Samfylkingin vill að 2+2 verði 3 á næsta kjörtímabili

Ég á erfitt með að átta mig á því hvernig Samfylkingin ætlar annars vegar í stórátak í samgöngumálum, byggja upp þjónustu við aldraða og rétta kjör þeirra, efla menntakerfið o.s.frv. en á sama tíma að draga úr ríkisútgjöldum. Þetta er svona svipað og reyna að fá töluna 3 út þegar glímt er við reiknidæmið 2+2 (sem vefst jafnvel fyrir hinu greindasta fólki.

Í gær kynnti Samfylkingin sérstaka skýrslu sem Jón Sigurðsson, fyrrum ráðherra og seðlabankastjóri, vann að ásamt fleirum. Skýrslan ber heitið Jafnvægi og framfarir - ábyrg efnahagsstefna.

Ég ætla ekki að fara í smáatriðum ofan í skýrslu Jóns Sigurðssonar, en þar er margt athyglisvert þó ekki geti ég skrifað undir allar ályktanir sem þar eru dregnar. Á einum stað segir hins vegar:

"Bætt fjárhagsstaða ríkissjóðs ætti að auðvelda ríkinu að takast á við óvissar efnahagshorfur þegar til lengdar lætur, en um þessar mundir skiptir mestu máli að fjármálastjórn ríkisins miðist við að sporna við verðbólguþrýstingi svo ekki hvíli allt á stýrivöxtum Seðlabankans. Þetta verður aðeins gert með því að draga úr útgjöldum ríkisins og fjárfestingaráformum sem ríkisvaldið getur haft áhrif á. Það hefur ekki verið gert. Þvert á móti hafa ríkisútgjöldin verið aukin verulega á síðustu árum þrátt fyrir ofþenslu í hagkerfinu. Einkum er þetta aðhaldsleysi greinilegt í þróun ríkisútgjalda 2006 og í fjárlögum 2007."

Niðurstaðan er því einföld: Fjármálastjórn ríkisins verður að miðast við að draga úr útgjöldum ríkisins og fjárfestingum. Einfalt og rétt.

Fyrir landsfund Samfylkingarinnar sem hefst á morgun liggja hins vegar allt aðrar tillögur sem ganga þvert á hugmyndafræði Jóns Sigurðsson. Þar er lagt til að fjárfestingar í vegagerð verði stórauknar, að ekki sé minnst á fjárútgjöld er tengjast öldruðum og námsmönnum og raunar felstum öðrum landsmönnum.

Samfylkingin vill samkvæmt drögunum:

"1. Ráðast í stórátak í samgöngumálum í þeim tilgangi að stytta vegalengdir, t.d. með jarðgöngum til að auka öryggi vegfarenda, sameina atvinnusvæði og tryggja íbúum greiðan aðgang að allri helstu þjónustu.

2. Endurvekja strandsiglingar sem hagkvæman kost í flutningum.

3. Lækka flutningskostnað.

4. Tryggja öllum íbúum landsins aðgang að háhraða nettenginum á sömu kjörum og á höfuðborgarsvæðinu.

5. Tryggja öruggt farsímasamband á öllum helstu þjóðvegum landsins

6. Byggja upp net háskólastofnana á landsbyggðinni.

7. Skilgreina þau störf á vegum ríkisins sem eru óháð staðsetningu með það í huga að gera íbúum hvar sem er á landinu mögulegt að sinna þeim. Stefnt verður að því að á næsta kjörtímabili verði 1200 slík störf laus til umsóknar.

8. Endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að efla sveitarfélögin og færa til þeirra ný verkefni svo sem framhaldsskólann, málefni fatlaðra og aldraðra og nýja tekjustofna svo sem hlutdeild í fjármagnstekjuskatti.

9. Tryggja öfluga heilsugæslu og góða þjónustu sjúkrahúsa á landsbyggðinni

10. Tengja stærri heilbrigðisstofnanir betur við þjónustusvæði sín með öruggari samgöngum í lofti og á landi.

11. Styrkja menningarstarf á landsbyggðinni og menningartengda ferðaþjónustu

12. Tvöfalda jöfnunarsjóðs til náms.

13. Efla fornleifasjóð til fornleifauppgreftrar m.a. til að efla menningartengda ferðþjónustu á landsbyggðinni.

14. Tryggja bændum athafnafrelsi til vöruþróunar, frekari vinnslu og sölu eigin afurða.

15. Þróa stuðning við búsetu í sveitum t.d. með byggðatengdum greiðslum.

16. Efla íslenskan landbúnað og tryggja honum bætta stöðu með áherslu á fullvinnslu og hreinleika afurðanna.

17. Leita allra leiða til að lækka rekstrarkostnað í landbúnaði svo sem fóður-, flutnings- og raforkukostnað.

18. Beita sér fyrir sérstöku átaksverkefni til næstu ára í atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni.

19. Setja af stað staðbundin vaxtarverkefni til að snúa við neikvæðri byggðaþróun.

20. Tryggja að ríkisvaldið gæti meðalhófs í kröfugerð sinni um þjóðlendur og leiti sátta við landeigendur og virði þinglýsta eignarsamninga."

Kannski mér fyrirgefist að koma þessu ekki öllu heim og saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er leikur einn.Það má spara verulegar fjárhæðir t.d. með því að hætta spillingargreiðslum til s.k. ráðgjafa ( 3 milljarðar ),fækka verulega starfsfólki í stjórnarráðinu en þar er engin framlegð.Bjóða framkvæmdir út á evrópska efnahagssvæðinu ( vekja athygli bjóðenda á að hægt er að sækja um gjafsókn til að

hnekkja spilltri ákvörðun, t.d. ef Ístak eða IAV fá verkin á spillingarinnsoginu).Einnig

væri hægt að breyta hegningarlögum og gera það refsiverða háttsemi að snuða ríkissjóð, t.d. þegar  spilltir stjórnmálamenn taka dýrasta tilboðinu.Raunar held ég

að mjög mikilvægt sé að breyta hegningarlögum þannig að þeir sem fara fram úr fjárlögum séu sekir um refsiverða háttsemi ( gripdeild á almannafé ) .Þannig að

opinberir starfsmenn séu ekki verðlaunaðir fyrir að eyða um efni fram eins og nú tíðkast..

Kveðjur

Jónas 

jonas (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband