Blaðið, Mogginn og fjölmiðlalögin

Forráðamenn Árvakurs tilkynntu á föstudag á félagið hefði eignast allt hlutafé í Ár og degi, útgáfufélagi Blaðsins.

Aðdragandi kaupanna hefur verið nokkuð langur en fyrir einu og hálfu ári keypti Árvakur helmings hlut í Blaðinu. Með kaupunum á öllu hlutafé mun vera ætlunin að sameina rekstur Morgunblaðsins og Blaðsins undir merkjum Árvakurs. Merkilegt er að kaup Árvakurs á helmings hlutnum, á sínum tíma, hefðu ekki náð fram að ganga, ef fjölmiðlalögin hefðu öðlast gildi, en Morgunblaðið barðist á sínum tíma mjög fyrir þeim lögum.

"Það er mikilvægt fyrir Árvakur að eiga sterka stöðu á fríblaðamarkaði. Blaðið hefur nú fest sig rækilega í sessi og við ætlum að styrkja rekstur þess enn með þessari sameiningu," hefur mbl.is meðal annars eftir Einari Sigurðssyni forstjóra Árvakurs.

Hefði ósk Morgunblaðsins ræst og fjölmiðlalögin tekið gildi væri Árvakur að líkindum ekki í þeim sporum að yfirtaka Blaðið að fullu. Mér er til efst að helstu hluthafar Árvakurs hefðu verið tilbúnir fyrir 18 mánuðum að kaupa Blaðið, með manni og mús, með það fyrir augum að sameina rekstur blaðanna, eins og nú er stefnt að. (Aðeins með því að yfirtaka og sameina eignarhaldið undir einn hatt, hefði yfirtaka verið möguleg, ef ákvæði fjölmiðalaga um eignarhald gilti).

Og það sem meira er hin upprunalegu fjölmiðlalög hefðu ekki aðeins kallað á uppstokkun í eigendahópi Árvakurs, heldur að líkindum komið í veg fyrir að nýir hluthafar kæmu til liðs við útgáfufélagið með þeim hætti og raun varð á.

Forvitnilegt verður að fylgjast með hvernig staðið verður að verki við samþættingu á rekstri þessara tveggja blaða. Ritstjórnir verða augljóslega aðskildar, en stoðdeildir ýmsar s.s. auglýsingadeildir með einhverjum hætti samtvinnaðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband