"Mjúkir peningar" fjármagna stjórnmálin. Hver fjármagnar Framtíðarlandið?

Rétt fyrir síðustu jól samþykkti Alþingi lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna, en formenn allra flokka stóðu að málinu. Þar eru strangar reglur settar um fjárstyrki til stjórnmálaflokka. Nú getur enginn lagt meira að mörkum en 300 þúsund. Fyrir nokkrum dögum komust flokkarnir síðan að sameiginlegri niðurstöðu um hámark auglýsingakostnaðar fyrir komandi kostnaðar.

Allt er þetta svo sem gott og blessað en eins og svo oft áður er góður vilji ekki nægjanlegur til að tryggja að niðurstaðan verði eins og að er stefnt. Augljóst er að það sem í bandarískum stjórnmálum er kallað "soft money" mun leita sér að farvegi hér á landi eins og þar.

Hagsmunasamtök munu í ríkari mæli snúa sér að þjóðmálabaráttu, stofnuð verða samtök til að berjast fyrir hinu eða þessu (ekki síst fyrir sérhagsmuni á kostnað almennings) og oftar en ekki í skjóli fjársterkra aðila.

Við erum þegar farin að sjá þessa þróun hér á landi.

Framtíðarlandið hefur verið með mjög mikla markaðsherferð á síðustu vikum til þess að sannfæra landsmenn að skrifa undir sáttmála um framtíð Íslands - hvorki meira né minna. Skilaboðin eru skýr: Annað hvort ertu Grænn og góður eða grár og leiðinlegur sem hugsar ekki um framtíð æskunnar.

Um kl. 14.00 höfðu aðeins 8.525 manns skrifað undir á vef samtakanna, sem verður að teljast frekar rýr eftirtekja miðað við auglýsingar og fjölmiðlafárið sem ríkt hefur.

Augljóst er að markaðsherferð Framtíðarlandsins kostar verulega fjármuni en ekki hefur fram til þessa verið gefið upp með hvaða hætti kostnaðurinn er greiddur. Ýmir efnaðir einstaklingar hafa verið nefndir til sögunnar, en eftir því sem næst verður komist eru þetta aðeins sögur, sem fást ekki staðfestar.

Herferð Framtíðarlandsins er hins vegar að líkindum aðeins smjörþefur af því sem koma skal hér á landi í náinni framtíð. "Mjúkir peningar" taka við og stjórnmálaflokkarnir standa veikari á eftir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Skiptir einhverju máli hver fjármagnar framtíðarlandið? Eru ekki allir flokkarnir að keppast um hver þeirra sé umhverfisvænstur, og Framsókn gefur meira að segja lítið sem ekkert eftir í þessari grænukeppni. Þjónar það þá ekki bara hagsmunum allra flokka að framtíðarlandið sé að auglýsa?

Kannski er það samt rétt að hagsmunasamtök munu spila stærri rullu en stjórnmálaflokkar í komandi kosningum vegna þessara laga og ramma á auglýsingastarfsemi þeirra.. það er svo aftur spurning hvort það sé eitthvað vont. 

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 30.3.2007 kl. 15:47

2 identicon

Hernaður Framtíðarlandsins er afar ósmekklegur svo ekki sé meira sagt. Inntakið er að gera þingmenn græna eða gráa, fá þá til að gefa út afdráttarlausa með eða á móti stóriðjuframkvæmdum. Annað hvort er þingmaðurinn með eða á móti. Þeir sem standa að Framtíðalandinu virðast samkvæmt þessu sjá heiminn í svart / hvítu - og mér finnst ósanngjarnt að stilla þingmönnum rétt eins og öðrum upp við vegg hvað varðar afstöðu til álverksmiðja eða annara málaflokka. Á tímum hins pólitíska rétttrúnaðar er þetta hins vegar raunin - en vonandi eru tímar meira umburðarlyndis handan við hornið.

Kveðja,

Sigurður Bogi Sævarsson

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband