upplýsingum hafi verið haldið leyndum líkt og Jón Ásgeir gefur til kynna í áðurnefndu viðtali. Afhverju kom hár rekstrarkostnaður á óvart ef upplýsingar lágu fyrir?


Hæstu launin hjá SPRON en lægstu hjá Exista

Þegar almennir hluthafar koma saman til aðalfundar fyrirtækis er tvennt sem þeim er efst í huga: Hver er hagnaðurinn af rekstrinum og hver er ávöxtunin á hlutabréfunum? Fáir hafa hins vegar áhyggjur af því hvernig stjórn og helstu stjórnendur fyrirtækisins hafa staðið sig í starfi. Það hefur ekki tíðkast hér á landi að leggja mælistiku á árangur þeirra sem standa í brúnni, enda hafa hluthafar verið ánægðir, fram undir það síðasta, þar sem hlutabréf hafa margfaldast í verði.

Í niðursveiflu síðarihluta liðins árs og fyrstu vikur yfirstandandi árs, kann þetta viðhorf að breytast. Kannski að almennir hluthafar setji mælistiku á frammistöðu stjórnenda og þær eru margar til. Ein sú einfaldasta er að reikna laun æðstu manna í hlutfalli við hagnað. Og ekki er óeðlilegt að hluthafar líti til annarra fyrirtækja í sambærilegum rekstri til að fá samanburð.

Í töflunni hér fyrir neðan eru upplýsingar um laun æðstu stjórnenda þeirra banka og fjárfestingafélaga sem skráð eru í kauphöll og hlutfall launa af hagnaði. Upplýsingar fyrir Atorku liggja ekki fyrir en félagið birtir ársreikning sinn næstkomandi föstudag. Vert er að taka fram að ekki er tekið tillit til kaupréttarsamninga.

Dýrustu forstjórarnir á liðnu ári voru hjá FL Group enda skilaði félagið liðlega 67 milljarðs króna tapi og gengi hlutabréfa félagsins lækkaði um 43% frá upphafi til loka árs.

Ef litið er á hlutfall heildarlauna (laun, fríðindi, bónusgreiðslur og lífeyrisgreiðslur) af hagnaði síðasta árs, þá kemur í ljós að hæstu launin fékk Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON. Heildarlaun Guðmundar námu 61 milljón króna en hagnaður sparisjóðsins var tæpir 3,3 milljarðar. Launin voru því 1,9% af hagnaði ársins. Hluthafar munu einnig hafa í huga að frá því að hlutabréf SPRON voru skráð á markað í október lækkuðu þau um 45% til loka ársins. Þau hafa haldið áfram að lækka á þessu ári.

Forstjórar Exista eru hlutfallslega með lægstu launin eða töluvert innan við 0,1%. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings er ágætlega launaður en er þó hlutfallslega með þriðju lægstu launin samkvæmt þessari samantekt. Tveir starfandi stjórnarformenn, Sigurður Einarsson og Lýður Guðmundsson eru með nokkuð svipuð laun í hlutfalli við afkomu.

Vert er að hafa í huga að töluvert stór hluti launa forstjóra og stjórnarformanna er í formi bónusgreiðslna. Bónus sem greiddur var út á liðnu ári er vegna ársins 2006. Heildarlaunagreiðslur eru ekki sundurgreindar hjá öllum fyrirtækjunum og því var ekki hægt að birta þær í töflunni.

Laun stjórnenda vs. hagnaður 2007      
tölur í milljónum króna 
StjórnandiFyrirtækiHeildar-laun 2007Hagnaður (tap) ársinsHlutfall launa af hagnaðiHækkun (lækkun) hlutabréfa 2007
Hreiðar Már SigurðssonKaupþing banki138 71.191 0,194% 5%
Sigurður EinarssonKaupþing banki170 71.191 0,238% 5%
Sigurjón Þ. ÁrnasonLandsbanki164 39.949 0,409% 34%
Halldór J. KristjánssonLandsbanki87 39.949 0,218% 34%
Bjarni ÁrmannssonGlitnir banki190 27.651 0,687% -6%
Lárus WeldingGlitnir banki76 27.651 0,275% -6%
Erlendur HjaltasonExista32 52.340 0,061% -12%
Sigurður ValtýssonExista3852.3400,073%-12%
Lýður GuðmundssonExista144 52.340 0,275% -12%
Hannes SmárasonFL Group140 -67.238  - -43%
Jón SigurðssonFL Group33 -67.238  - -43%
Guðmundur HaukssonSPRON61 3.287 1,865% -45%
William FallStraumur52 14.8660,352%-13%
Friðrik JóhannssonStraumur392      
  
Í launum er átt við reglubundin laun, bónusgreiðslur, fríðindagreiðslur og greiðslur í lífeyrissjóði. Ekki er tekið tillit til kaupréttasamninga og uppgjörs þeirra.
Upplýsingar um launakjör forstjóra Atorku liggja ekki fyrir, en félagið birtir uppgjör á föstudag. 
Bjarni Ármannsson lét af starfi forstjóra Glitnis í maí og Lárus Welding tók við starfinu. 
Lárus Welding fékk greiddar 300 milljónir króna sem ráðningagreiðslu (sign-on fee). 
Tveir stjórnarformenn eru teknir hér með. Sigurður Einarsson og Lýður Guðmundsson eru starfandi stjórnarformenn..
Hannes Smárason lét af störfum forstjóra FL Group í desember og tók Jón Sigurðsson við, en hann var áður aðstoðarforstjóri.
William Fall var ráðinn forstjóri Straums í maí á liðnu ári og lét Friðrik Jóhannsson af störfum.  
Í launum Friðriks Jóhannssonar eru uppgjör á kaupréttum og fleira tengt starfslokum. Laun hans eru því ekki sambærileg við launa annarra.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,4% á liðnu ári 
Tvö félög gera upp í evru; Exista og Straumur. Tölur voru umreiknaðar í krónur m.v. miðgildi evrunnar í árslok 2007. Nokkur skekkja er því samfara.
         

 


Var upplýsingum haldið leyndum fyrir stjórn FL Group?

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs Group og FL Group, sagði í hádegisviðtali í gær á Stöð 2, að 6,2 milljarðs króna rekstrarkostnaður FL Group á liðnu ári hafi komið verulega á óvart. Eins og bent var á hér í gær er ekki hægt að skilja orð Jóns Ásgeirs öðru vísi en að upplýsingum hafi verið haldið leyndum. Nauðsynlegt er að stjórnarformaðurinn, sem tók við völdum í desember, skýri þessi orð út. Jón Ásgeir Jóhannesson

Ef rétt reynist að upplýsingar hafi ekki legið fyrir, þegar ákveðið að auka hlutafé, er ljóst að stjórn FL Group hefur allt síðasta ár verið í villum, en Jón Ásgeir hefur setið í stjórn félagsins allar götur frá 9. júlí 2005. Einn nánasti samverkamaður Jóns Ásgeirs og starfsmaður Baugs hefur verið jafnlengi í stjórn. Skarphéðinn Berg Steinarsson tók sæti í stjórn FL Group á sama tíma og Jón Ásgeir og var formaður stjórnar félagsins frá 1. nóvember 2005 til desember síðastliðins. Þorsteinn M. Jónsson, fráfarandi formaður stjórnar Glitnis, var varaformaður stjórnar FL Group frá 2005 til desember á liðnu ári. Þorsteinn er náinn samstarfsmaður Jóns Ásgeirs.

Varla er hægt að ganga lengra en að halda upplýsingum leyndum fyrir stjórn skráðs hlutafélag, eða hluta stjórnarmanna, nema þá fjárfesta þegar leitað er til þeirra eftir auknu hlutafé eins og gert var í desember. Enginn sem tekur að sér það trúnaðarstarf að sitja í stjórn hlutafélags getur setið þegjandi undir slíku, heldur verður hann að leitast við að gera hluthöfum og lánadrottnum grein fyrir því hvað gert hefur verið. Núverandi stjórn FL Group, með Jón Ásgeir í fararbroddi, verður að gera hluthöfum og fjármálamarkaðinum í heild grein fyrir hvað gerðist, með hvaða hætti og hver eða hverjir bera ábyrgð. Trúverðugleiki er að veði. 

Hér er ekki verið að tala um neina smápeninga heldur 6,5 milljarða króna. Í uppgjöri FL Group fyrir fyrstu níu mánuði síðasta árs kemur fram að rekstrarkostnaður félagsins hafi verið tæpir 3,1 milljarður króna. Í uppgjöri fjórða ársfjórðungs kom í ljós að í heild var rekstrarkostnaðurinn 6,2 milljarðar króna allt síðasta ár. Með öðrum orðum síðustu þrjá mánuði ársins var kostnaðurinn liðlega einn milljarður á mánuði. Augljóst er að hér vantar nákvæmar skýringar og þessi mikli munur rennir stoðum undir orð Jóns Ásgeirs. Stjórnarformaðurinn getur hins vegar ekki látið orðið hanga óskýr í loftinu.

Flugleiðir verða FL Group - stjórnarmenn ósáttir við Hannes

Í tilefni af þessu er rétt að rifja aðeins upp hvernig þróunin hefur verið frá því að þrír stjórnarmenn sögðu sig úr stjórn til að mótmæla vinnubrögðum þáverandi stjórnarformanns.

FLGroup_300pxlÁ aðalfundi 10. mars 2005 var ákveðið að breyta nafni Flugleiða í FL Group og voru eftirtaldir kjörnir í stjórn félagsins: Árni Oddur Þórðarson, Gylfi Ómar Héðinsson, Hannes Smárason, Hreggviður Jónsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Jón Þorsteinn Jónsson og Pálmi Kristinsson. Hannes Smárason var kjörinn formaður stjórnar og Hreggviður Jónsson varaformaður.

Fyrsta dag júlí mánaðar barst félaginu hins vegar tilkynning þar sem þrír stjórnarmenn, Árni Oddur Þórðarson, Hreggviður Jónsson og Inga Jóna Þórðardóttir, sögðu sig úr stjórn vegna ágreinings um vinnubrögð stjórnarformanns. Í kjölfarið var boðað til hluthafafundar 9. júlí, en áður en að honum kom höfðu allir stjórnarmenn, fyrir utan Hannes Smárason sagt sig úr stjórn.

Morgunblaðið greindi meðal annars svo frá þeim fundi:

"Inga Jóna Þórðardóttir bað um orðið eftir að Hannes hafði lokið ræðu sinni og gerði grein fyrir brotthvarfi sínu, sem tilkynnt var á stjórnarfundi 30. júní síðastliðinn. Hún sagði að á síðustu vikum hefði henni orðið það ljóst að starfshættir innan stjórnar félagsins hefðu ekki verið með þeim hætti sem hún teldi að samþykktir félagsins og starfsreglur segðu til um. Hún benti á að í ársskýrslu Flugleiða fyrir árið 2004 kæmi fram að stjórnin legði sérstaka áherslu á að viðhalda góðum stjórnunarháttum og tilgreindar væru sérstaklega Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja sem Verslunarráð Íslands, Kauphöll Íslands og Samtök atvinnulífsins komu að.

"Í veigamiklum atriðum er verulegur misbrestur á að farið sé eftir þeim reglum, sem í gildi eru," sagði Inga Jóna sem telur nauðsynlegt að gerðar verði ákveðnar ráðstafanir til að tryggja að stjórnunarhættir verði í fullu samræmi við þann ramma sem samþykktir félagsins og starfsreglur kveða á um...

"Þegar stjórnarformaður er jafnframt í fullu starfi sem slíkur, eins og er í FL Group, er enn brýnna að þessir hlutir séu í lagi og enginn velkist í vafa um verkaskiptingu forstjóra og starfandi stjórnarformanns. Að mínu viti verður það ekki gert nema með sérstakri samþykkt stjórnar sem hluta af starfsreglum," sagði Inga Jóna.

Hún benti á að í samþykktum félagsins og í starfsreglum stjórnar væri kveðið skýrt á um hlutverk og ábyrgð stjórnar gagnvart eftirliti með reikningshaldi og meðferð fjármuna félagsins. Samkvæmt þeim skyldi félagsstjórn taka ákvarðanir í öllum málum, sem telja verði óvenjuleg eða mikilsháttar. Þá sagði hún jafnframt að það væri alveg ljóst í hennar huga að allar stærri fjárfestingar og skuldbindingar gagnvart félaginu skyldu ræddar og undirbúnar og samþykktar í stjórn félagsins."

Jón Ásgeir í stjórn 

Fyrir hluthafafundinn 9. júlí urðu miklar breytingar á hluthafahópi FL Group en 26,5% hlutir Saxbygg hf. og 1% hlutur Mannvirkis ehf. voru seldir Landsbanka Íslands, sem aftur gerði framvirka samninga um sölu þessara hluta. Þeirra á meðal voru:

  • Katla Holding sem eignaðist 17,68%. Félagið var (er) í eigu Magnúsar Ármann, Kevin Stanford, Sigurðar Bollasonar. Í október sama ár seldi félagið öll hlutabréfin, en þeir félagar áttu áfram hlut í FL í gegnum önnur eignarhaldsfélög.
  • Baugur Group sem keypti 2,46% til viðbótar við 7,92% sem félagið hafði áður gert framvirkan samning um að kaupa.
  • Eignarhaldsfélagið Oddaflug sem jók hlut sinn um 5% til viðbótar við 30,54% sem það átti áður í félaginu.

Á hluthafafundinum 9. júlí voru eftirtaldir kjörnir í stjórn FL Group:

Hannes Smárason, Einar Ólafsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Magnús Ármann, Sigurður Bollason og Þorsteinn M. Jónsson. Hannes Smárason var endurkjörinn formaður stjórnar. Jón Ásgeir og Þorsteinn M. hafa allar götur síðan setið í stjórn félagsins og sitja enn.

Á stjórnarfundi FL Group 19. nóvember 2005 voru samþykktar grundvallarbreytingar á skipulagi félagsins sem var' fjárfestingarfélag í stað þess að vera fyrst og fremst félag í flugrekstri. Í tilkynningu til kauphallar sagði meðal annars:

"Á fundi stjórnar í morgun var ákveðið að gera grundvallarbreytingar á skipulagi FL Group, þannig að fjárfestingarstarfsemi mun verða aðalverkefni þess. Hannes Smárason hefur verið ráðinn forstjóri félagsins. Fjárfestingar félagsins munu falla undir þrjú svið, eitt svið, sem sérhæfir sig í rekstrar-, yfirtöku-, og umbreytingarverkefnum (Private Equity) sem Jón Sigurðsson stýrir, annað sem mun annast eignastýringu og fjárfestingar (Asset Management and Portfolio Investments) sem Albert Jónsson stýrir og hið þriðja sem annast kaup, sölu og leigu á alþjóðlegum flugvélamarkaði undir stjórn Halldórs Vilhjálmssonar framkvæmdastjóra Icelease."

Samhliða þessum breytingum var Hannes Smárason ráðinn forstjóri félagsins, en hann hafði áður verið stjórnarformaður enda stærsti hluthafinn. Í stað hans var Skarphéðinn Berg Steinarsson kjörinn formaður og Þorsteinn M. Jónsson varaformaður. Þegar Jón Ásgeir vísar til þess að ekki hafi verið hægt annað en að greiða Hannesi 90 milljónir króna við starfslok, þar sem slík greiðsla hafi verið í samræmi við ráðningasamning, er ljóst að bæði hann og Þorsteinn M. Jónsson áttu sæti í stjórn félagsins sem gekk frá nefndum ráðningasamningi.

Vegna þessara breytinga var boðað til hluthafafundar 1. nóvember 2005 og þá voru eftirtaldir kjörnir í stjórn félagsins, en stjórnarmönnum var fækkað úr sjö í fimm:

Skarphéðinn Berg Steinarsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Ármann, Smári S. Sigurðsson og Þorsteinn M. Jónsson. Skarphéðinn Berg Steinarsson var kjörinn formaður og Þorsteinn M. Jónsson varaformaður.

Á aðalfundi 21. mars 2006 voru stjórnarmenn aftur orðnir sjö og bættust  Peter Mollerup og Paul Davidson í hópinn. Skarphéðinn Berg Steinarsson var kjörinn formaður og Þorsteinn M. Jónsson varaformaður.

Á aðalfundi FL Group 22. febrúar 2007 voru eftirtaldir kjörnir í stjórn félagsins:

Jón Ásgeir Jóhannesson,  Jón Kristjánsson,  Magnús Ármann, Paul Davidson, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Smári S. Sigurðsson og Þorsteinn M. Jónsson.Skarphéðinn Berg Steinarsson var kjörinn formaður stjórnar á fyrsta fundi og Þorsteinn M. Jónsson varaformaður.

Á hluthafafundi 14. desember síðastliðinn sem haldinn var eftir hlutafjáraukningu var kjörin ný stjórn:

Gunnar S. Sigurðsson, Hannes Smárason, Jón Ásgeir Jóhannesson, Kristín Edwald, Pálmi Haraldsson, Þórður Már Jóhannesson og Þorsteinn M. Jónsson. Í framhaldinu tók Jón Ásgeir við stjórnarformennsku og Pálmi Haraldsson var kjörinn varaformaður.


Tölur frá síðasta föstudegi enda lokað í dag

Best færi á því að ritstjórn mbl.is tæki út þessa frétt, enda byggir hún á misskilningi. Hlutabréfamarkaðir voru lokaðir í dag. Lokagildi vísitalna er frá lokun markaðar á föstudag og raunar ekki farið nákvæmt með. Einnig er vert að benda á að Dow Jones er ekki ein vísitala frekar en Nasdaq eða S&P. Nákvæmni myndi ekki skaða blaðamann frekar en lesendur.
mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýr skilaboð

Ekki er hægt að skilja orð  Jóns Ásgeirs öðruvísi en svo að honum hafi verið alls ókunnugt um gríðarlega háan rekstrarkostnað FL Group (liðlega sex milljarðar króna), þegar hann tók ákvörðun að taka þátt í hlutafjáraukningu félagsins í desember síðastliðnum með því að leggja inn eignir sem metnar voru á 53,8 milljarða króna. Nauðsynlegt er að Jón Ásgeir upplýsti um það hvort upplýsingum hafi verið haldið leyndum.

Það þarf ekki mikla innsýn í viðskipti til að átta sig á því að ef ekki hefði verið ráðist í hlutafjáraukningu - björgunaraðgerð - í desember væru eignir FL Group á brunaútsölu sem stjórna' væri af lánadrottnum félagsins. Með öðrum orðum félagið hefði siglt í þrot.

Eignir sem Baugur lagði inn í FL Group voru á genginu 14,70 en nú fyrir stundu var gengi hlutabréfa í FL Group 10,21 eftir töluverða hækkun í dag. Þetta þýðir að reikningslegt gengistap Baugs á rúmum tveimur mánuðum er nær 16,5 milljörðum króna. Það er því skiljanlegt að Jón Ásgeir gefi stjórnendum skýr skilaboð að halda vel á spöðunum og ná raunverulegum árangri. Og þar sem FL Group er stærsti hlutahafinn í Glitni banka og afkoma hans hefur aftur veruleg áhrif á efnahag FL, þá er Jón Ásgeir með svipuð skilaboð til stjórnenda bankans.

Það er mikið í húfi.


mbl.is Eignir FL Group á brunaútsölu ef ekki hefði verið gripið inn í
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður vikunnar: Vilhjálmur Egilsson

Kjarasamningar sem nú hafa verið undirritaðir eru gríðarlega mikilvægir enda siglir íslenskt efnahagslíf í gegnum ólgusjó. Ekki verður betur séð en að samningarnir séu á skynsamlegum nótum og tryggi að stöðugleiki náist, að öðru óbreyttu.

Framganga Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sýnir enn og sannar hve miklum hæfileikum hann er búinn. Það var því skarð fyrir skildi þegar honum var fórnað með ógeðfelldum hætti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Sú saga verður ekki rakin hér en þá hafði meðalmennskan sigur yfir hæfileikum. Brotthvarf Vilhjálms Egilssonar af þingi var blóðtaka fyrir sjálfstæðismenn en greinilega gæfa fyrir aðila vinnumarkaðarins.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra virðist vera sammála þessu mati mínu en hann segir á heimasíðu sinni (bjorn.is) í gær:

"Við, sem kynntumst störfum Vilhjálms Egilssonar á alþingi og hve lipurlega hann hélt á stjórn efnahags- og viðskiptanefndar þingsins undrumst ekki, að honum hafi tekist að leiða þessa samninga farsællega og spennulaust til lykta sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Með þessu er ég siður en svo að gera lítið úr hlut annarra, enda takast samningar ekki nema með vilja allra."

Vilhjálmur Egilsson er örugglega maður vikunnar.


Óbreyttir vextir í raun vaxtahækkun

Seðlabankinn hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 13,75% enn um sinn að minnsta kosti. Ákvörðun bankans þýðir að í raun hefur aðhald í peningamálum verið aukið og vextir hækkaðir hlutfallslega.

Seðlabankar helstu viðskiptalanda okkar hafa á undanförnum vikum lækkað stýrivexti og sumir verulega eins og sá bandaríski. Þetta þýðir einfaldlega að vaxtamunur milli Íslands og annarra landa hefur aukist og því er í raun um vaxtahækkun að ræða.

Ákvörðun bankans eru vonbrigði því flestum má vera ljóst að verulega er að hægjast á efnahagslífinu og þó enn sé undirliggjandi þrýstingur á verðlag voru rök fyrir því að lækka vexti strax. Ég hef raunar haldið því fram að hinir háu stýrivextir hér á landi séu hættir að virka og að í raun ýti þeir fremur undir verðbólgu en hitt.

Tvennt kann að skýra hvers vegna Seðlabankinn er tregur til að lækka vexti. Annars vegar óvissa vegna kjarasamninga og hins vegar vantrú bankans á fjármálastjórnun opinberra aðila. Flest bendir til að kjarasamningar náist á skynsamlegum nótum. Þá stendur eftir fjármálastjórnun ríkissjóðs og sveitarfélaga. Af þeim vettvangi er hins vegar fátt til að hughreysta mennina við Kalkofnsveg.


Sjálfstæðisflokkur í vanda

Skoðanakönnunin staðfestir þann vanda sem Sjálfstæðisflokkurinn á við að glíma vegna vandræðagangsins í Reykjavík. Því miður virðist mér sem að margir í forystusveit flokksins átti sig ekki á þeirri einföldu staðreynd að staðan í Reykjavík hefur haft áhrif á fylgi flokksins um allt land. Sumir eru tilbúnir til að berja hausnum frekar við stein en að horfast í augum við staðreyndir.

Ógöngur borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar er ekki einkamál kjörinna fulltrúa í borgarstjórn. Allir sjálfstæðismenn um allt land þurfa að glíma við vandann í Reykjavík líkt og skoðanakönnunin leiðir í ljós, en hún var raunar tekin nokkru áður en síðustu atburðir áttu sér stað. Líklegt má telja að niðurstaða væri enn verri ef könnun yrði gerð í þessari viku.

Hvernig stjórnmálamaður mætir andbyr og bregst við erfiðleikum segir meira um viðkomandi en flest annað. Sumir standa sterkari á eftir en aðrir hrekjast undan vindi og rísa ekki undir því trausti sem kjósendur hafa sýnt þeim. Hvort, hvernig og með hvaða hætti stjórnmálamaður tekst á við mistök er mælistika á það hvernig stjórnmálamaður hann er. Þá kemur í ljós hvort viðkomandi býr yfir forystuhæfileikum.

Það blæs hressilega á móti Sjálfstæðisflokknum þessar vikurnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur siglt lygnan sjó og raunar verið meðbyr í seglin frá því að Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tóku við forystunni árið 2005. Nú reynir hins vegar fyrst verulega á hæfileika þeirra til forystu.

Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins verða að taka á málum af festu og þá dugar ekki að benda aðeins á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og REI-málið. Þá er nauðsynlegt að líta til upphafsins, en ekki síður fara yfir hvernig staðið hefur verið að verki hjá starfsmönnum flokksins síðustu daga og vikur.


mbl.is Samfylkingin stærst allra flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúður í Valhöll skrifast ekki á Vilhjálm Þ.

Kannski svíkur minnið, en ég hef aldrei séð nöturlegri framkvæmd á blaðamannafundi stjórnmálaleiðtoga og í Valhöll þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, leiðtogi sjálfstæðismanna í Reykjavík, boðaði fjölmiðlunga á sinn fund til að greina þeim frá því að hann ætli sér að sitja áfram í borgarstjórn en um leið vilji hann taka sér tíma til að hugleiða stöðu sína sem verðandi borgarstjóri eftir ellefu mánuði eða svo.

Ekki er hægt að skrifa reikninginn fyrir klúðrinu á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson. Starfsmenn Sjálfstæðisflokksins undir forystu framkvæmdastjóra flokksins áttu að sjá um að allt gengi vel fyrir sig og að fundurinn yrði eða gæti orðið upphafið að nýrri sókn í höfuðborginni. Umgjörð og skipulag blaðamannafundarins var þvert á móti með þeim hætti að vandi Sjálfstæðisflokksins er enn meiri en fyrir hann.

Furðuleg og raunar óafsakanleg framkoma í garð blaðamanna gerði allt illt verra. Það var eins og það hefði verið skipulagt sérstaklega að klúðra fundinum. Eftir áratuga baráttu fyrir Sjálfstæðisflokksins á Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson a.m.k. þá kröfu að starfsmenn flokksins leggi sig alla fram við að aðstoða hans í baráttu fyrir pólitísku lífi.

Greinilegt er að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur ekki aðgang að mörgum góðum ráðgjöfum. Furðulegt var að hann skyldi einn og óstuddur sitja fyrir svörum blaðamanna í Valhöll til að tilkynna að hann héldi áfram í borgarstjórn en tæki sér tíma til að huga að sinni stöðu að öðru leyti. Fyrst það var niðurstaða á fundi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að oddviti þeirra tæki enga róttæka ákvörðun um sína fram tíð - að svo komu máli - þá áttu þeir að sýna samstöðu í verki og standa við bakið á Vilhjálmi á blaðamannafundinum. 

Í moldviðri stjórnmálaátaka er mikilvægt að ráðgjafar séu til staðar enda er oft erfitt fyrir þann sem stendur í miðju moldviðris að átta sig á hvert skuli halda. Starfsmenn Valhallar brugðust Vilhjálmi og borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Afleiðingin er sú að vandi flokksins er enn meiri en ella.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband